Ferill 739. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1550  —  739. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Valgerði Árnadóttur um útvistun ræstinga.


     1.      Hversu margar ríkisstofnanir hafa á undanförnum tíu árum útvistað ræstingum á húsnæði sínu?
    Sex stofnanir hafa útvistað ræstingum á síðustu tíu árum.

     2.      Hvaða ríkisstofnanir eru með samninga við einkarekin ræstingafyrirtæki og hvaða fyrirtæki er um að ræða? Svar óskast sundurliðað eftir stofnunum.
    Tryggingastofnun ríkisins, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda og sjónskerta, úrskurðarnefnd velferðarmála, umboðsmaður skuldara, Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála og Vinnueftirlit ríkisins, að hluta. Samið hefur verið við Daga hf., LBC projects, Hreint ehf. og Iclean.

     3.      Hvað hefur útvistun ræstinga til einkarekinna fyrirtækja sparað ríkisstofnunum háar fjárhæðir á síðastliðnum tíu árum eða frá því að ræstingum var útvistað? Svar óskast sundurliðað eftir stofnunum.
    Ekki liggur fyrir hversu mikið útvistun hefur sparað stofnunum háar fjárhæðir. Í einhverjum tilfellum hefur útvistun varað mjög lengi og stærð og umfang húsnæðis hefur breyst. Í öðrum tilvikum er útvistun nýtt til að tryggja fyrirsjáanleika ræstinga vinnurýma, frekar en ávinnings í fjárhæðum.

     4.      Hversu lengi halda samningar milli stofnunar og ræstingafyrirtækis að meðaltali?
    Um er að ræða ótímabundna samninga með stuttum uppsagnarfresti.

     5.      Hver var meðalstarfsaldur ræstingafólks ríkisstofnana þegar störfum þess var útvistað til einkarekins ræstingafyrirtækis? Svar óskast sundurliðað eftir stofnunum.
    Meðalstarfsaldur liggur ekki fyrir. Hafa ber í huga að í millitíðinni hafa stofnanir flust á milli ráðuneyta.