Ferill 284. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 333  —  284. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Tómasi A. Tómassyni um fjárveitingar í baráttu gegn tilteknum sjúkdómum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hve miklu fé hefur verið varið úr ríkissjóði á ári hverju síðastliðin tíu ár til að berjast gegn:
     a.      hjartasjúkdómum,
     b.      krabbameini,
     c.      sykursýki,
     d.      geðheilbrigðissjúkdómum,
     e.      fíknisjúkdómum?

    Árlegum fjárveitingum ríkissjóðs er skipt eftir málaflokkum í fjárveitingar til ríkisaðila og verkefna og í varasjóði málaflokka, nánar sundurgreint eftir hagrænni skiptingu. Fjárveitingum er hins vegar ekki skipt upp eftir einstökum sjúkdómum eða sjúkdómaflokkum eins og í fyrirspurn þingmannsins. Bókhald ríkisins er heldur ekki sett upp samkvæmt ofangreindum liðum og í mörgum tilvikum væri það ómögulegt.
    Í fyrirspurninni eru nefndir þeir sjúkdómaflokkar sem eru með helstu heilbrigðisáskorunum hérlendis og því má ætla að stór hluti þeirra fjárveitinga sem árlega er ráðstafað til heilbrigðisþjónustu séu nýttir í baráttu við þá, á öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar sem og í gegnum lýðheilsuverkefni.