Ferill 584. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Nr. 9/154.

Þingskjal 1297  —  584. mál.


Þingsályktun

um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024–2027.


    Alþingi ályktar í samræmi við 37. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, að samþykkja eftirfarandi framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024–2027.

I. FRAMTÍÐARSÝN, MARKMIÐ OG ÁHERSLUR

    Framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks byggist á þeirri framtíðarsýn og þeim meginreglum sem fram koma í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Markmið framkvæmdaáætlunar verði þannig samhljóðandi 1. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, að efla, verja og tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og til jafns við aðra allra mannréttinda og grundvallarfrelsis og að efla virðingu fyrir eðlislægri reisn þess. Framkvæmdaáætlunin feli í sér safn aðgerða til að koma í framkvæmd ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Gert verði ráð fyrir að aðgerðum vegna innleiðingar samningsins verði skipt í tvo áfanga og nái þessi fyrri áfangi til ársins 2027.
    Framkvæmdaáætlun felist í 57 aðgerðum sem skipt verði í eftirfarandi sex flokka:
     A.      Vitundarvakningu og fræðslu.
     B.      Aðgengi.
     C.      Sjálfstætt líf.
     D.      Menntun og atvinnu.
     E.      Þróun þjónustu.
     F.      Lögfestingu.
    Margar aðgerðanna gætu þó átt heima í fleiri en einum flokki.

A. Vitundarvakning og fræðsla.
    Vitund almennings um stöðu og aðstæður fatlaðs fólks í samfélaginu verði aukin og sýnileiki þess í almennri umræðu. Aðgerðir í þessum flokki snúi að því að auka meðvitund fatlaðs fólks sjálfs, almennings og fagfólks í ýmsum stéttum um stöðu og aðstæður fatlaðs fólks í samfélaginu. Jafnframt miði aðgerðir í þessum flokki að því að búa til námsefni og leiðbeiningar og miðla gögnum, upplýsingum og þekkingu um hagi fatlaðs fólks.

B. Aðgengi.
    Aðgerðir í þessum flokki miði að því að bæta aðgengi að mannvirkjum, vefsíðum og rafrænum gögnum, sem og aðgengi að húsnæði við hæfi. Þróaðir verði gæðavísar og gæðaviðmið, handbækur og fræðsla um aðgengi fyrir öll.

C. Sjálfstætt líf.
    Aðgerðir í þessum flokki auki sjálfstæði og val einstaklinga, sem og rétt fatlaðs fólks til viðunandi lífskjara og húsnæðis.

D. Menntun og atvinna.
    Aðgerðir í þessum flokki miði að því að auka aðgengi að fjölbreyttum tækifærum til menntunar og atvinnu án aðgreiningar og stuðli að því að fatlað fólk geti tekið fullan þátt í námi og á vinnumarkaði á eigin forsendum.

E. Þróun þjónustu.
    Aðgerðirnar taki mið af sífelldri þróun og endurskoðun þjónustu við fatlað fólk samhliða samfélagsþróun á hverjum tíma. Þær feli í sér öflun gagna, miðlun upplýsinga og aukna þekkingu um stöðu fatlaðs fólks í samfélaginu. Auk þess miði þær að aukinni samræmingu og samþættingu þjónustu hinna ýmsu þjónustukerfa og þjónustuaðila.

F. Lögfesting.
    Aðgerðirnar snúi að lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og fullgildingu valfrjálsrar bókunar við samninginn.

II. FRAMKVÆMDAÁÆTLUN

    Framkvæmdaáætlun feli í sér aðgerðir til þess að uppfylla ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

A. Vitundarvakning og fræðsla.
A.1. Vitundarvakning um stöðu fatlaðs fólks.
    Verkefnið miði að því að auka vitund almennings um líf og aðstæður fatlaðs fólks í samfélaginu og að vinna gegn staðalímyndum og fordómum sem tengjast fötluðu fólki og stöðu þess. Unnið verði að því að auka þátttöku og sýnileika fatlaðs fólks og lýsa fjölbreytileika þess á öllum sviðum samfélagsins, sbr. einnig aðgerð A.5.
    Tímaáætlun: Viðvarandi verkefni á gildistíma áætlunarinnar. Árlegt stöðumat.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Önnur ráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 8. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4 og 16.

A.2. Kynningarátak um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
    Verkefnið miði að því að upplýsa almenning um inntak samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og gildi hans, m.a. með stuttum myndskeiðum þar sem einstaka greinar samningsins verði kynntar sérstaklega.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Önnur ráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess ásamt fjölmiðlum.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 8. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4 og 16.

A.3. Starfsemi samráðshópa og notendaráða í málefnum fatlaðs fólks um allt land.
    Verkefnið miði annars vegar að því að tryggja að samráðshópar og notendaráð verði starfrækt um allt land og hins vegar að því að efla og virkja fatlað fólk til að taka þátt í starfsemi þeirra.
    Tímaáætlun: 2026.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 1.–4. og 29. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 4, 5, 8, 9, 10, 11, 16 og 17.

A.4. Endurskoðun aðalnámskráa leik-, grunn- og framhaldsskóla.
    Rýndir verði fyrstu þrír sameiginlegu kaflarnir í aðalnámskrám leik-, grunn- og framhaldsskóla með áherslu á félagslegan skilning á fötlun og fötlun sem eðlilegan hluta mannlegs margbreytileika. Í kjölfar endurskoðunar verði unnið námsefni við hæfi fyrir hvert skólastig, eftir þörfum.
    Tímaáætlun: 2026.
    Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Menntamálastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 8. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4 og 16.

A.5. Aukinn sýnileiki fatlaðs fólks í fjölmiðlum og í opinberri umræðu.
    Verkefnið felist í að auka almennan sýnileika fatlaðs fólks í samfélaginu og þeirrar breiddar sem býr í þeim hópi. Sýnileiki fatlaðs fólks verði aukinn í almennri samfélagsumræðu sérfræðinga í fjölbreyttum málaflokkum, neytenda og á öðrum sviðum í fjölmiðlum og dægurmenningu. Þannig verði fatlað fólk í auknum mæli viðmælendur um málefni ótengd fötlun sinni og stöðu fatlaðs fólks.
    Lagt er til að verkefnið skiptist í þrjá þætti:
     1.      Kortlagningu og greiningu á sýnileika fatlaðs fólks og þátttöku þess í opinberri umræðu.
     2.      Hagsmunasamtök fatlaðs fólks haldi lista yfir nöfn fatlaðs fólks með fjölbreyttan bakgrunn sem er tilbúið að taka þátt í opinberri umræðu, sé eftir því leitað.
     3.      Hagsmunasamtök bjóði upp á þjálfun fyrir fatlað fólk í því að koma fram í fjölmiðlum og þjálfi fjölmiðlafólk í að taka viðtöl við fatlað fólk.
    Tímaáætlun: 2024–2025.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Fatlað fólk og hagsmunasamtök þess, fjölmiðlar, menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 8. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4 og 16.

A.6. Stuðningur við gerð námsefnis um réttindi fatlaðs fólks.
    Stutt verði við gerð námsefnis um réttindi fatlaðs fólks sem nýtist sem hluti af grunnnámi þeirra fagstétta sem snerta líf fatlaðs fólks með einhverjum hætti.
    Tímaáætlun: 2024–2026.
    Ábyrgð: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Háskólar, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 8. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4 og 16.

A.7. Fræðsluefni fyrir starfsfólk um aðgerðir til að sporna gegn beitingu nauðungar.
    Útbúið verði fræðsluefni fyrir starfsfólk sem sinnir þjónustu við fatlað fólk, annars vegar í búsetuúrræðum, vinnu og virkni sem og í heilbrigðisþjónustu og hins vegar starfsfólk sem starfar við löggæslu, ákæruvald, dómsvald og í fangelsum um:
     1.      Sjálfsákvörðunarrétt og sjálfræði.
     2.      Nauðung og önnur inngrip sem skerða sjálfsákvörðunarrétt og sjálfræði fólks.
     3.      Leiðir í þjónustu sem verndi sjálfsákvörðunarrétt og sjálfræði og komi í veg fyrir að nauðung sé beitt.
     4.      Leiðir til að þróa verklag þar sem lögð verði áhersla á að upplýsa einstaklinga um rétt sinn, hvert þeir geti leitað, hvaða úrræði séu til o.s.frv.
    Tímaáætlun: 2025.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Dómsmálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, sérfræðiteymi skv. 14. gr. laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011, réttindagæsla fatlaðs fólks, Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 12., 14., 15., 16. og 17. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 3, 5 og 16.

A.8. Leiðbeiningar og fræðsla um viðeigandi aðlögun og studda ákvarðanatöku fatlaðs fólks innan réttarvörslukerfis.
    Unnar verði leiðbeiningar um hvað felist í viðeigandi aðlögun og studdri ákvarðanatöku. Efninu verði fyrst og fremst beint að þeim sem starfa innan fangelsis-, löggæslu- og réttarkerfisins. Leiðbeiningarnar taki til þess hvernig fatlað fólk geti haft ólíka eða mismunandi skynjun í aðstæðum, t.d. við skýrslutöku eða handtöku. Í leiðbeiningunum verði að finna mögulegar leiðir til að draga úr neikvæðum áhrifum á fatlað fólk í samskiptum við fyrrgreinda þjónustuaðila.
    Tímaáætlun: 2024–2025.
    Ábyrgð: Dómsmálaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Ríkislögreglustjóri, Dómstólasýslan, félags- og vinnumarkaðs-ráðuneyti, réttindagæsla fatlaðs fólks, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 12., 13., 14., 15., 16. og 22. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 3, 5 og 16.

A.9. Fræðsluefni fyrir starfsfólk sem vinnur að málefnum fatlaðs fólks um persónuvernd og upplýsingaöryggi.
    Útbúið verði fræðsluefni um persónuvernd, öryggi í rafrænum samskiptum og vistun gagna fyrir starfsfólk sem sinnir þjónustu við fatlað fólk. Efnið verði aðgengilegt í fræðslugátt félags- og vinnumarkaðsráðuneytis.
    Tímaáætlun: 2027.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Persónuvernd, persónuverndarfulltrúar opinberra aðila, réttindagæsla fatlaðs fólks, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 22. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 16.

A.10. Talsmenn fatlaðs fólks á þingi.
    Allir flokkar á þingi skipi einn þingmann sem talsmann fatlaðs fólks til að tryggja farveg fyrir sjónarmið fatlaðs fólks og aðgengi þess að pólitískum fulltrúum.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Þingflokkar, þingmenn, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 8. og 29. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4, 5, 10 og 16.

A.11. Regluleg miðlun hagtalna um hagi fatlaðs fólks.
    Verkefnið felist í því að skoða hvernig hægt sé að safna gögnum um hagi fatlaðs fólks, tryggja samanburðarhæfni gagna og gæði og tengja við önnur gagnasöfn Hagstofunnar. Stefnt verði að því að varpa skýrara ljósi á stöðu og hagi fatlaðs fólks í samanburði við aðra hópa í samfélaginu.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Hagstofa Íslands, Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála og Samband íslenskra sveitarfélaga.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 31. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 16.

A.12. Bætt aðgengi að upplýsingum um þjónustu við fatlað fólk og réttindi þess.
    Verkefnið felist í því að hægt verði að nálgast með einföldum hætti upplýsingar um réttindi og þjónustu við fatlað fólk og fjölskyldur þess á einum stað. Þannig verði hægt að nálgast upplýsingar, umsóknareyðublöð og almenna ráðgjöf um allt sem varðar þjónustu við fatlað fólk á sama stað.
    Tímaáætlun: 2025–2027.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Fjármála- og efnahagsráðuneyti (Stafrænt Ísland), innviðaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 1.–4. og 28. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 4, 8, 9, 10, 11, 16 og 17.

A.13. Stuðningur við gerð skuggaskýrslna hagsmunasamtaka fatlaðs fólks.
    Hagsmunasamtök geti sótt um fjárframlag til að vinna gagnrýnar athugasemdir, svokallaðar skuggaskýrslur, við skýrslur íslenskra stjórnvalda um framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í aðdraganda hverrar fyrirtöku á skýrslum Íslands.
    Tímaáætlun: Tilfallandi.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 33. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 16 og 17.

A.14. Endurskoðun laga og verkferla um réttindagæslu fatlaðs fólks.
    Verkefnið verði tvíþætt:
     1.      Endurskoðun laga um réttindagæslu fatlaðs fólks, nr. 88/2011. Fyrirkomulag réttindavaktar skv. 3. gr. laganna verði sérstaklega rýnt.
     2.      Endurskoðun skipulags og verkferla í þjónustu réttindagæslunnar.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Forsætisráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 33. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 16 og 17.

B. Aðgengi.
B.1. Leiðbeiningar til að tryggja stafrænt aðgengi að upplýsingum um þjónustu og réttindi.
    Stefnur Stafræns Íslands um efnistök og aðgengi á vef opinberra aðila verði nýttar til að útbúa leiðarvísi um hvernig þróa megi vefsvæði og stafrænar lausnir til að tryggja aðgengi ólíkra hópa að upplýsingum og gögnum. Stefnurnar verði kynntar ráðuneytum, stofnunum og sveitarfélögum.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Fjármála- og efnahagsráðuneyti (Stafrænt Ísland), innviðaráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 1.–4. og 9. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 4, 8, 9, 10, 11, 16 og 17.

B.2. Þróun á lausnum á rafrænu aðgengi fyrir fatlað fólk.
    Verkefnið feli í sér að greiða aðgengi fatlaðs fólks að rafrænni þjónustu með áherslu á aðgengi að heilbrigðisgáttum og fjármálaþjónustu bankastofnana. Horft verði til stöðu þeirra einstaklinga sem hafa persónulega talsmenn samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Jafnframt verði lausnir þróaðar sem nýst geti fleiri markhópum sem ekki hafa bein umráð yfir rafrænu auðkenni. Kortlagðar verði nauðsynlegar laga- og reglugerðarbreytingar og tæknilegar útfærslur ásamt tíma- og kostnaðaráætlun fyrir þróun lausna.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Heilbrigðisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 9., 19. og 21. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 4, 5, 8, 9, 10, 11 og 16.

B.3. Miðstöð um auðlesið efni.
    Verkefnið feli í sér að tryggja aðgengi fatlaðs fólks og almennings að auðlesnu efni. Gerð verði greining á því hvar varanlegri miðstöð verði best fyrir komið til framtíðar.
    Tímaáætlun: 2024–2027.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Önnur ráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess ásamt fjölmiðlum.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 5., 9., 21., 24., 25. og 27. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 4, 5, 8, 9, 10, 11 og 16.

B.4. Greining laga- og reglugerðaumhverfis með tilliti til aðgengis fyrir öll.
    Stofnaður verði vinnuhópur sem falið verði að kortleggja og greina laga- og reglugerðaumhverfi með tilliti til aðgengis fyrir öll og heimilda eftirlitsstofnana til beitingar viðurlaga. Á grundvelli kortlagningar verði lagðar fram tillögur að breytingum sem m.a. feli í sér skilgreindar kvörtunarleiðir, eftirlitsheimildir og afgreiðslutíma. Með aðgengi fyrir öll að leiðarljósi verði stuðlað að því að fólki sé ekki mismunað um aðgengi og almenna notkun mannvirkja á grundvelli fötlunar, skerðinga eða veikinda og það geti örugglega komist inn og út úr mannvirkjum, jafnvel við óvenjulegar aðstæður, t.d. í eldsvoða. Jafnframt verði sjónarmið algildrar hönnunar höfð að leiðarljósi við hönnun bygginga og umhverfis þeirra.
    Byggt verði m.a. á aðgerð um aðgengi fyrir öll, sbr. tillögu til þingsályktunar um húsnæðisstefnu fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028 sem innviðaráðherra lagði fram á 154. löggjafarþingi (þskj. 579, 509. mál).
    Tímaáætlun: 2025.
    Ábyrgð: Innviðaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 5., 9. og 20. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 4, 8, 9, 10, 11, 13 og 16.

B.5. Endurskoðun á undanþágum í byggingarreglugerð nr. 112/2012.
    Endurskoðuð verði ákvæði í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sem lúta að skráningu, eftirliti og viðurlögum, og hugað verði að skýrleika við túlkun á ákvæðum reglugerðarinnar um undanþágur. Þannig verði við endurskoðun byggingarreglugerðarinnar lögð áhersla á að breytingar séu ekki gerðar á kostnað algildrar hönnunar og að skýrt verði hvenær heimilt sé að veita undanþágu frá ákvæðum um skráningar og eftirlit. Þannig verði stutt enn frekar við algilda hönnun og aðgengi fyrir öll. Bætt orkunýting og grunngæði íbúðarhúsnæðis verði höfð að leiðarljósi í allri hönnun, til að mynda öryggi, dagsbirta, hreint loft, góð hljóðvist, aðgengi og gott skipulag/skilvirkni og að húsnæði uppfylli rýmisþörf daglegra athafna.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Innviðaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 5. og 9. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 4, 8, 9, 10, 11 og 16.

B.6. Leiðbeiningar og fræðsla um viðeigandi aðlögun og aðgengi fyrir öll með algilda hönnun að leiðarljósi.
    Verkefnið verði tvíþætt:
     1.      Útbúin verði ný og endurskoðuð rafræn handbók/leiðarvísir um aðgengi fyrir öll með leiðbeiningum fyrir hönnuði, verkfræðinga, arkitekta, stjórnvöld sem gefa út byggingarleyfi og aðra sem vinna að gerð mannvirkja. Gefnar verði út leiðbeiningar um afmarkað efni, svo sem um hönnun baðstaða, skóla, hjúkrunarheimila o.fl.
     2.      Unnið verði fræðsluefni um viðeigandi aðlögun og algilda hönnun fyrir skólakerfið, atvinnulífið, opinbera aðila sem og hagsmunaaðila.
    Tímaáætlun: 2024–2027.
    Ábyrgð: Innviðaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, fjármála- og efnahagsráðuneyti (Stafrænt Ísland), fatlað fólk og hagsmunasamtök þess, fagfélög og aðilar vinnumarkaðarins.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 5., 9. og 21. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 4, 8, 9, 10, 11 og 16.

B.7. Hlutverk, umboð og fjöldi aðgengisfulltrúa.
    Ríki, í samráði við sveitarfélög, skilgreini hlutverk og umboð aðgengisfulltrúa í byggingarreglugerð, auk þess sem hvert sveitarfélag og þjónustusvæði með fleiri en 1.000 íbúa skipi aðgengisfulltrúa. Þannig verði mótað samræmt verklag fyrir úttektir aðgengisfulltrúa, sem m.a. felist í gerð gátlista, auk þess sem heimildir aðgengisfulltrúa til íþyngjandi aðgerða, sé ábendingum ekki sinnt innan tilskilins tíma, verði skýrðar. Aðgengisfulltrúi meti m.a. aðgengi fatlaðs fólks að þjónustu ríkis og sveitarfélaga og komi með tillögur að úrbótum. Einnig verði komið á fót skipulegri fræðslu og samráðsvettvangi fyrir aðgengisfulltrúa um allt land.
    Tímaáætlun: 2025–2027.
    Ábyrgð: Innviðaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Samband íslenskra sveitarfélaga, stofnanir ríkisins, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 9. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4, 9, 11 og 16.

B.8. Kortlagning á reynslu fatlaðs fólks af þjónustu almenningssamgangna.
    Verkefnið verði tvíþætt:
     1.      Kortlagt verði og metið að hve miklu leyti samgöngur innan lands tryggi aðgengi fyrir öll.
     2.      Kortlagt verði og metið hvort samgöngur á milli landa séu í samræmi við Evrópuviðmið um aðgengi fyrir öll.
    Stofnaður verði vinnuhópur um verkefnið og við úrvinnslu verði farið yfir þjónustuferli frá fyrsta skrefi til þess síðasta. Lagðar verði fram tillögur til úrbóta ef þarf.
    Tímaáætlun: 2026.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Innviðaráðuneyti, Vegagerðin, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 9. og 20. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 4, 9, 11 og 16.

B.9. Kortlagning á reynslu fatlaðs fólks í leit að alþjóðlegri vernd af móttöku hér á landi.
    Kortlögð verði reynsla fatlaðs fólks sem sækir um vernd hér á landi og með hvaða hætti móttökukerfið mæti þörfum fatlaðs fólks. Stofnaður verði vinnuhópur um verkefnið og við úrvinnslu verði farið yfir þjónustuferli frá fyrsta skrefi til þess síðasta. Rætt verði við fatlaða umsækjendur og starfsfólk, auk þess sem verkferlar og viðeigandi lög verði rýnd.
    Tímaáætlun: 2027.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Innviðaráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, utanríkisráðuneyti, Útlendingastofnun, réttindagæsla fatlaðs fólks, Samband íslenskra sveitarfélaga, Vinnumálastofnun, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 18. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 16.

B.10. Greining á hvernig auka má aðgengi fatlaðs fólks að fíknimeðferð.
    Stofnaður verði vinnuhópur sem skoði hvernig best megi sníða fíknimeðferð að þörfum fatlaðs fólks. Horft verði til gagnreyndrar þekkingar, erlendra fyrirmynda og klínískra leiðbeininga. Auk þess verði metnir kostir og ókostir þess að koma upp sértækri meðferð fyrir afmarkaða hópa innan þeirra úrræða sem standa þegar til boða. Unnar verði leiðbeiningar sem nýtist þjónustuveitendum til að aðlaga fíknimeðferð að þörfum fatlaðs fólks.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Heilbrigðisráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, embætti landlæknis, Geðráð, Landspítali, SÁÁ, aðrir þjónustuaðilar sem veita fíknimeðferð, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess, Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 25. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 5 og 16.

B.11. Almenn upplýsingagjöf heilbrigðiskerfis á auðlesnu máli.
    Stofnaður verði verkefnishópur sem vinni úttekt á framboði upplýsinga á auðskildu og auðlesnu máli um heilbrigðisþjónustu og leggi fram tillögur til úrbóta, sé þess þörf.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Heilbrigðisráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Embætti landlæknis, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Landspítali, heilsugæsla og heilbrigðisstofnanir, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 25. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 5 og 16.

B.12. Aukin þátttaka fatlaðs fólks í menningarlífi.
    Stofnaður verði vinnuhópur sem skoði leiðir til þess að auka þátttöku fatlaðs fólks í menningarlífi, bæði hvað varðar aðgengi að listum og menningu og listsköpun.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, List án landamæra, Listvinnzlan, BÍL, FÍH, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 30. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4, 10 og 16.

C. Sjálfstætt líf.
C.1. Aðstoðarmannakort.
    Hafinn verði undirbúningur útgáfu korta fyrir aðstoðarmenn fatlaðs fólks með það að markmiði að auka möguleika fatlaðs fólks til samfélagslegrar þátttöku. Kortin veiti aðstoðarmönnum fatlaðs fólks ókeypis aðgang á viðburði á vegum ríkis og sveitarfélaga. Drög að leiðbeiningum og verklagi, sem og kostnaðarmat, verði unnin með sveitarfélögum. Greiningin verði einnig hluti af innleiðingu evrópska örorkukortsins. Fyrirtæki verði í framhaldinu hvött til að taka þátt í verkefninu og bjóða afslátt fyrir aðstoðarmenn.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess, aðilar vinnumarkaðarins.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 28. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 10, 11 og 16.

C.2. Endurskoðun og einföldun greiðslukerfis almannatrygginga.
    Verkefnið feli í sér endurskoðun greiðslukerfis almannatrygginga fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Horft verði m.a. til þess að einfalda útreikninga, útbúa innbyggða hvata til atvinnuþátttöku, bæta kjör tekjulægstu hópanna og gera örorkulífeyriskerfið skilvirkara, gagnsærra og réttlátara. Breytingar verði innleiddar í áföngum og stefnt að því að halda áfram að bæta afkomu örorkulífeyrisþega með það að markmiði að bæta sérstaklega kjör þeirra sem lakast standa.
    Tímaáætlun: 2025.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Fjármála- efnahagsráðuneyti, lífeyrissjóðir, Tryggingastofnun ríkisins, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 28. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 10, 11 og 16.

C.3. Húsnæði við hæfi.
    Skipaður verði starfshópur sem verði falið að leggja fram kostnaðar- og ábatagreindar tillögur að úrbótum hvað varðar húsnæðisöryggi fatlaðs fólks. Meðal verkefna starfshópsins verði að skoða leiðir til að auka aðgengi fatlaðs fólks að húsnæði, bæði til leigu og eignar. Áhersla verði lögð á sjálfsákvörðunarrétt um búsetuform og leiðir til að draga úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði.
    Horft verði til þeirra gagna sem fyrir liggja, svo sem skýrslu starfshóps um heildarendurskoðun laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir frá árinu 2022 og tillögu til þingsályktunar um húsnæðisstefnu fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028 sem innviðaráðherra lagði fram á 154. löggjafarþingi (þskj. 579, 509. mál).
    Tímaáætlun: 2025.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Innviðaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess, Samband íslenskra sveitarfélaga.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 5. og 28. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 4, 8, 10, 11 og 16.

C.4. Aukið framboð hjálpartækja og bætt verklag við afgreiðslu og úthlutun.
    Endurskoðað verði framboð hjálpartækja og verklag við afgreiðslu og úthlutun þeirra. Horft verði til tillagna sem fram komu í skýrslu starfshóps heilbrigðisráðherra um hjálpartæki frá árinu 2019.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Heilbrigðisráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Sjúkratryggingar Íslands, innviðaráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 26. og 28. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 10, 11 og 16.

C.5. Greining á forsendum og möguleikum á að þjónusta og fjármagn fylgi einstaklingi.
    Verkefnishópur vinni að greiningu á því hvað myndi þurfa til svo að þjónusta og fjármagn geti fylgt einstaklingi en sé ekki bundið við tiltekinn stað eða stofnun. Í hópnum verði bæði þau sem nýta þjónustu og þau sem veita hana.
    Verkefnið felist í eftirfarandi þáttum:
     1.      Safnað verði gögnum og upplýsingum um framkvæmd þjónustu við fatlað fólk eins og henni er nú háttað.
     2.      Unnin verði greining á þörf fyrir laga- og reglugerðarbreytingar til þess að unnt sé að veita þjónustu sem fylgi einstaklingi en sé ekki bundin við tiltekinn stað eða stofnun.
     3.      Á grundvelli greiningar skv. 2. tölul. verði metið hvort og þá hvernig unnt sé að breyta fyrirkomulagi á þann hátt að þjónusta fylgi einstaklingi.
     4.      Unnin verði greining á mannaflaþörf miðað við gefnar forsendur.
     5.      Unnin verði kostnaðar- og ábatagreining.
    Tímaáætlun: 2027.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Fjármála- og efnahagsráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og aðrir opinberir aðilar sem veita fötluðu fólki þjónustu, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 19. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 5, 8, 9, 10, 11 og 16.

C.6. Áætlun um þjónustu við fatlað fólk sem býr gegn vilja sínum á stofnunum.
    Verkefnið felist í kortlagningu og greiningu á grundvelli samræmds mats á þjónustuþörfum og vilja hvers og eins fatlaðs einstaklings sem býr gegn vilja sínum á stofnun. Í kjölfarið verði gefnar út leiðbeiningar til sveitarfélaga um gerð tímasettra áætlana um uppbyggingu fjölbreyttra húsnæðis- og þjónustuúrræða þannig að fólk eigi kost á öðru heimili í sínu sveitarfélagi.
    Tímaáætlun: 2027.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Ráðgjafar- og greiningarstöð, innviðaráðuneyti, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, Samband íslenskra sveitarfélaga, heilbrigðisráðuneyti, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 19. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 5, 8, 9, 10, 11 og 16.

C.7. Réttur fatlaðs fólks til að njóta fjölskyldulífs.
    Verkefnið gangi út á að tryggja að viðeigandi stuðningur standi til boða til að gera fötluðu fólki kleift að njóta réttar síns til fjölskyldulífs. Samráðshópur félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtaka fatlaðs fólks vinni leiðbeiningar á grunni kortlagningar þar sem m.a. verði horft til þess hvernig þjónustuþörf sé metin og hvort horft sé til fjölskylduaðstæðna við matið, hvaða þjónusta standi til boða í sveitarfélögum og biðtíma eftir þjónustu. Mótaðar verði leiðbeiningar sem tryggi að fatlað fólk fái stuðning til þess að njóta fjölskyldulífs óháð fötlun og geti sinnt þeim fjölmörgu verkefnum sem því fylgja á eigin forsendum.
    Tímaáætlun: 2025.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Mennta- og barnamálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 6. og 23. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 3, 5, 8 og 16.

D. Menntun og atvinna.
D.1. Opnar námsbrautir í framhaldsskólum.
    Lögð verði fram þriggja ára áætlun um breytingar á skipulagi starfsbrauta framhaldsskóla með það að markmiði að mæta betur þörfum og væntingum fatlaðra nemenda með sérstakar námsþarfir, með tilliti til viðeigandi aðlögunar. Nám fatlaðra nemenda verði byggt á einstaklingsmiðaðri nálgun með aukinni áherslu á fjölbreytni í námsframboði, svo sem með aðlögun á verk- og listgreinabrautum.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Framhaldsskólar, fagfólk, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 24. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4 og 16.

D.2. Leiðbeiningar fyrir framhaldsskóla um gerð tilfærsluáætlana.
    Unnar verði leiðbeiningar fyrir starfsfólk framhaldsskóla til að tryggja gerð tilfærsluáætlana skv. 13. gr. reglugerðar um nemendur með sérþarfir í framhaldsskólum nr. 230/2012.
    Tímaáætlun: 2025.
    Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Framhaldsskólar, háskólar, Vinnumálastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 24. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4 og 16.

D.3. Viðurkenning á námi.
    Allt nám verði staðfest skriflega til að auðvelda leið inn á vinnumarkað eða í frekara nám. Leitað verði leiða til að tryggja að allt nám fatlaðs fólks á framhaldsskóla- og háskólastigi, eða innan framhaldsfræðslu, verði staðfest skriflega, svo sem með diplómu að loknu háskólanámi eða fagbréfi atvinnulífsins að lokinni vottaðri framhaldsfræðslu.
    Tímaáætlun: 2025.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Mennta- og barnamálaráðuneyti, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, fagfólk, aðilar innan skólakerfis og símenntunarstöðva.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 24. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4 og 16.

D.4. Áhrifamat á stuðningi við fatlaða nemendur í framhaldsskólum, háskólum og framhaldsfræðslu.
    Fram fari áhrifamat á stuðningi við nemendur skv. 34. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, og 6. mgr. 19. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006, með hliðsjón af algildri hönnun og mannlegum breytileika. Sambærileg úttekt fari fram hjá viðurkenndum framhaldsfræðsluaðilum. Í kjölfar áhrifamats verði undirbúnar tillögur til lagabreytinga og annarra úrbóta eins og við á.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Framhaldsskólar, háskólar, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, viðurkenndir framhaldsfræðsluaðilar, nemendafélög, fagfólk, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 24. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4 og 16.

D.5. Aukið framboð og aðgengi að starfstengdu námi.
    Leitað verði leiða til að auka framboð á fjölbreyttum námsleiðum, starfstengdu námi og styttri námsleiðum fyrir fatlað fólk, sbr. einnig aðgerð D.8. Jafnframt verði viðmið um lágmarksfjölda nemenda í hverju námskeiði í framhaldsfræðslu endurskoðuð.
    Tímaáætlun: 2025–2027.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, háskólar, Fjölmennt, mennta- og barnamálaráðuneyti, fagfólk, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess, Samband íslenskra sveitarfélaga og fræðasamfélagið.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 24. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4 og 16.

D.6. Aukið framboð og aðgengi að hagnýtum áföngum á háskólastigi.
    Fjárhagslegir hvatar í árangurstengdri fjármögnun háskóla verði nýttir til að tryggja aðgengi að háskólum fyrir fólk með fjölbreyttan bakgrunn og mismunandi félagslegar aðstæður með áherslu á þarfir fatlaðs fólks í því skyni að fjölga tækifærum til bættra lífsgæða og atvinnu við hæfi. Sérstök stefnumarkandi fjárframlög verði veitt til háskóla til að undirbúa framboð á starfstengdu námi fyrir fatlaða nemendur.
    Tímaáætlun: 2024–2027.
    Ábyrgð: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Háskólar, fræðasamfélagið, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 24. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4 og 16.

D.7. Aukið aðgengi fatlaðs fólks að lýðskólum á Íslandi.
    Vinnuhópur skoði kosti og galla þess að fjölga lýðskólum á Íslandi í því skyni að auka aðgengi fatlaðra ungmenna að tækifærum á sviði félagslegrar virkni og menntunar.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 24. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4 og 16.

D.8. Aukið samstarf um framhaldsfræðslu.
    Samstarf Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, Fjölmenntar, fræðsluaðila sem fá úthlutað úr Fræðslusjóði og Vinnumálastofnunar verði aukið í því skyni að gefa fötluðu fólki sem ekki hefur lokið framhaldsskóla tækifæri til að afla sér menntunar eða bæta stöðu sína á vinnumarkaði, sbr. einnig aðgerð D.5. Samstarfið snúi að tilvísunum í nám, gerð námslýsinga og námskráa, þjálfun og gerð vinnusamninga fyrir einstaklinga.
    Tímaáætlun: 2024–2027.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Vinnumálastofnun, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Fjölmennt, vinnu- og virknimiðstöðvar fatlaðs fólks, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 24. og 27. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4, 8, 10 og 16.

D.9. Úttekt á launum og kjörum fatlaðra einstaklinga á aðgreindum vinnustöðum.
    Gerð verði úttekt á launum og kjörum fatlaðra einstaklinga á aðgreindum vinnustöðum með það að markmiði að skýra betur skilin á milli vinnu og hæfingar ásamt því að auka gagnsæi og jafnrétti á milli hópa.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Vinnumálastofnun, vinnu- og virknimiðstöðvar fatlaðs fólks, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 27. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 8, 10 og 16.

D.10. Aukið samstarf Vinnumálastofnunar og vinnu- og virknimiðstöðva.
    Samstarf á milli Vinnumálastofnunar og aðila sem reka vinnu- og virknimiðstöðvar verði aukið og sett mælanleg markmið sem stuðli að því að einstaklingar sem starfa á aðgreindum vinnustöðum fái aukin tækifæri til þátttöku á vinnumarkaði.
    Tímaáætlun: 2024–2027.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Vinnumálastofnun, vinnu- og virknimiðstöðvar fatlaðs fólks, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 27. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 8, 10 og 16.

D.11. Fleiri starfstækifæri fyrir fólk með mismunandi starfsgetu.
    Markvisst verði leitað leiða til að fjölga störfum fyrir fatlað fólk hjá ríki og sveitarfélögum, sem og á almennum vinnumarkaði. Áhersla verði lögð á fjölbreytni starfa, sveigjanleg störf og hlutastörf, sem og tækifæri til starfsþróunar. Sett verði mælanleg og tímasett markmið.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Fjármála- og efnahagsráðuneyti, Vinnumálastofnun, VIRK, aðilar vinnumarkaðarins, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 27. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 8, 10 og 16.

E. Þróun þjónustu.
E.1. Styttri bið barna eftir þjónustumati og þjónustu.
    Unnið verði að því að bið barna eftir mati á þjónustuþörf og þjónustu í kjölfarið verði ekki lengri en þrír mánuðir.
    Tímaáætlun: 2025.
    Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, umboðsmaður barna, Ráðgjafar- og greiningarstöð, barna- og unglingageðdeild, Geðheilsumiðstöð barna og hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 7. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4, 10, 11 og 16.

E.2. Endurskoðun leiðbeininga fyrir sveitarfélög um akstursþjónustu fatlaðs fólks.
    Vinnuhópur fulltrúa sveitarfélaga, félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og hagsmunasamtaka fatlaðs fólks endurskoði gildandi leiðbeiningar um akstursþjónustu með tilliti til hugmyndafræðinnar um aðgengi fyrir öll.
    Tímaáætlun: 2026.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 5. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 4, 8, 10 og 16.

E.3. Samræmt verklag við mat á fötlun umsækjenda um alþjóðlega vernd og uppbygging viðeigandi stuðningsúrræða.
    Vinnuhópur móti samræmt verklag fagaðila í greiningarviðtölum við flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd. Í móttökumiðstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd fari fram greiningarviðtal á vegum fagaðila sem hafi þekkingu og færni til að meta mismunandi skerðingar fatlaðs fólks, séu vísbendingar um fötlun umsækjenda. Áætlun um stuðningsúrræði sem taki mið af þjónustuþörf verði eftir atvikum gerð í kjölfarið.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Dómsmálaráðuneyti, Útlendingastofnun, Vinnumálastofnun, réttindagæsla fatlaðs fólks, Ráðgjafar- og greiningarstöð, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 11. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 11 og 16.

E.4. Styrking sérfræðiteymis um aðgerðir til að draga úr beitingu nauðungar.
    Leitað verði leiða til að styrkja starfsemi sérfræðiteymis skv. 14. gr. laga um réttindagæslu fatlaðs fólks, nr. 88/2011, t.d. með aðkomu utanaðkomandi sérfræðinga eða með fjölgun starfsmanna, ekki síst í sjaldgæfum eða flóknum verkefnum.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Heilbrigðisráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, sérfræðiteymi, réttindagæsla fatlaðs fólks, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 15., 16. og 17. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 3, 5 og 16.

E.5. Leiðbeiningar um viðeigandi aðlögun og málsmeðferð innan dómskerfisins.
    Unnar verði leiðbeiningar um viðeigandi aðlögun og málsmeðferð innan dómskerfisins. Dómstólasýslunni verði í framhaldi gert að meta hvort tilefni sé til að setja samræmdar reglur eða verklagsreglur fyrir dómstóla.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Dómsmálaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Dómstólasýslan, héraðsdómstólar, Landsréttur og Hæstiréttur, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 12., 13. og 14. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 16.

E.6. Áætlun um sértæka geðheilbrigðisþjónustu við fatlað fólk.
    Verkefnishópur kanni þörf fyrir þjónustu sérhæfðra þverfaglegra teyma fagfólks á borð við geðheilsuteymi taugaþroskaraskana. Unnin verði áætlun um úrbætur í kjölfarið, sé þess þörf.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Heilbrigðisráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Fatlað fólk og hagsmunasamtök þess, Landspítali, geðheilsuteymi taugaþroskaraskana, fagfélög, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 25. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 5 og 16.

E.7. Samfelld, samþætt, þverfagleg og sérhæfð þjónusta við fatlað fólk frá 18 ára aldri.
    Verkefnið feli í sér að kortleggja og rýna núverandi þjónustu með það að markmiði að tryggja sem best samþættingu þjónustunnar þannig að heilbrigðis-, félags- og menntaþjónusta verði heildstæð þegar einstaklingar ná 18 ára aldri. Settur verði á laggirnar verkefnishópur sem í sitji fulltrúar m.a. frá Ráðgjafar- og greiningarstöð, Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, ríki, sveitarfélögum, fagaðilum og hagsmunasamtökum fatlaðs fólks. Verkefnishópurinn skili úrbótatillögum ásamt kostnaðarmati.
    Tímaáætlun: 2026.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Heilbrigðisráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, Ráðgjafar- og greiningarstöð, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 1.–4. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 4, 8, 9, 10, 11, 16 og 17.

E.8. Kortlagning á aðgengi fatlaðs fólks að heilbrigðisþjónustu og endurhæfingu.
    Kortlagðar verði þær hindranir og það misræmi sem fatlað fólk býr við gagnvart aðgengi að heilbrigðisþjónustu og hæfingu/endurhæfingu. Úttektin nái m.a. yfir fjölbreyttar fatlanir og búsetusvæði. Um verði að ræða sjálfstæða úttekt þar sem rætt verði við hagsmunaaðila og þjónustuveitendur og lagðar fram tillögur til úrbóta, sé þess þörf, m.a. hvað varðar fjölda úrræða, mannaflaþörf, möguleika á fjarþjónustu og nýtingu tæknilausna. Tillögum fylgi kostnaðarmat.
    Tímaáætlun: 2027.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Heilbrigðisráðuneyti, embætti landlæknis og heilbrigðisstofnanir, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess, Samband íslenskra sveitarfélaga.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 10., 25. og 26. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 5 og 16.

E.9. Leiðbeiningar um notkun mismunandi tjáskiptaleiða við málsmeðferð dómstóla.
    Mótun leiðbeininga um hvernig símenntun dómara og annarra starfsmanna dómstóla skuli háttað varðandi mismunandi tjáskiptaleiðir, svo sem með tæknilausnum eða persónulegum talsmanni.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Dómsmálaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Dómstólasýslan, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess, réttindagæsla fatlaðs fólks.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 12., 13. og 14. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 16.

E.10. Hagsmunir og réttindi fatlaðs fólks í þróunarsamvinnu, mannúðaraðstoð og málsvarastarfi Íslands um mannréttindi á alþjóðlegum vettvangi.
    Gætt verði að hagsmunum og réttindum fatlaðs fólks í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð Íslands eftir því sem kostur er. Samráð og samstarf við hagsmunasamtök fatlaðs fólks verði aukið og óformlegum samstarfsvettvangi komið á. Þá verði hagsmunasamtök fatlaðs fólks hvött til að sækja um styrki til þróunarsamvinnuverkefna sem leggi áherslu á fatlað fólk og réttindi þess á svæðum þar sem Ísland sinnir tvíhliða þróunarsamvinnu.
    Á alþjóðavettvangi tali Ísland fyrir réttindum fatlaðs fólks þegar fjallað er um mannréttindi á vettvangi alþjóðastofnana, þ.m.t. í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Þá verði einnig lögð áhersla á þessi réttindi í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu, sbr. stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2024–2028.
    Tímaáætlun: 2024–2027.
    Ábyrgð: Utanríkisráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 11. og 32. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 11, 16 og 17.

E.11. Aukin vernd fatlaðs fólks og sérstaklega fatlaðra kvenna og kvára gegn ofbeldi.
    Starfshópi á vegum félags- og vinnumarkaðsráðherra, sem vinnur að því að meta hvaða laga- og reglugerðarbreytinga er þörf þegar kemur að þjónustu við fórnarlömb og gerendur ofbeldis með tilliti til ákvæða í samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi (Istanbúl-samningnum), verði falið að marka leið til að auka vernd fatlaðs fólks gegn ofbeldi og horfa þá sérstaklega til stöðu fatlaðra kvenna og kvára.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Dómsmálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, ríkislögreglustjóri, réttindagæsla fatlaðs fólks, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 6. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 5 og 8.

E.12. Möguleikar varðandi aukna samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu við fatlað fólk.
    Verkefnið feli í sér að starfshópur greini möguleika á að auka samfellu í þjónustu við einstaklinga sem þurfa aðstoð bæði frá félags- og heilbrigðisþjónustu. Jafnframt verði skoðaðir möguleikar á samþættingu, sem og leiðir til aukinnar upplýsingagjafar á milli kerfa.
    Tímaáætlun: 2026.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Heilbrigðisráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 25. og 26. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 5 og 16.

E.13. Þróun og nýsköpun í þjónustu við fatlað fólk.
    Starfshópur fulltrúa sveitarfélaga, félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, innviðaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis, mennta- og barnamálaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og hagsmunasamtaka fatlaðs fólks móti tillögur að nýrri nálgun í þjónustu til þess að auka gæði og hagkvæmni í þjónustu.
    Tímaáætlun: 2025.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Innviðaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 4. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 16 og 17.

E.14. Samræmdari þjónusta við fatlað fólk og betri nýting fjármuna.
    Starfshópur um kostnaðar- og ábyrgðarskiptingu ríkisins móti tillögur að bættu fyrirkomulagi þjónustu við fatlað fólk með það að leiðarljósi að gera stjórnvöldum kleift að veita betri og samræmdari þjónustu á sem hagkvæmastan hátt. Starfshópurinn líti m.a. til útfærslu tillagna úr samkomulagi ríkis og sveitarfélaga frá desember 2023 og skýrslu um greiningu á kostnaðarþróun í þjónustu við fatlað fólk frá janúar 2024, þ.m.t. að samræmt mat á stuðningsþörf (SIS-mat) verði grundvöllur þjónustu. Starfshópurinn meti einnig hvort nauðsynlegt sé að grípa til laga- eða reglugerðarbreytinga og undirbúi eftir atvikum drög að lagafrumvörpum og reglugerðum.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Innviðaráðuneyti, forsætisráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 5. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 10.

F. Lögfesting.
F.1. Lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
    Unnið verði frumvarp til laga um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Aðrar nauðsynlegar lagabreytingar verði gerðar samhliða lögfestingunni til að tryggja samræmi.
    Tímaáætlun: 2025.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Alþingi, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, verkefnisstjórn um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi
fatlaðs fólks, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 1.–4. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 4, 8, 9, 10, 11, 16 og 17.

F.2. Fullgilding valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
    Verkefnið miði að því að tryggja megininntak valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
    Tímaáætlun: 2025.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Alþingi, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti og aðrir hagaðilar.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 1.–4. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 4, 8, 9, 10, 11, 16 og 17.

Samþykkt á Alþingi 20. mars 2024.