Ferill 1041. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1662  —  1041. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur um þjónustusviptingu.


     1.      Hversu margir einstaklingar hafa fengið tilkynningu um niðurfellingu þjónustu á grundvelli 8. mgr. 33. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, frá gildistöku ákvæðisins í núverandi mynd? Svar óskast sundurliðað eftir því hvort um er að ræða barn eða fullorðinn einstakling.
    Alls hafa 138 einstaklingar fengið tilkynningu um niðurfellingu á þjónustu á grundvelli 8. mgr. 33. gr. laga um útlendinga. Engin börn né forsvarsmenn þeirra hafa fengið slíka tilkynningu.

     2.      Hversu margir einstaklingar hafa verið sviptir þjónustu á grundvelli fyrrgreinds ákvæðis og með hvaða hætti er slík ákvörðun birt viðkomandi?
    Þjónustu við alls 32 einstaklinga hefur verið lokið á grundvelli fyrrgreinds ákvæðis. Ríkislögreglustjóri tilkynnir um rétt til þjónustu í 30 daga þegar viðkomandi útlendingur kemur í þjónustu til embættisins sem er að jafnaði nokkrum dögum eftir að endanleg niðurstaða á stjórnsýslustigi er birt. Tilkynningin er skrifleg en jafnframt er viðkomandi upplýstur um tilkynninguna á tungumáli sem hann skilur. Þá er öllum leiðbeint um möguleika á að óska eftir frestun á niðurfellingu réttinda, sbr. 9. mgr. 33. gr. laga um útlendinga. Hafi útlendingur ekki yfirgefið landið eða úrræðið innan frestsins eða verið í samstarfi við lögreglu um öflun ferðaskilríkja eða annan undirbúning flutnings fellur þjónustan niður lögum samkvæmt.

     3.      Hver tekur ákvörðun um að fresta niðurfellingu réttinda á grundvelli 9. mgr. 33. gr. laga um útlendinga og með hvaða hætti er slík frestun tilkynnt viðkomandi?
    Embætti ríkislögreglustjóra er heimilt skv. 9. mgr. 33. gr. laga um útlendinga að fresta niðurfellingu réttinda. Slík frestun er tilkynnt skriflega og birt viðkomandi eða talsmanni ef hann er til staðar.

     4.      Hversu mörgum beiðnum um frestun hefur verið synjað og hversu margar slíkar synjanir hafa verið kærðar til kærunefndar útlendingamála?
    Embættið hefur tekið þrjár ákvarðanir um synjun á frestun niðurfellingar réttinda. Tvær þeirra voru kærðar til kærunefndar útlendingamála sem staðfesti niðurstöðu embættisins, sbr. úrskurði nr. 718/2023 og 719/2023 sem birtir eru á úrskurðarvef Stjórnarráðsins.