Ferill 627. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1547  —  627. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fyrirtækjaskrá, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um ársreikninga og lögum um skráningu raunverulegra eigenda (fyrirtækjaskrá).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá menningar- og viðskiptaráðuneyti, Samtökum fjármálafyrirtækja og Skattinum.
    Nefndinni bárust fjórar umsagnir og minnisblað frá menningar- og viðskiptaráðuneyti sem er aðgengilegt á síðu málsins á vef Alþingis.

Umfjöllun.
Almennt.
    Með frumvarpinu eru annars vegar lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um ársreikninga sem heimila ríkisskattstjóra að skiptast á upplýsingum við fyrirtækjaskrár annarra EES-ríkja í gegnum samtengingarkerfi miðlægra skráa. Kveðið er á um samtengingarkerfið í 22. gr. tilskipunar (ESB) 2017/1132. Hins vegar eru lagðar til breytingar á lögum um fyrirtækjaskrá og lögum um skráningu raunverulegra eigenda. Ríkisskattstjóri veitir því upplýsingar um raunverulegt eignarhald samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/849, en samkvæmt henni ber aðildarríkjum að tryggja að miðlægar skrár skv. 3. mgr. 30. gr. og 3. mgr. a 31. gr. tilskipunarinnar, eins og henni var breytt með tilskipun (ESB) 2018/843, verði samtengdar í gegnum miðlæga evrópska vettvanginn sem komið var á fót með 1. mgr. 22. gr. tilskipunar (ESB) 2017/1132.
    Fyrir vikið eru jafnframt lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög sem kveða á um heimildir ríkisskattstjóra til að vinna með persónuupplýsingar að því marki sem nauðsynlegt er til að sinna hlutverki sínu samkvæmt lögunum.

Breytingartillögur.
Breytingartillögur samkvæmt ábendingum Skattsins.
    Í umsögn Skattsins til nefndarinnar var bent á að í 1. gr. og 3. mgr. 10. gr. frumvarpsins væru talin upp hlutafélög, einkahlutafélög og útibú erlendra hlutafélaga og einkahlutafélaga en samlagsfélög væru ekki tilgreind. Þó kæmi fram í greinargerð með frumvarpinu að tilskipunin tæki annars vegar til hlutafélaga, sbr. viðauka I og b-lið 1. mgr. 1. gr. ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 200/2019, og hins vegar til hlutafélaga, einkahlutafélaga og samlagsfélaga, sbr. viðauka II og c-lið 1. mgr. 1. gr. ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 200/2019. Í minnisblaði menningar- og viðskiptaráðuneytis var talið að um réttmæta ábendingu væri að ræða. Í samráði við ráðuneytið leggur meiri hlutinn því til að samlagsfélög bætist við ákvæðin.
    Í 10. gr. frumvarpsins er lagt til að ný grein, 109. gr. a, bætist við lög um ársreikninga sem varði veitingu aðgangs að ársreikningum í gegnum samtengingarkerfi skráa. Í umsögn Skattsins var talið rétt að jafnframt yrði gerð breyting á núgildandi 109. gr. laganna í því skyni að tryggja fullnægjandi vinnsluheimildir persónuupplýsinga á grundvelli laganna sem tæki þá til framangreindrar vinnslu sem og annarra. Með vísan til minnisblaðs ráðuneytis leggur meiri hlutinn til viðeigandi breytingu.

Vinnsla persónuupplýsinga.
    Í b-lið 2. gr., 5. gr. og 8. gr. frumvarpsins er lagt til að við lög um fyrirtækjaskrá, lög um hlutafélög og lög um einkahlutafélög bætist heimild ríkisskattstjóra til vinnslu persónuupplýsinga að því marki sem honum er það nauðsynlegt til að sinna hlutverki sínu samkvæmt nefndum lögum, svo sem vegna skráningar upplýsinga í fyrirtækja- og hlutafélagaskrá. Í umsögn sem nefndinni barst frá Persónuvernd var lögð til sú viðbót við ákvæðin að vinnsla persónuupplýsinga samkvæmt lögunum skyldi samræmast lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Meiri hlutinn telur tillöguna til bóta og leggur hana til í samráði við ráðuneytið.
    Þá kom fram í umsögn frá Skattinum um umrædd ákvæði frumvarpsins að mikilvægt væri að kveðið yrði á um það með ótvíræðum hætti að við þá vinnslu persónuupplýsinga sem um ræddi hvíldi skylda á ríkisskattstjóra til þess að miðla persónuupplýsingum frekar en að ákvörðun um vinnslu væri háð túlkun ríkisskattstjóra á matskenndum heimildarákvæðum. Með vísan til framangreinds og að höfðu samráði við ráðuneytið leggur meiri hlutinn því til breytingar á b-lið 2. gr., 2. mgr. 5. gr. og 2. mgr. 8. gr.

Breytingartillögur samkvæmt tillögum ráðuneytis.
    Í minnisblaði ráðuneytisins sem nefndinni barst kom fram tillaga um breytingu á 6. tölul. 4. gr. laga um fyrirtækjaskrá svo að skýrt yrði kveðið á um það í lögunum að þegar við ætti skyldi skrá upplýsingar í fyrirtækjaskrá um stjórnarmenn og varamenn, prókúruhafa, framkvæmdastjóra, endurskoðendur og skoðunarmenn, félagsmenn í sameignar- og samlagsfélögum og aðra forráðamenn allra þeirra lögaðila sem skráðir eru í fyrirtækjaskrá. Jafnframt kom fram í minnisblaðinu að rétt væri að fella brott tilvísun til 9. mgr. 31. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/849 í 12. gr. Meiri hlutinn telur tillögurnar tvær til bóta og gerir þær að sínum.
    Aðrar breytingar sem meiri hlutinn leggur til eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til á sérstöku þingskjali.
    Ágúst Bjarni Garðarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 16. apríl 2024.

Teitur Björn Einarsson,
form.
Ágúst Bjarni Garðarsson,
frsm.
Diljá Mist Einarsdóttir.
Guðbrandur Einarsson. Jóhann Friðrik Friðriksson. Oddný G. Harðardóttir.
Steinunn Þóra Árnadóttir.