154. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:30]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Samfylkingin styður að það sé tekin af sérstök aðhaldskrafa á lögregluna. Ég vil samt bara koma hingað upp og vekja athygli á því, fyrst að við erum komin út í þennan leik að fjárlaganefnd er að fjarlæga stakar aðhaldskröfur af ákveðnum stofnunum og stéttum, og velti fyrir mér hvort ríkisstjórnin í heild ætti ekki að hugsa sinn gang varðandi almennar aðhaldskröfur í fjárlögunum. Við áttum okkur öll á því að það eru margar stofnanir rúnar inn að skinni út af þessari aðferðafræði sem virðist ekki hafa skilað neinni hagræðingu til lengri tíma vegna þess að hér koma ráðherrar trekk í trekk, þar með talið hæstv. dómsmálaráðherra, og lýsa því yfir að stofnanir séu fjársveltar eftir allt saman. Við fögnum því að hv. fjárlaganefnd átti sig á mikilvægi þessa að fjarlægja sérstakt aðhald en ég gæti nefnt fleiri stofnanir og fleiri svið þar sem þetta á svo sannarlega við um líka.