Ferill 35. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1546  —  35. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um endurnot opinberra upplýsinga, nr. 45/2018 (mjög verðmæt gagnasett, EES-reglur o.fl.).

Frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, Hagstofu Íslands, Veðurstofu Íslands, Landmælingum Íslands, Samtökum upplýsingatæknifyrirtækja og Samtökum iðnaðarins, Skattinum og Transparency International.
    Nefndinni bárust tíu umsagnir sem eru aðgengilegar á síðu málsins á vef Alþingis.
    Frumvarpið felur í sér breytingar á lögum um endurnot opinberra upplýsinga, nr. 45/2018, vegna innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1024 frá 20. júní 2019 um opin gögn og endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera. Markmið frumvarpsins er að auka möguleika fyrirtækja, einkaaðila og almennings til hagnýtingar á upplýsingum frá hinu opinbera og stuðla að hagvexti og nýsköpun til aukinnar samkeppnishæfni og hagsbóta fyrir samfélagið allt.

Umfjöllun nefndarinnar.
Aðgengi að opinberum upplýsingum og gögnum.
    Fyrir nefndinni var rætt um mikilvægi þess að auðvelda aðgengi að opinberum gögnum. Það væri forsenda fyrir aukinni nýsköpun og verðmætaþróun að gögn og upplýsingar frá hinu opinbera væru aðgengileg auk þess sem það getur leitt til betri stefnumótunar og ákvarðanatöku innan stjórnsýslunnar. Almennt voru umsagnaraðilar jákvæðir gagnvart markmiðum frumvarpsins og meginefni þess sem snýr einkum að aðgengi að mjög verðmætum gagnasettum. Þá er einnig gert ráð fyrir auknu aðgengi að svokölluðum kvikum gögnum auk þess sem mælt er fyrir um endurnot tiltekinna rannsóknargagna.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að það skorti opinbera stefnumótun um opin gögn og gagnainnviði en í frumvarpinu væri þó hvati fyrir hið opinbera til að bregðast við hröðum tækniframförum og auknum möguleikum í notkun gagna. Hér á landi hafi ekki verið sett sérstök stefna um opin gögn umfram þá stefnu sem kemur fram í lögum um endurnot opinberra upplýsinga. Umfjöllun um opin gögn og endurnotkun þeirra megi þó finna í ýmsum stefnum stjórnvalda en heildræna stefnu skorti. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur áherslu á að unnið verði að sérstakri stefnu um opin gögn og endurnotkun þeirra.
    Við umfjöllun málsins var bent á að í sumum tilvikum felur hið opinbera einkaaðilum að vinna gögn fyrir sig. Það geti leitt til þess að gögnin verði ekki aðgengileg öðrum til endurnota ólíkt því sem væri ef hið opinbera hefði sjálft unnið gögnin. Fram komu sjónarmið um að mikilvægt sé að tryggja að gögn sem unnin eru af einkaaðilum fyrir opinbert fé séu einnig aðgengileg til endurnota eftir því sem við á. Nefndin tekur undir mikilvægi þess að gögn sem unnin séu fyrir opinbert fé séu almennt aðgengileg enda standi lög ekki gegn því, t.d. vegna ákvæða um þagnarskyldu. Að mati nefndarinnar er því mikilvægt að opinberir aðilar gæti að því í samningum við einkaaðila um gerð gagna að tryggður sé réttur til endurnota eða aðgangs að þeim verði því komið við.

Mat á áhrifum.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að til þess að markmið frumvarpsins náist þurfi opinberar stofnanir og fyrirtæki að búa yfir nauðsynlegum innviðum til að gera gögn aðgengileg í takt við þær kröfur sem frumvarpið gerir um framsetningu þeirra og aðgengi innan tiltekins tíma, m.a. að því er varðar mjög verðmæt gagnasett og kvik gögn. Fram kom að stofnanir væru misjafnlega í stakk búnar til að takast á við þær breytingar sem felast í frumvarpinu, m.a. með hliðsjón af tæknibúnaði og þekkingu innan stofnana.
    Við meðferð málsins í nefndinni var fjallað um mat á áhrifum frumvarpsins og bent á að kostnaðaráhrif þess væru óljós. Í greinargerð segir að helsti kostnaður vegna frumvarpsins sé tengdur innleiðingu framkvæmdarreglugerðar (ESB) 2023/138 um mjög verðmæt gagnasett. Við gildistöku hennar skapast skylda fyrir stofnanir til þess að veita aðgengi að tilteknum gagnasettum án endurgjalds, á véllæsilegu sniði, veitt um forritaskil og með magnniðurhali, þar sem það á við.
    Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að gert sé ráð fyrir að kostnaði og hugsanlegu beinu tekjutapi verði fundinn staður innan fjárhagsramma þeirra ráðuneyta og stofnana sem hafa aðkomu að málinu. Hins vegar telur ráðuneytið eftir samráð við þau ráðuneyti sem frumvarpið varðar að samþykkt frumvarpsins muni ekki leiða til tekjumissis að neinu ráði þar sem mikill meiri hluti þeirra gagna, sem teljast til verðmætra gagnasetta, er aðgengilegur án endurgjalds nú þegar. Þar sem stofnanir eru misjafnlega í stakk búnar til að takast á við framangreindar breytingar, sem skýrist m.a. af uppsafnaðri þörf fyrir endurnýjun búnaðar, verður innleiðingin áskorun fyrir þær stofnanir án þess að komi til viðbótarútgjalda á komandi árum en viðeigandi ráðuneyti munu leitast við að gera grein fyrir slíkri þörf við vinnu við gerð fjármálaáætlunar og fjárlaga. Einnig verður hægt að sækja um styrki í styrkjaáætlun ESB, Digital Europe Programme.
    Nefndin bendir á að flokkar mjög verðmætra gagnasetta samanstanda m.a. af landupplýsingum, umhverfisgögnum, veðurfræði, hagskýrslum, upplýsingum um fyrirtæki og eignarhald þeirra og upplýsingum um hreyfanleika eða samgöngunet. Þær stofnanir sem koma til með að birta slík gagnasett eru margar mikilvægar þjónustu- og öryggisstofnanir innan stjórnsýslunnar. Nefndin leggur áherslu á að stofnanir fái nauðsynlegan stuðning til að standa undir kröfum frumvarpsins og leggur áherslu á að hugað verði að því við innleiðingu framkvæmdarreglugerðarinnar að lokinni upptöku reglugerðarinnar í EES-samninginn.

Breytingartillögur.
Gildissvið.
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á gildissviði laga um endurnot opinberra upplýsinga þess efnis að felld eru brott ákvæði sem undanskilja Alþingi og stofnanir þess og dómstóla frá ákvæðum laganna. Í greinargerð frumvarpsins er vísað til breytinga á gildissviði upplýsingalaga um að handhöfum löggjafar- og dómsvalds sé nú að meginstefnu skylt að fylgja sömu efnisreglum og handhöfum framkvæmdarvalds við ákvarðanir um rétt almennings til aðgangs að gögnum í vörslum þeirra auk þess sem fram kemur að breytingin sé gerð til að tryggja samræmi landsréttar og EES-réttar.
    Nefndin vill undirstrika, rétt eins og kemur fram í umsögnum skrifstofu Alþingis, að handhöfum löggjafarvalds hefur ekki „að meginstefnu“ verið skylt að fylgja sömu reglum og gilda um framkvæmdarvaldið um ákvarðanir um rétt almennings til aðgangs að gögnum. Hið rétta er að gildissvið upplýsingalaga, nr. 140/2012, tekur til stjórnsýslu Alþingis eins og hún er nánar afmörkuð í lögum um þingsköp Alþingis og reglum forsætisnefndar sem settar eru á grundvelli þeirra, sbr. 1. málsl. 4. mgr. 2. gr. upplýsingalaga. Gildissvið upplýsingalaga tekur því ekki til þeirrar starfsemi sem fram fer af hálfu Alþingis sem fulltrúasamkomu þjóðkjörinna fulltrúa, sbr. 2. mgr. 91. gr. laga um þingsköp Alþingis. Upplýsingalög taka enn fremur ekki til umboðsmanns Alþingis, Ríkisendurskoðunar og rannsóknarnefnda Alþingis samkvæmt lögum um rannsóknarnefndir, sbr. 2. málsl. 4. mgr. 2. gr. upplýsingalaga.
    Það þýðir að með breytingu b-liðar 2. gr. frumvarpsins, sem fellir brott undanþágu Alþingis og stofnana þess frá lögum um endurnot opinberra upplýsinga, munu lögin einungis taka til stjórnsýslu Alþingis, eins og það er afmarkað í þingsköpum og reglum forsætisnefndar þar um. Þá munu lögin ekki taka til stofnana þingsins enda eru þær undanskildar upplýsingalögum.
    Til að tryggja samræmi við ákvæði upplýsingalaga leggur nefndin til þá breytingu að komi upp ágreiningur um endurnot opinberra upplýsinga frá stjórnsýslu Alþingis þá fari um hann og málsmeðferð samkvæmt lögum um þingsköp Alþingis og reglum forsætisnefndar sem settar eru á grundvelli þeirra.
    
    Þá leggur nefndin til breytingar lagatæknilegs eðlis.

    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Orðin „eða reglugerðir“ í b-lið 7. gr. falli brott.
     2.      Á eftir 7. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  Á eftir 1. mgr. 12. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Um ágreining um endurnot upplýsinga frá stjórnsýslu Alþingis og málsmeðferð fer eftir lögum um þingsköp Alþingis og reglum forsætisnefndar sem settar eru á grundvelli þeirra.
     3.      8. gr. orðist svo:
                  13. gr. laganna orðast svo:
                  Með lögum þessum er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1024 frá 20. júní 2019 um opin gögn og endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera, sem felld var inn í XI. viðauka við EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 190/2022 frá 10. júní 2022 og fellir úr gildi tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/98/EB um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera.

    Hildur Sverrisdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir rita undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 17. apríl 2024.

Þórunn Sveinbjarnardóttir,
form.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir,
frsm.
Sigmar Guðmundsson.
Ágúst Bjarni Garðarsson. Ásthildur Lóa Þórsdóttir. Halla Signý Kristjánsdóttir.
Hildur Sverrisdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir. Indriði Ingi Stefánsson.