Ferill 1067. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 1549  —  1067. mál.
Málsnúmer.




Beiðni um skýrslu


frá fjármála- og efnahagsráðherra um erlenda fjárfestingu á Íslandi samanborið við önnur norræn ríki.


Frá Guðbrandi Einarssyni, Hönnu Katrínu Friðriksson, Sigmari Guðmundssyni, Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, Andrési Inga Jónssyni, Birni Leví Gunnarssyni, Dagbjörtu Hákonardóttur, Gísla Rafni Ólafssyni, Jóhanni Páli Jóhannssyni og Þórunni Sveinbjarnardóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að fjármála- og efnahagsráðherra flytji Alþingi skýrslu um erlenda fjárfestingu á Íslandi samanborið við önnur norræn ríki. Í skýrslunni komi m.a. fram:
     1.      Fjárhæð viðskipta erlendra aðila í Kauphöll Íslands á hverju ári undanfarin 15 ár, sundurliðað eftir fjárhæð sölu og kaupa.
     2.      Fjárhæð erlendra fjárfestinga í nýsköpunarverkefnum á Íslandi og fjárhæð erlendra fjárfestinga í innviðauppbyggingu í samvinnu við opinbera aðila (PPP).
     3.      Fjárhæð viðskipta erlendra aðila í kauphöllum Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar ár hvert undanfarin 15 ár, sundurliðað eftir fjárhæð sölu og kaupa.
     4.      Fjárhæð erlendra fjárfestinga í nýsköpunarverkefnum í framangreindum löndum og í innviðauppbyggingu í samvinnu við opinbera aðila (PPP).
     5.      Samanburður á beinni erlendri fjárfestingu í hverju norrænu ríki sem hlutfall af vergri landsframleiðslu þar.
    Einnig skal greina frá fjárhæðum sem hlutfalli af heildarviðskiptum eða heildarfjárfestingum, innlendum og erlendum, í hverjum framangreindra liða.

Greinargerð.

    Með beiðni þessari er óskað eftir því að fjármála- og efnahagsráðherra greini frá fjárhæð og hlutfalli erlendra viðskipta í Kauphöll Íslands og erlendrar fjárfestingar í nýsköpunarverkefnum og PPP-verkefnum og beri saman við hlutfall sambærilegra viðskipta og fjárfestinga í öðrum norrænum ríkjum. Markmiðið er að varpa ljósi á það hvort erlend fjárfesting á Íslandi sé sambærileg og annars staðar á Norðurlöndum eða hvort hún sé mælanlega minni hér.
    Erlend fjárfesting getur skipt máli í því skyni að auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi og tryggja fjármagn sem nýtist við uppbyggingu til langframa. Öflug erlend fjárfesting er að jafnaði gæðamerki fyrir innlendan markað og getur stuðlað að aukinni hagsæld í samfélaginu. Fyrir liggur að hindranir gegn erlendri fjárfestingu eru víðtækari hér en í flestum ríkjum OECD, og víðtækari en í öðrum norrænum ríkjum. Vilja flutningsmenn m.a. draga fram hvort slíkar hömlur hafi nú neikvæð áhrif á umfang erlendrar fjárfestingar á Íslandi.
    Með erlendum aðila í beiðni þessari er annars vegar átt við einstakling sem hefur ekki ríkisborgararétt í því landi þar sem viðskipti fara fram og hins vegar við lögaðila sem hefur ekki höfuðstöðvar í því landi þar sem viðskipti fara fram.