154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Náttúruverndar- og minjastofnun.

831. mál
[18:30]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Í fyrsta lagi, ef ég skil hv. þingmann rétt, þá er hann að vísa til þess að það er alveg augljóst að hægt er að gera mistök við sameiningar. Það liggur alveg fyrir. Þess vegna var tekinn góður tími í undirbúning og þess vegna var farið eftir ráðleggingum Ríkisendurskoðunar um hvernig haga beri þessum hlutum. Ég nefndi það að undirbúningur hófst 2022. Af hverju? Vegna þess að það er mikilvægt að vanda til verka og það er mikilvægt að gera ekki þau mistök sem hafa verið oft gerð í sameiningum. Þess vegna var farið eftir ráðleggingum Ríkisendurskoðunar. Ég skil ekki alveg hvað hv. þingmaður er að tala um, að ef störf séu færð út á land kalli það á aukinn kostnað. (Gripið fram í.) Það lá í spurningunni, reyndar var það frekar skýrt, það var ekki hægt að skilja hann öðruvísi; ef við færðum störf út á land þá myndi það auka kostnað. Því er reyndar oftar en ekki öfugt farið. Hér er ekki um það að ræða að flytja fólk sem er í störfum á höfuðborgarsvæðinu heldur er búið að gera góða könnun á því og skoða hver aldurssamsetningin er, þannig að þegar fólk hættir vegna aldurs þá verða störfin sem losna flutt út á land. Almenna reglan er þessi: Húsnæðiskostnaður er lægri úti á landi. Það er liðin sú tíð að við þurfum alltaf að byggja yfir opinbera stofnun ef við setjum hana eitthvert, við þekkjum það. Ég var að nefna hér áðan að ég var bara fyrir nokkrum dögum síðan að opna starfsstöð Umhverfisstofnunar á Hvanneyri. Það var ekki byggt nýtt húsnæði á Hvanneyri. Þegar við vorum að skoða hagræðingarmöguleikana í þessu þá fólust þeir ekki síst í því að húsnæði er ódýrara úti á landi og við erum að sjá allra handa aðstöðu, m.a. í kjördæmi hv. þingmanns, skrifstofuaðstöðu og setur sem auðvelt er að nota.