154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Náttúruverndar- og minjastofnun.

831. mál
[19:04]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég taldi mikilvægt að greina mjög stöðu minjaverndar, þess vegna setti ég af stað starfshóp undir forystu Birgis Þórarinssonar sem skilaði mjög ítarlegri og góðri skýrslu sem mér finnst taka á flestum þeim þáttum. Ástæðan fyrir því að við tókum svona langan tíma og undirbúning að þessari sameiningu var að við vorum að vanda okkur og fá fram bestu faglegu mögulegu þekkinguna við þetta.

Af því að hv. þingmaður vísar í fjárframlög; sem dæmi um stuðning við minjavernd hefur ráðuneytið veitt stofnuninni aukið fjármagn til að ráða minjavörð á Vestfjörðum en sú staða hefur ekki verið til áður þrátt fyrir að hún sé og hafi verið lögbundin en verið sinnt frá öðru svæði. Einnig lagði ráðuneytið til 20 millj. kr. varanlega heimild til Minjastofnunar á árinu 2023 til að efla fornleifaskráningu í landinu og til að skráðar fornminjar verði aðgengilegir í miðlægum gagnagrunnum í samræmi við ákvæði laga um menningarminjar. Þannig að við höfum ekki bara talað, við höfum framkvæmt innan þess ramma sem við höfum. Ég var að velta upp hugmyndum sem hv. þingmaður getur farið í gegnum í framsöguræðu minni til þess að menn gætu tryggt það enn frekar að minjavernd yrði gert hátt undir höfði. Ég veit að það er ekki markmið mitt og ekki markmið hv. þingmanns að við komumst að niðurstöðu í stuttum ræðum með andsvörum en ég vil biðja hv. þingmann að líta til þessa því að mér finnst að minjaverndin geti ekki beðið. Það þarf að styðja minjaverndina af augljósum ástæðum.