Ferill 525. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 875  —  525. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni um skipta búsetu barna.


     1.      Hversu margir foreldrar hafa fengið leyfi fyrir skiptri búsetu barns síns frá því að breytingar á barnalögum um skipta búsetu barns tóku gildi árið 2022?
    Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá sýslumannaráði vegna fyrirspurnarinnar. Svör við fyrirspurninni byggjast á upplýsingum sem sýslumannaráð aflaði frá sýslumönnum og fagráði sýslumanna um fjölskyldumál. Frá því að breytingar á barnalögum, nr. 76/2003, sbr. lög nr. 28/2021 (skipt búseta barns), tóku gildi þann 1. janúar 2022 og fram til 5. desember 2023 hafa sýslumenn staðfest 355 samninga um skipta búsetu barns. Rétt er að vekja sérstaka athygli á því að svörin sem bárust ráðuneytinu miðast við fjölda samninga en ekki foreldra. Til viðbótar þykir rétt að benda á að yfir sama tímabil var í átta málum hafnað að staðfesta samning um skipta búsetu barns. Jafnframt voru 25 mál á umræddu tímabili sem hlutu annars konar málalok hjá sýslumönnum, svo sem beiðni afturkölluð eða mál fellt niður. Að lokum má nefna að á umræddu tímabili hefur 16 málum lokið hjá sýslumönnum með staðfestingu á brottfalli samnings um skipta búsetu.

     2.      Hvernig hefur framkvæmd ákvæða barnalaga um skipta búsetu barna gengið? Hafa orðið einhverjir hnökrar á framkvæmd laganna og ef svo er, hvers eðlis?
    Samkvæmt upplýsingum frá sýslumönnum og fagráði sýslumanna um fjölskyldumál hefur framkvæmdin almennt og heilt yfir gengið vel og ekki hefur orðið vart við hnökra á framkvæmd laganna. Á það var m.a. bent að gildistaka laganna hafi verið vel undirbúin. Í viðtali við foreldra hjá sýslumanni vegna skiptrar búsetu er foreldrum leiðbeint sérstaklega um inntak skiptrar búsetu, þar sem farið er yfir skilyrði þess að slíkur samningur sé staðfestur og um réttaráhrif þess. Þá sé jafnframt fjallað um foreldrasamvinnu og ákvarðanir er varða barn, um fjarlægð milli heimila, framfærslu, dvöl hjá hvoru foreldri fyrir sig, um eitt búsetuheimili og eitt lögheimili. Framangreindar leiðbeiningar eiga almennt að leiða í ljós hvort skilyrði til að staðfesta samning um skipta búsetu séu uppfyllt. Ef vísbendingar eru um hið gagnstæða, eða séu foreldrar í vafa eftir samtalið við löglærðan fulltrúa, sé hægt að bjóða foreldrum ráðgjöf sérfræðings hjá sýslumanni og umhugsunarfrest.
    Í svörum sýslumanna kom aftur á móti fram að það gæti oft og tíðum misskilnings hjá foreldrum um hvað skipt búseta feli í sér, svo sem að barn muni ekki eiga tvö lögheimili heldur eitt lögheimili og annað búsetuheimili. Einnig séu margir sem hætti við að óska eftir skiptri búsetu þegar leiðbeint sé um fjarlægðartakmörk heimila foreldra, þ.e. því skilyrði að búsetu foreldra sé þannig háttað að barnið sæki einn skóla eða leikskóla og eigi frjálsan og greiðan aðgang að samfelldu tómstundastarfi og öðrum frístundum frá báðum heimilum. Jafnframt gæti stundum misskilnings hjá foreldrum um meðlagsskyldu og barnabætur. Dæmi séu um að hætt sé við að óska eftir skiptri búsetu barns þegar leiðbeint sé um áhrif staðfestingar, t.d. er varðar barnabætur, þar sem foreldrar sjái sér ekki hag af því að óska eftir skiptri búsetu.

     3.      Hvernig er forsjárforeldri, sem ekki er lögheimilisforeldri, tryggður aðgangur að upplýsingum um barn sitt, svo sem úr sjúkraskrá eða úr gagnagrunnum grunnskóla?
    Í barnalögum er gerður greinarmunur á rétti forsjárforeldris og forsjárlauss foreldris til aðgangs að gögnum og upplýsingum um barn sitt. Réttur forsjárforeldris er almennur og leiðir af inntaki forsjárinnar skv. 28. gr. barnalaga, meðan réttur forsjárlauss foreldris er afmarkaður í 52. gr. laganna.
    Um aðgang að upplýsingum úr sjúkraskrá gilda lög nr. 55/2009, um sjúkraskrár, og reglugerð nr. 550/2015, um sjúkraskrár, en lögin og reglugerðin heyra undir heilbrigðisráðherra. Hvað varðar upplýsingar úr gagnagrunnum grunnskóla er vísað til laga um grunnskóla, nr. 91/2008, en lögin heyra undir mennta- og barnamálaráðherra. Ráðuneytið vísar því á heilbrigðisráðherra og mennta- og barnamálaráðherra hvað þann hluta fyrirspurnarinnar varðar.