Ferill 35. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.








Lög



um breytingu á lögum um endurnot opinberra upplýsinga, nr. 45/2018 (mjög verðmæt gagnasett, EES-reglur o.fl.).


________




1. gr.

    1. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Markmið laga þessara er að setja lágmarksreglur um endurnot opinberra upplýsinga í þágu aukinnar nýsköpunar og til hagsbóta fyrir samfélagið í heild.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. mgr. 2. gr. laganna:
     a.      Við 2. tölul. bætist: sbr. þó 4. gr. a.
     b.      4. og 5. tölul. falla brott.

3. gr.

    Við 2. tölul. 4. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Opinberum aðilum er heimilt að veita undanþágu frá skilyrði þessu ef það takmarkar möguleika á endurnotum óhóflega.

4. gr.

    Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein, 4. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Rannsóknargögn.

    Heimilt er að endurnota rannsóknargögn án endurgjalds séu þau að hluta eða öllu leyti fjármögnuð af hinu opinbera, enda hafi þau verið gerð aðgengileg í gegnum gagnasafn stofnunar eða gagnasafn á tilteknu sviði.
    Ráðherra getur í reglugerð mælt fyrir um hvernig aðgangi að rannsóknargögnum skuli háttað, þ.m.t. með hvaða sniði og samkvæmt hvaða stöðlum rannsóknargögn skuli gerð aðgengileg.

5. gr.

    Við 2. mgr. 6. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Samninga um sérleyfi og samninga sem ekki veita einkarétt með ótvíræðum hætti en sem ætla má að takmarki aðgang að upplýsingum til endurnota skal birta rafrænt tveimur mánuðum áður en þeir taka gildi.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Opinber aðili skal gera kvik gögn aðgengileg til endurnota um viðeigandi forritaskil og, þar sem við á, með magnniðurhali um leið og þeim hefur verið safnað. Með kvikum gögnum er átt við gögn á stafrænu formi sem uppfærast ört eða í rauntíma.
     b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Geti opinber aðili ekki gert kvik gögn aðgengileg til endurnota um leið og þeim hefur verið safnað, án óhóflegrar fyrirhafnar, skulu gögnin gerð aðgengileg til endurnota innan ákveðins tímaramma eða með tímabundnum tæknilegum takmörkunum sem hafa ekki áhrif á nýtingu gagnanna.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Mjög verðmæt gagnasett skulu vera á véllæsilegu sniði, veitt um viðeigandi forritaskil og með magnniðurhali, þar sem það á við. Ráðherra skal setja reglugerð um mjög verðmæt gagnasett, þ.m.t. hvaða opinberu upplýsingar teljast til mjög verðmætra gagnasetta, reglur um snið, lýsigögn, formlega staðla og undanþágur frá birtingu.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Heimilt er að taka gjald fyrir endurnot opinberra upplýsinga en þó ekki hærra gjald en nemur beinum kostnaði sem hlýst af fjölföldun, afhendingu og dreifingu gagna og frekari vinnslu þeirra til að gera persónuupplýsingar nafnlausar eða gera ráðstafanir til að vernda trúnaðarupplýsingar sem eru viðskiptalegs eðlis.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Þrátt fyrir 1. mgr. skulu endurnot mjög verðmætra gagnasetta, sbr. 3. mgr. 9. gr., vera aðgengileg án endurgjalds, nema lög mæli sérstaklega fyrir um annað.

8. gr.

    Á eftir 1. mgr. 12. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Um ágreining um endurnot upplýsinga frá stjórnsýslu Alþingis og málsmeðferð fer eftir lögum um þingsköp Alþingis og reglum forsætisnefndar sem settar eru á grundvelli þeirra.

9. gr.

    13. gr. laganna orðast svo:
    Með lögum þessum er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1024 frá 20. júní 2019 um opin gögn og endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera, sem felld var inn í XI. viðauka við EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 190/2022 frá 10. júní 2022 og fellir úr gildi tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/98/EB um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera.

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.




_____________







Samþykkt á Alþingi 30. apríl 2024.