Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 879. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1337  —  879. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, með síðari breytingum .

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Lög þessi taka til menntastofnana landbúnaðarins sem eru Landbúnaðarháskóli Íslands, Hólaskóli og Garðyrkjuskóli ríkisins.

2. gr.

    Í stað orðanna „Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri“ í 4. gr. laganna kemur: Landbúnaðarháskóla Íslands.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
a.      Í stað orðanna „almennar reglur“ í 1. mgr. kemur: reglugerð.
b.      Við 1. mgr. bætist nýr töluliður, 4. tölul., er orðast svo: Verkaskiptingu á milli skólanna.
c.      2. mgr. fellur brott.

4. gr.

    Við 17. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 1. mgr., svohljóðandi:
    Við Landbúnaðarháskóla Íslands skal starfrækt sérstakt rannsóknasvið, sbr. V. kafla laga nr. 64/1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, með síðari breytingum.

5. gr.

    Í stað orðanna „Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri“ í 21. gr. laganna kemur: Landbúnaðarháskóli Íslands.

6. gr.

    22. gr. laganna orðast svo:
    Stjórn Landbúnaðarháskóla Íslands er falin háskólaráði og rektor. Háskólaráð markar stefnu í kennslu og rannsóknum og mótar skipulag skólans.
    Rektor er yfirmaður stjórnsýslu háskólans og ber ábyrgð á rekstri hans. Hann ber ábyrgð á gerð starfs- og rekstraráætlana og að þær séu samþykktar af háskólaráði.
    Rektor er æðsti fulltrúi Landbúnaðarháskóla Íslands gagnvart mönnum og stofnunum innan skólans og utan hans. Hann stýrir starfsemi háskólans og hefur frumkvæði að því að háskólaráð marki sér heildarstefnu í málefnum skólans. Rektor hefur ráðningarvald yfir öllum starfsmönnum skólans. Verkefni rektors skulu nánar skilgreind í erindisbréfi hans.

7. gr.

    23. gr. laganna orðast svo:
    Í háskólaráði eiga sæti:
1.      Háskólarektor sem jafnframt er formaður ráðsins.
2.      Einn fulltrúi skipaður af landbúnaðarráðherra.
3.      Einn fulltrúi tilnefndur af menntamálaráðherra.
4.      Tveir fulltrúar tilnefndir af Bændasamtökum Íslands
5.      Einn fulltrúi tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins.
6.      Einn fulltrúi tilnefndur af háskólaráði Háskóla Íslands.
    Tilnefna skal og skipa bæði aðal- og varamenn í háskólaráð. Landbúnaðarráðherra skipar háskólaráð til fimm ára í senn.

8. gr.

    Í stað orðsins „forseta“ í 24. gr. laganna kemur: formanns.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
a.      Orðin „samkvæmt tilnefningu háskólaráðs“ í 1. mgr. falla brott.
b.      3. mgr. fellur brott.

10. gr.

    Í stað orðanna „Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri“ í 26. og 27. gr. laganna kemur: Landbúnaðarháskóla Íslands.

11. gr.

    28. gr. laganna orðast svo:
    Við Landbúnaðarháskóla Íslands skal starfrækt búnaðarnámsbraut. Heimilt er að ráða kennara að búnaðarnámsbraut skólans sem ekki uppfylla skilyrði til háskólakennslu, skv. 27. gr.
    Um yfirstjórn búnaðarnáms í Landbúnaðarháskóla Íslands fer eftir ákvæðum 22. og 23. gr. og er rektor skólans jafnframt yfirmaður þess.

12. gr.

    Fyrirsögn V. kafla laganna verður: Landbúnaðarháskóli Íslands. Stjórn og starfslið.

13. gr.

    29. gr. laganna orðast svo:
    Hólaskóli og Garðyrkjuskóli ríkisins eru vísinda- og menntastofnanir landbúnaðarins sem veita nemendum sínum menntun og þjálfun á sértækum sviðum íslensks landbúnaðar.

14. gr.

    Fyrirsögn VI. kafla laganna verður: Aðrar menntastofnanir landbúnaðarins. Stjórn og starfslið.

15. gr.


    Við 37. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um skipulag og starfsemi rannsóknasviðs Landbúnaðarháskóla Íslands.

16. gr.

    39. gr. laganna fellur brott.

17. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2005.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Störf hjá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og Rannsóknastofnun landbúnaðarins eru lögð niður við gildistöku laga þessara. Starfsfólki framangreindra stofnana skulu boðin störf hjá Landbúnaðarháskóla Íslands.
    Þrátt fyrir ákvæði 17. gr. laga þessara skal rektor Landbúnaðarháskóla Íslands og nýtt háskólaráð skipað frá 1. ágúst 2004 og skal háskólarektor og háskólaráð frá þeim tíma undirbúa framkvæmd laga þessara.
    Við gildistöku laga þessara tekur Landbúnaðarháskóli Íslands við öllum eignum og skuldbindingum Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins.
    Nemendur sem við gildistöku laganna stunda nám í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri eiga rétt á því að ljúka námi samkvæmt gildandi námsskipulagi skólans við gildistöku laganna. Nemendur geta þó lokið prófum samkvæmt nýju skipulagi ef þeir kjósa svo.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi um breytingu á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr. 64/1965, með síðari breytingum. Í lögum nr. 64/1965 er að finna ákvæði um Rannsóknastofnun landbúnaðarins (RALA) og því er nauðsynlegt að breyta þeim ákvæðum þeirra laga er fjalla um RALA samhliða þeim breytingum sem hér eru lagðar til.
    Meginmarkmiðið með lagafrumvarpi þessu er að efla kennslu og rannsóknir í landbúnaði með því að endurskoða stofnanaskipan landbúnaðarins og sameina undir eina yfirstjórn Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri.
    Á undanförnum árum hafa Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Rannsóknastofnun landbúnaðarins átt með sér náið samstarf á ýmsum sviðum, enda er markmið beggja stofnana að efla íslenskan landbúnað. Samstarf stofnananna hefur gengið vel og farið vaxandi. Samruni þeirra er lykilatriði í þeirri samþættingu verkefna sem nauðsynleg er til þess að starfsemin eflist enn frekar. Kostir sameiningar felast m.a. í því að kennslu- og rannsóknastarfsemi verður heildstæðari, starfsfólki bjóðast fjölbreyttari verkefni og fjármagn nýtist betur. Á sama tíma ætti nemendum að bjóðast fjölbreyttari tækifæri til að afla sér menntunar og reynslu af og þátttöku í rannsóknum.
    Með lögum þessum eru stofnanirnar Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Rannsóknastofnun landbúnaðarins lagðar niður. Á grunni þessara tveggja stofnana verður til ný öflug mennta- og rannsóknastofnun, Landbúnaðarháskóli Íslands, sem tekur við öllum verkefnum, eignum og skuldbindingum eldri stofnananna tveggja.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagðar eru til breytingar þannig að ekki kemur lengur fram staðsetning skólastofnanna landbúnaðarráðuneytisins. Ástæður þessa eru tvíþættar. Í fyrsta lagi eru stofnanirnar með starfsemi á mörgum stöðum á landinu. Landbúnaðarháskóli Íslands kemur til með að vera með starfsstöðvar á Hvanneyri, í Reykjavík, á Möðruvöllum og víðar. Þá er Hólaskóli með starfsemi á Sauðárkróki, auk þess að vera á Hólum í Hjaltadal. Í öðru lagi má segja að með tækni nútímans takmarkast starfsemi skóla ekki lengur við húsnæði eða staðsetningu. Nú eru möguleikar í fjarnámi slíkir að nemendur skóla geta verið hvar sem er á landinu og raunar erlendis líka og staðsetning kennsluhúsnæðis skiptir því minna máli en áður. Fjarnám, bæði á framhaldsskóla- og háskólastigi, hefur aukist langt umfram hefðbundið nám á undanförnum árum og á sú þróun einnig við um landbúnaðarskólana.

Um 2. gr.


    Hér er lögð til nafnbreyting. Heiti nýrrar stofnunar verður Landbúnaðarháskóli Íslands og gilda sömu rök og eiga við um 1. gr. um ástæður þess að heitið vísar ekki til ákveðinnar staðsetningar á landinu.

Um 3. gr.


    Orðið „reglur“ er talið geta valdið misskilningi. Lagt er til að hefðbundnara og stjórnskipulega skýrara heiti verði tekið upp, þ.e. „reglugerð“, þar sem um er að ræða heimild ráðherra til að kveða nánar á um skipulag og starfsemi stofnana.

Um 4. gr.


    Hér er vísað til breytinga á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna og bundið í lög að sérstakt rannsóknasvið verði við Landbúnaðarháskóla Íslands. Er þetta mun meira afgerandi ákvæði heldur en í núverandi búfræðslulögum þar sem einungis er um heimild að ræða til að ráða sérfræðinga til rannsókna. Ákvæðinu er ætlað að styrkja stöðu rannsókna við skólann.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 6. gr.


    Breytingar á 22. gr. laganna miða að því að skýra betur verkaskiptingu háskólaráðs og rektors frá því sem er í gildandi lögum. Háskólaráði er fyrst og fremst ætlað að móta stefnu skólans í kennslu og rannsóknum. Rektor ber hins vegar ábyrgð á allri stjórnsýslu skólans, starfsmannahaldi og rekstri stofnunarinnar. Rektor er jafnframt embættismaður í skilningi 22. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og ber því ábyrgð á að útgjöld séu í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Í gildandi lögum þykir ekki vera um eins skýr skil milli rektors og háskólaráðs að ræða. Eftir breytinguna er því ágreiningslaust að rektor ber endanlega ábyrgð á rekstrarafkomu stofnunarinnar, en háskólaráð og rektor bera í sameiningu ábyrgð á mótun kennslu- og rannsóknastefnu skólans.

Um 7. gr.


    Hér er gerð sú nafnbreyting að orðið „forseti“ háskólaráðs fellur brott, en þess í stað kemur orðið „formaður“ ráðsins. Rektor er lögbundinn formaður háskólaráðs og er það ekki breyting frá núverandi lögum. Lagt er til að ráðið sé skipað sjö mönnum og er það óbreytt skipan, en tilnefningar breytast töluvert. Einn megintilgangur frumvarpsins er að ná fram öflugri tengslum sameinaðar stofnunar við atvinnulífið og stuðla þannig að því að gera Landbúnaðarháskóla Íslands að atvinnutengdum háskóla í meira mæli en hjá öðrum ríkisháskólum. Til að ná þessu fram er lögð til breyting á tilnefningum í háskólaráð. Í stað fulltrúa kennara og nemenda kemur tilnefning frá Samtökum atvinnulífsins, auk þess sem fulltrúum Bændasamtaka Íslands fjölgar úr einum í tvo. Í lögum um háskóla, nr. 136/1997, er kveðið á um að í háskólaráði ríkisháskóla skuli sitja fulltrúar bæði nemenda og starfsmanna. Hér er því lögð til önnur skipan en kveðið er á um í rammalögum um háskóla í ljósi þeirrar auknu tengingar við atvinnulífið sem er eitt af höfuðmarkmiðum lagabreytinganna.

Um 8. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 9. gr.


    Lagt er til að landbúnaðarráðherra sé ekki bundinn af tilnefningu háskólaráðs þegar hann skipar rektor. Er það í samræmi við hefðbundin sjónarmið stjórnsýsluréttar að ráðherra beri einn ábyrgð á ráðningu forstöðumanna stofnana undir hans yfirstjórn. Einnig er lagt til að ekki þurfi að koma til samþykki háskólaráðs áður en ráðherra leysir rektor frá störfum. Telja verður óeðlilegt að samstarfsmenn rektors í háskólaráði eða varamenn þeirra fái ráðið því hvort ráðherra leysir rektor frá störfum eða ekki. Þar sem ráðherra skipar rektor þykir rétt að ráðherra beri einnig ábyrgð á brottvikningu hans samkvæmt ákvæðum laga. Ráðherra er við brottvikningu rektors bundinn af ákvæðum starfsmannalaganna.

Um 10.–14. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 15. gr.


    Gert er ráð fyrir því að landbúnaðarráðherra geti sett reglugerð sérstaklega um rannsóknasvið Landbúnaðarháskólans. Með þessu ákvæði kemur fram ákveðin sérstaða rannsóknasviðsins umfram önnur svið sem ekki er sérstaklega getið um í lögunum, heldur eru háð því skipulagi sem rektor og háskólaráð móta hverju sinni.

Um 16. gr.


    Greinin sem fjallar um yfirtöku Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri á öllum eignum og skuldbindingum Bændaskólans á Hvanneyri á ekki lengur við í lögunum, í stað hennar kemur bráðabirgðaákvæði þess efnis að Landbúnaðarháskóli Íslands taki við öllum eignum og skuldum Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins.

Um 17. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Rétt þykir að gefa þeim sem hafa til þessa unnið hjá stofnunum tveimur, kost á að sinna áfram stöfum í þjónustu hinnar nýju stofnunar. Er því lagt til að lögin kveði á um að þeim verði boðin störf hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. Ákvæðið felur jafnframt í sér að hér megi víkja frá ákvæðum laga um auglýsingu opinberra starfa sem laus eru til umsóknar. Þó er gert ráð fyrir að staða rektors Landbúnaðarháskóla Íslands verði auglýst.
    Ljóst er að það kallar á nokkra vinnu að undirbúa framkvæmd laganna og því er lagt til að rektor og nýtt háskólaráð verði ráðið til starfa 1. ágúst 2004 til að sinna undirbúningi áður en eiginleg starfsemi hefst í nýrri sameinaðri stofnun.
    Með frumvarpi þessu er verið að leggja niður tvær stofnanir og stofna eina nýja sem yfirtekur öll verkefni, efnahag og starfsemi Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri.
    Eðlilegt þykir að nemendur geti haldið áfram námi óháð sameiningu stofnana og því er þeim gefinn kostur á því að ljúka núverandi námi samkvæmt gildandi námskrá og er bráðabirgðaákvæði þess efnis sambærilegt við ákvæði sama efnis er Bændaskólinn á Hvanneyri varð að háskóla árið 1999.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er verið að mæla fyrir breytingum á skipulagi búnaðarfræðslu í landinu, sér í lagi breytingum á æðstu stjórn Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri auk þess sem nafni skólans er breytt í Landbúnaðarháskóla Íslands. Samhliða þessu frumvarpi er lagt fram frumvarp um breytingu á lögum nr. 64/1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, þar sem lagt er til að Rannsóknastofnun landbúnaðarins verði sameinuð Landbúnaðarháskóla Íslands.
    Reiknað er með að öllu starfsfólki Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri verði boðin sambærileg störf við Landbúnaðarháskóla Íslands. Ef til biðlauna, tilfærslna eða annars kostnaðar kemur við skipulagsbreytingarnar er gert ráð fyrir að sá kostnaður rúmist innan fjárheimilda stofnana og hafi því ekki áhrif á stöðu ríkissjóðs verði frumvarpið óbreytt að lögum.