Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 463. máls.

Þskj. 737  —  463. mál.



Frumvarp til laga

um brottfall laga nr. 14/1942, um læknaráð.


(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Lög nr. 14/1942, um læknaráð, falla úr gildi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í heilbrigðisráðuneytinu að fenginni umsögn landlæknis, dóms- og kirkjumálaráðuneytis, ríkissaksóknara og ríkislögmanns.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að lög nr. 14/1942, um læknaráð, verði felld brott og þar með verði læknaráð lagt niður. Læknaráð hefur starfað í óbreyttri mynd frá árinu 1942 þegar samþykkt var á Alþingi frumvarp til laga um læknaráð. Í greinargerð með frumvarpinu sem samþykkt var árið 1942 kemur fram að talið var að ýmsar nýjungar í heilbrigðislöggjöf hefðu orðið þess valdandi að dómsmálum sem snertu lækna og læknisfræðileg efni færi fjölgandi. Töldu menn að lítt væri séð fyrir endann á þeirri þróun. Erfitt væri fyrir ólæknisfróða dómara að skera úr um slík mál á viðhlítandi hátt og því væri nauðsynlegt ráð læknisfróðra manna. Reglugerð um starfsháttu læknaráðs, nr. 192/1942, var sett með stoð í lögunum. Hvorki lögunum né reglugerð hefur verið breytt frá því þau voru sett.

Starfshættir læknaráðs samkvæmt gildandi löggjöf.
    Samkvæmt 1. gr. laga nr. 14/1942, um læknaráð, eiga þar sæti níu læknar. Þeir eru landlæknir, sem er forseti, kennarar í réttarlæknisfræði, heilbrigðisfræði og lyfjafræði við Háskóla Íslands, yfirlæknir lyflæknisdeildar og handlæknisdeildar Landspítalans, yfirlæknar geðveikrahælis ríkisins og Tryggingastofnunar ríkisins og formaður Læknafélags Íslands. Samkvæmt þessu er það starfsskylda þeirra sem skipaðir eru í fyrrnefndar stöður að vera í læknaráði. Hlutverk læknaráðs er að láta dómstólum, ákæruvaldi og stjórn heilbrigðismálanna í té sérfræðilegar umsagnir varðandi læknisfræðileg efni og skal ráðið ekki láta önnur mál til sín taka en þau sem borin hafa verið undir það og af þeim aðilum sem lögin tilgreina.
    Samkvæmt reglugerð um starfsháttu læknaráðs skal það starfa í þremur þriggja manna deildum, réttarmáladeild, heilbrigðismáladeild og siðamáladeild.
    Réttarmáladeild er skipuð kennara í réttarlæknisfræði við háskólann, sem er formaður deildarinnar, yfirlækni geðveikrahælis ríkisins og yfirlækni handlæknisdeildar Landspítalans. Deildin fjallar um réttarmál, þ.e. mál frá dómstólum eða ákæruvaldi. Á undanförnum árum hefur réttarmáladeild læknaráðs komið saman milli 5–10 sinnum á ári.
    Í heilbrigðismáladeild eiga sæti landlæknir, sem er formaður, kennari í heilbrigðisfræði við háskólann og yfirlæknir lyflæknisdeildar Landspítalans. Heilbrigðismáladeild skal fjalla um heilbrigðismál en hún hefur ekki komið saman síðan árið 1948.
    Í siðamáladeild eiga sæti læknaráðsmaður sem er sérstaklega kjörinn af læknaráði og er hann formaður, kennari í réttarlæknisfræði við háskólann og formaður Læknafélags Íslands. Siðamáladeild skal fjalla um mál varðandi hegðun eða framkomu lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna. Fá mál hafa borist til siðamáladeildar síðustu tíu ár. Helsta ástæðan fyrir því er sú að landlæknir er mun betur í stakk búinn til að taka á kvörtunum og kærum en hér áður.
    Þegar deild læknaráðs hefur lokið afgreiðslu máls endursendir hún forseta ráðsins málsskjöl ásamt álitsgerð. Þar skal rekja málsatvik þannig að stutt en glöggt yfirlit fáist yfir öll atriði sem máli skipta þegar meta skal niðurstöðu álitsgerðarinnar.
    Niðurstaða réttarmáladeildar og heilbrigðismáladeildar hvorrar um sig um mál telst fullnaðarniðurstaða læknaráðs nema læknaráðsmaður krefjist að málið sé borið undir læknaráð í heild. Siðamáladeild gerir á hinn bóginn einungis tillögu til læknaráðs um afgreiðslu máls. Þetta merkir að læknaráð í heild fjallar um öll mál sem siðamáladeild hefur áður gert tillögur um afgreiðslu á og önnur mál ef læknaráðsmaður krefst þess að tillaga deildar fari fyrir læknaráð.

Tilefni frumvarpsins.
    Lögin um læknaráð frá árinu 1942 eru komin til ára sinna og voru þau sett í allt öðru lagaumhverfi en nú gildir og mikið af þeirri þekkingu sem þá var til í læknisfræði mátti sækja til þeirra sem skipuðu læknaráð. Ljóst er að breyttar áherslur hafa orðið í málsmeðferð stjórnsýslunnar frá því að lögin um læknaráð voru sett. Ber helst að nefna þær breytingar sem urðu á málsmeðferð með gildistöku stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Jafnframt hefur læknisfræðin tekið miklum framförum, sérfræðingum fjölgað sem og sérgreinum innan læknisfræðinnar. Það hefur líka mátt greina nú um nokkurn tíma að dómstólar sæju tormerki á því að afla sérfræðilegs álits læknaráðs í einkamálum. Má enn fremur nefna að Hæstiréttur Íslands virðist hættur að óska eftir umsögnum læknaráðs en gefur málsaðilum þess í stað færi á að afla matsgerðar dómkvaddra matsmanna. Við þessar aðstæður virðast lögin ekki þjóna tilgangi sínum.
    Litið hefur verið svo á að hæfisreglur stjórnsýslunnar taki að hluta til starfsemi læknaráðs, eða þegar siðamáladeild gerir tillögu um umsögn læknaráðs í máli sem beint er til ráðsins af heilbrigðisyfirvöldum, en slík umsögn getur verið þáttur í undirbúningi íþyngjandi stjórnvaldsákvörðunar. Þegar umsagnar læknaráðs er hins vegar leitað í tengslum við dómsmál, þá var lengi einungis hæfisregla 5. gr. læknaráðslaga talin gilda. Í greininni er kveðið á um að læknaráðsmaður eigi ekki atkvæðisrétt um mál sem varða hann sjálfan eða umbjóðanda hans eða mál sem hann hefur persónulega eða í embættisnafni tekið afstöðu til áður. Eins og ákvæðið ber með sér felur það ekki í sér matskennda hæfisreglu. Hæstiréttur hefur þá slegið því föstu í dómi sínum frá 3. september 2002 (máli nr. 270/2002) að meðlimir læknaráðs hafi stöðu matsmanna í dómsmáli og þar af leiðandi gildi hæfisreglur um dómkvadda matsmenn sem fram koma í 3. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, jafnframt um þá. Með hliðsjón af þeim hæfisreglum sem gilda um ráðsmenn læknaráðs má draga þá ályktun að vafasamt sé að þeir ráðsmenn læknaráðs sem koma frá Landspítala séu hæfir til að fjalla um þau mál er varða Landspítalann, enda má gera ráð fyrir að uppi séu aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni viðkomandi í efa. Þessu til stuðnings má benda á dóm Mannréttindadómstóls Evrópu, dags. 5. júlí 2007, í máli Söru Lindar Eggertsdóttur gegn íslenska ríkinu en þar komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að stefnandi hefði með réttu getað óttast að læknaráð væri ekki með öllu hlutlaust í umfjöllun sinni um málið fyrir Hæstarétti í ljósi þess að fjórir þeirra sem sátu í læknaráði störfuðu hjá Landspítalanum. Dómstóllinn taldi því að brotið hefði verið gegn 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um rétt manna til málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli, og dæmdi stefnanda bætur og málskostnað.
    Eins og fram kemur hér á undan eru ekki lengur fyrir hendi þær forsendur sem voru árið 1942 fyrir starfsemi læknaráðs sem helgast aðallega af því að dómstólar hafa nú greiðari aðgang að sérfræðingum en þá. Með það í huga er talið eðlilegra að leysa úr ágreiningi um læknisfræðileg álitaefni með aðstoð dómkvaddra matsmanna og sérfróðra meðdómenda. Verulega hefur dregið úr starfsemi læknaráðs og reyndin er sú að fundir í læknaráði hafa verið haldnir að meðaltali einu sinni til þrisvar á ári undanfarin ár. Hæstiréttur hefur í dómum sínum gert athugasemdir við starfsemi læknaráðs og afgreiðsla ráðsins hefur í mörgum tilfellum ekki verið talin standast stjórnsýslulög. Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu, sem greint er frá hér að framan, rennir jafnframt stoðum undir það að starfshættir læknaráðs í dag standist ekki reglur um hæfi og með tilliti til þess er brýnt að fella brott lög nr. 14/1942, um læknaráð.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um brottfall laga nr. 14/1942, um læknaráð.


    Með frumvarpinu er lagt til að lög nr. 14/1942, um læknaráð, verði felld brott og læknaráð þar með lagt niður. Ekki er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs aukist með samþykkt frumvarpsins en á undanförnum árum hefur árlegur kostnaður við læknaráð numið um 2,5 m.kr., en hann fellur niður við gildistöku laganna.