Ferill 419. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 627  —  419. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um dómstóla, nr. 15/1998,
með síðari breytingum (fjöldi dómara).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




1. gr.

    Í stað ártalsins „2015“ í 44. gr. laganna kemur: 2016.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Með lögum nr. 147/2009 var dómurum í héraði fjölgað um fimm, úr 38 í 43. Var það gert í framhaldi af bréfi dómstólaráðs til ráðuneytisins þar sem fram kom að í kjölfar bankahrunsins hefði álag á dómstólana aukist til muna. Var þessi fjöldi dómara tímabundinn að því leyti að ekki skyldi ráðið í þær stöður sem losnuðu eftir 1. janúar 2013 þar til fjöldi dómara yrði aftur 38. Hefur þessi heimild síðan verið framlengd í tvígang, nú síðast fram til 1. janúar 2015 með lögum nr. 115/2013. Enn er mikið álag á héraðsdómstólunum. Hefur dómstólaráð tilkynnt ráðuneytinu að það leggi áherslu á að núverandi fjöldi héraðsdómara haldist óbreyttur a.m.k. til ársloka 2015. Samkvæmt upplýsingum frá Héraðsdómi Reykjavíkur er enn mikið álag á dómstólnum sem megi að mestu rekja til mála sem komu til í kjölfar efnahagshrunsins. Einkum sé um að ræða mál frá sérstökum saksóknara en einnig einkamál sem höfðuð hafi verið á hendur stjórnendum og starfsmönnum föllnu bankanna og öðrum fjármálastofnunum. Þá er bent á að mikil fjölgun hafi orðið á aðfararbeiðnum sem og málum er varða lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi eða vísitölu en þau mál sæta flýtimeðferð. Fjölgun hafi einnig orðið í öðrum málaflokkum sem sæta flýtimeðferð, svo sem barnaverndarmálum og ákvörðunum stjórnvalda í útlendingamálum.
    Í júní 2013 skipaði innanríkisráðherra nefnd til að semja frumvarp til laga um svonefnt millidómstig. Er ráðgert að frumvarpsdrög liggi fyrir innan skamms. Ljóst er að ef sett verður á fót þriðja dómstigið þarf að taka til skoðunar hversu margir dómarar eigi að vera á hverju dómstigi. Er því í frumvarpi þessu lagt til að fjöldi dómara í héraði verði áfram 43 fram til ársloka 2015.


Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um dómstóla, nr. 15/1998,
með síðari breytingum (fjöldi dómara).

    Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði í lögum nr. 147/2009 um að héraðsdómurum fjölgi í héraði úr 38 í 43 verði framlengt um eitt ár eða til 1. janúar 2016.
    Á árinu 2009 var dómurum fjölgað tímabundið úr 38 í 43 fram til 1. janúar 2013 vegna mikils álags á dómstóla í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. Árið 2012 var sú heimild framlengd um eitt ár eða til 1. janúar 2014 þar sem mikið álag var enn til staðar á héraðsdómstólum og hafði t.a.m. fjöldi ágreiningsmála vegna gjaldþrotaskipta tæplega tífaldast. Innanríkisráðuneytið telur nú að ekki muni draga úr þessu álagi á héraðsdómstóla í bráð þar sem enn sé von á mörgum og þungum málum m.a., frá embætti sérstaks saksóknara. Í greinargerð frumvarpsins kemur einnig fram að innanríkisráðherra hafi skipað nefnd til að vinna frumvarp að millidómstigi og að ráðgert sé að drög að því frumvarpi liggi fyrir fyrri hluta árs 2014. Verði það dómstig að veruleika þurfi að taka til skoðunar hve marga dómara þurfi á hverju dómstigi.
    Verði frumvarpið að lögum er áætlað að útgjöld aukist um 86 m.kr. á árinu 2015 frá því sem ella hefði orðið þar sem héraðsdómurum er fjölgað um fimm. Gert hefur verið ráð fyrir að tímabundin fjárheimild vegna málsins verði framlengd um eitt ár í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 og mun lögfesting frumvarpsins því ekki leiða til aukinna útgjalda umfram það sem þar hefur verið gert ráð fyrir.