154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

almenn hegningarlög.

131. mál
[18:44]
Horfa

Flm. (Gísli Rafn Ólafsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Það er algerlega satt að börnin eru að sjálfsögðu þarna inni, allir sem eru yngri en 18 ára eru börn og þau eru þarna jafnvel niður í níu eða tíu ára aldur. Þó svo að þetta frumvarp snerti aðallega það að hækka þennan viðmiðunaraldur upp í 18 ár, þannig að það brot sem verið er að fremja sé sterkara eða sé yfir höfuð brot, þá þarf eins og ég nefndi virkilega að skoða tælingarkaflann betur. Ég veit að verið er að skoða þennan kafla að hluta til í dómsmálaráðuneytinu vegna dóms sem féll núna fyrr í vetur þar sem Hæstiréttur benti á að skilgreiningin á því að nauðga barni væri bara hreinlega ekki nógu góð í tengslum við svona tælingar. Vonandi lagar það einhvern hluta af tælingarpartinum og misnotkunarpartinum. En til þess að við tryggjum hagsmuni barna okkar, sem eru börn samkvæmt lögum frá fæðingu til 18 ára aldurs, þurfum við að hækka aldursviðmiðið líka. Ég vil taka sérstaklega fram að horft er til þess að krakkar niður í 12 ára aldur eru að stunda kynlíf með jafnöldrum sínum eða krökkum á svipuðum aldri. Þetta gerir það ekki ólöglegt vegna þess að Rómeó og Júlíu ákvæðið sem er í hegningarlögum í dag tekur á því.