Ferill 665. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1553  —  665. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um endurgreiðslu kostnaðar vegna ófrjósemi.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Kemur til álita að breyta ákvæðum reglugerðar nr. 1239/2018, um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tæknifrjóvganir sem veittar eru án samnings við Sjúkratryggingar Íslands, þannig að einstaklingar sem þess þurfa vegna kynstaðfestandi læknismeðferðar njóti sambærilegrar endurgreiðslu og nú er veitt í tengslum við yfirvofandi ófrjósemisvandamál vegna fyrirsjáanlegrar lyfjameðferðar, geislameðferðar eða beinmergsflutnings?

    Heilbrigðisráðuneytið hefur haft til skoðunar málefni hinsegin einstaklinga að því er varðar greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga. Ráðuneytið fundaði með Samtökunum ´78 í lok febrúarmánaðar þar sem m.a. rætt var um heilbrigðismál trans fólks og greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga fyrir þá einstaklinga. Áformað er að meta þörf á breytingum á greiðsluþátttöku fyrir þennan hóp í víðu samhengi, svo sem á grundvelli reglugerðar nr. 1239/2018, með tilliti til fjárheimilda.
    Nýlega ákvað ráðherra að styrkja þjónustu við trans fólk með aukafjárveitingu til undirbúnings að stofnun miðstöðvar fyrir trans fólk hjá Landspítala þar sem skjólstæðingar geta sótt sér heildræna þjónustu frá upphafi til æviloka. Markmið miðstöðvarinnar er að veita faglega, tímabæra og heildræna þjónustu og í samræmi við skyldur og réttindi í ákvæðum laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019.