Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 615. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1226  —  615. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um vegabréf, nr. 136 22. desember 1998.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hauk Guðmundsson frá dómsmálaráðuneyti. Umsagnir um málið bárust frá Sýslumannafélagi Íslands, Persónuvernd, ríkislögreglustjóra, lögreglustjóranum í Reykjavík, Alþjóðahúsinu ehf., Útlendingastofnun, Umboðsmanni barna og Alþýðusambandi Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögum um vegabréf vegna alþjóðlegra krafna um rafræn lífkenni í vegabréfum. Þá er einnig lagt til að ábyrgð á útgáfu almennra vegabréfa færist frá Útlendingastofnun til Þjóðskrár en Útlendingastofnun mun áfram sjá um útgáfu vegabréfa fyrir útlendinga og ferðaskilríki fyrir flóttamenn.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að öll vegabréf sem gefin hafa verið út á Íslandi eftir 1. júní 1999 eru tölvulesanleg með andlitsmynd en geyma ekki önnur stöðluð rafræn lífkenni sem samkvæmt frumvarpinu eru t.d. augnmynd, fingraför eða önnur líkamleg einkenni sem unnt er að mæla með ákveðinni tækni sem hentar fyrir vélrænan samanburð. Kom fram að með breytingunum sem lagðar eru til í frumvarpinu er ætlunin að auka öryggi vegabréfa sem skilríkja og nákvæmni auðkenningar ásamt því að uppfylla alþjóðlegar kröfur og samræmdar kröfur Schengen-ríkjanna.
    Nefndin ræddi á fundum sínum um skilríkjaskrá sem Þjóðskrá heldur en í hana eru skráðar og varðveittar þær upplýsingar sem safnað er til útgáfu á skilríkjum, þ.m.t. upplýsingar um lífkenni. Þá ræddi nefndin um meðferð upplýsinganna og þann mun sem er annars vegar á því að bera kennsl á mann og hins vegar að staðreyna að hann sé sá sem hann kveðst vera. Telur nefndin mikilvægt að fyllsta öryggis verði gætt, bæði hvað varðar aðgang að upplýsingum um lífkenni í skilríkjaskrá og vegabréfum svo og um gæði og áreiðanleika þeirra lífkenna sem unnið verður með í skránni. Með vísan til þeirrar meginreglu persónuréttar að persónuupplýsingar skuli unnar í skýrum, yfirlýstum og málefnalegum tilgangi leggur nefndin áherslu á að ráðherra setji sem fyrst reglur um aðgang að upplýsingum og að hann takmarkist við þá sem þurfa að hafa aðgang vegna fyrir fram ákveðins tilgangs, svo sem við afgreiðslu vegabréfsumsókna eða vegna landamæraeftirlits. Leggur nefndin því áherslu á að ráðherra setji sem allra fyrst reglur sem vísað er til í a-lið 9. gr. frumvarpsins.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að umsóknarferli verður að langmestu leyti óbreytt. Áfram verður sótt um vegabréf hjá sýslumönnum en helsta breytingin er að í Reykjavík verður það gert hjá lögreglustjóra í stað Útlendingastofnunar. Nefndin leggur áherslu á að ráðuneytið kynni ítarlega þær mismunandi reglur sem gildi um eldri vegabréf sem ferðaskilríki milli landa.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    10. gr. orðist svo:
              Lög þessi öðlast þegar gildi.

    Atli Gíslason sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur álitinu.

Alþingi, 28. apríl 2006.



Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Ágúst Ólafur Ágústsson.



Birgir Ármannsson.


Björgvin G. Sigurðsson.


Kjartan Ólafsson.



Sigurjón Þórðarson.


Ingvi Hrafn Óskarsson.


Guðrún Ögmundsdóttir.