Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 878. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1336  —  878. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr. 64/1965, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
a.      Orðin „Rannsóknastofnun landbúnaðarins“ í 1. mgr. 9. gr. falla brott.
b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands skulu stundaðar rannsóknir í þágu landbúnaðarins á sérstöku rannsóknasviði er hafi aðgreindan fjárhag frá annarri starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands.

2. gr.

    V. kafli laganna, er hefur fyrirsögnina Rannsóknasvið Landbúnaðarháskóla Íslands, verður svohljóðandi:

    a. (29. gr.)
    Við Landbúnaðarháskóla Íslands skal starfrækt sérstakt rannsóknasvið þar sem stundaðar skulu rannsóknir í þágu landbúnaðarins eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum og lögum um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999.

    b. (30. gr.)
    Hlutverk rannsóknasviðs Landbúnaðarháskóla Íslands er að afla og miðla þekkingu um fjölþætt hlutverk landbúnaðar sem byggist á íslenskri náttúru og menningararfleifð. Meðal verkefna sviðsins eru rannsóknir er lúta að meðferð, ræktun og nýtingu lands, búfjár og ferskvatnsdýra til framleiðslu matvæla og annarrar atvinnu- og verðmætasköpunar, sem og rannsóknir er lúta að sjálfbærri og fjölþættri landnýtingu og umhverfismótun.

    c. (31. gr.)
    Landbúnaðarháskóli Íslands hefur umráð yfir þeim tilraunastöðvum á sviði landbúnaðar sem ríkið á.
    Landbúnaðarháskóla Íslands er heimilt, að fengnu samþykki landbúnaðarráðherra, að eiga aðild að og stofna rannsóknar- og þróunarfyrirtæki í hlutafélagaformi eða félög með takmarkaðri ábyrgð er þrói hugmyndir og hagnýti niðurstöður rannsóknar- og þróunarverkefna sem stofnunin vinnur að hverju sinni.

3. gr.

    Orðin „Eignir búnaðardeildar skulu falla til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins“ í 57. gr. laganna falla brott.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2005. Við gildistöku laga þessara tekur Landbúnaðarháskóli Íslands við öllum eignum og skuldum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins.

5. gr.

Breytingar á öðrum lögum.


1.      Í stað orðanna „Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri“ í 1. mgr. 16. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998, kemur: Landbúnaðarháskóla Íslands, sem tilnefnir tvo menn.
2.      Eftirfarandi breytingar verða á lögum nr. 63/1989, um Hagþjónustu landbúnaðarins:
                  a.      Í stað orðanna „Bændaskólans á Hvanneyri“ í 2. mgr. 1. gr., 1. mgr. 3. gr. og í 11. gr. laganna kemur: Landbúnaðarháskóla Íslands.
                  b.      6. tölul. 2. gr. laganna orðast svo: Að hafa samstarf við búvísindadeild Landbúnaðarháskóla Íslands um kennslu í landbúnaðarhagfræði.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um breytingu á lögum um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, með síðari breytingum. Frumvarpinu er ætlað að gera mögulega sameiningu Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Í frumvarpinu er því meðal annars kveðið á um nauðsynlega nafnbreytingu og nánar kveðið á um verksvið nýrrar sameinaðrar stofnunar. Ákvæði er tengjast Rannsóknastofnun landbúnaðarins eru auk þess felld brott úr lögunum. Rétt þótti að fara þá leið að hafa áfram í lögunum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna ákvæði er fjölluðu almennt um rannsóknir í landbúnaði í stað þess að eingöngu kveða á um rannsóknirnar í lögum um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999. Þótti sú leið betri til að gæta ákveðins samræmis.
    Markmiðið með þessum breytingum er að stuðla að eflingu kennslu og rannsókna í landbúnaði með aukinni samþættingu fræðslu-, leiðbeininga- og rannsóknarstarfs. Í frumvarpi að breytingu á lögum nr. 57/1999, um búnaðarfærðslu, sem lagt er fram samhliða segir eftirfarandi um tilgang laganna:
    „Meginmarkmiðið með lagafrumvarpi þessu er að efla kennslu og rannsóknir í landbúnaði með því að endurskoða stofnanaskipan landbúnaðarins og sameina undir eina yfirstjórn Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri.
    Á undanförnum árum hafa Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Rannsóknastofnun landbúnaðarins átt með sér náið samstarf á ýmsum sviðum, enda er markmið beggja stofnana að efla íslenskan landbúnað. Samstarf stofnananna hefur gengið vel og farið vaxandi. Samruni þeirra er lykilatriði í þeirri samþættingu verkefna sem nauðsynleg er til þess að starfsemin eflist enn frekar. Kostir sameiningar felast m.a. í því að kennslu- og rannsóknastarfsemi verður heildstæðari, starfsfólki bjóðast fjölbreyttari verkefni og fjármagn nýtist betur. Á sama tíma ætti nemendum að bjóðast fjölbreyttari tækifæri til að afla sér menntunar og reynslu af og þátttöku í rannsóknum.
    Með lögum þessum eru stofnanirnar Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Rannsóknastofnun landbúnaðarins lagðar niður. Á grunni þessara tveggja stofnana verður til ný öflug mennta- og rannsóknastofnun, Landbúnaðarháskóli Íslands, sem tekur við öllum verkefnum, eignum og skuldbindingum eldri stofnananna tveggja.“

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er nafn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins fellt brott úr lögunum og kveðið á um að rannsóknir í landbúnaði verði stundaðar í nýrri stofnun, Landbúnaðarháskóla Íslands. Samhliða er stjórnsýsluleg staða skýrð, en í kjölfar sameiningar verða landbúnaðarrannsóknir hluti af stærri heild og stundaðar á sérstöku rannsóknasviði háskólans. Kveðið er á um að rannsóknasvið Landbúnaðarháskóla Íslands hafi sjálfstæðan fjárhag og er gert ráð fyrir að rektor og háskólaráð útfæri það ákvæði nánar í rekstraráætlun hvers árs.

Um 2. gr.


    Í V. kafla laganna er fjallað um landbúnaðarrannsóknir. Efnisbreytingar eru þær að ákvæði sem fjalla um skipan stjórnar og forstjóra eru falla brott en þess í stað kemur skilgreining á landbúnaðarrannsóknum og þær felldar undir rannsóknasvið Landbúnaðarháskóla Íslands. Gert er ráð fyrir að það hafi heimild til að eiga aðild að rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum að fengu samþykki ráðherra, eins og Rannsóknastofnun landbúnaðarins hefur haft. Sambærilegt ákvæði á við um aðrar rannsóknarstofnanir sem falla undir þessi lög.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 4. gr.


    Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að Landbúnaðarháskóli Íslands taki við öllum eignum, skuldbindingum og starfsemi Rannsóknastofnunar landbúnaðarins þegar lögin öðlast gildi.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um rannsóknir
í þágu atvinnuveganna, nr. 64/1965, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er verið að sameina starfsemi, eignir og rekstur Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri sem framvegis mun heita Landbúnaðarháskóli Íslands samkvæmt frumvarpi um breytingu á lögum um búnaðarfræðslu, nr. 56/1999, sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi. Markmiðið er að efla kennslu og rannsóknir í landbúnaði með samþættingu fræðslu-, leiðbeiningar- og rannsóknastarfs.
    Reiknað er með að öllu starfsfólki Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins verði boðin sambærileg störf við Landbúnaðarháskóla Íslands. Ef til biðlauna, tilfærslna eða annars kostnaðar kemur við sameininguna er gert ráð fyrir að sá kostnaður rúmist innan fjárheimilda stofnunarinnar og hafi því ekki áhrif á stöðu ríkissjóðs, verði frumvarpið óbreytt að lögum.