154. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2024.

friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.

117. mál
[11:05]
Horfa

Flm. (Jódís Skúladóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hér er lagt fram í átjánda sinn frumvarp til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Aldrei fyrr hefur verið jafn mikilvægt að Ísland hafi frumkvæði að afvopnun og friðlýsingu fyrir kjarnorkuvopnum innan lögsögu sinnar til himins og hafs og bindi þar með í lög yfirlýstan vilja íslenskra stjórnvalda um að Ísland eigi engan þátt í þróun, geymslu eða flutningi kjarnorkuvopna og stuðli þannig að friðvænlegri heimi.

Ekki hefur verið meiri hætta á kjarnorkustyrjöld í yfir 60 ár eða frá því að Kúbudeilan stóð sem hæst en sérfræðingar telja að ógnin sé enn meiri í dag en hún var þá. Málið hefur því aldrei verið mikilvægara. Frá því að Rússar hófu allsherjarinnrás í Úkraínu hefur spennan magnast svo um munar í Evrópu. Þar réðst eitt af þremur stóru kjarnorkuveldunum inn í fullvalda ríki og telst innrásin sjálf ekki bara ólögleg heldur eru einstakar hernaðaraðgerðir brot á reglum mannúðarréttar, þ.e. Genfarsáttmálanum, og mannréttindareglum. Staðan fyrir botni Miðjarðarhafs hefur einnig aukið mjög á spennuna en afstaða íslenskra stjórnvalda hefur verið skýr frá upphafi. Ísland hefur kallað eftir tafarlausu vopnahléi af mannúðarástæðum, lausn allra gísla, óheftu aðgengi neyðaraðstoðar og annarra nauðþurfta og undantekningarlausri virðingu við alþjóðalög. Að baki Ísraels standa kjarnorkuveldi sem hafa með beinum hætti afskipti af málum á svæðinu.

Aukinn hernaður og vígvæðing þrýstir á sífellda þróun í gerð hergagna um heim allan en nú standa yfir stríðsátök á ríflega 100 stöðum í heiminum samkvæmt mannréttindalögfræðideild háskólans í Genf, með leyfi forseta, The Geneva Academy of International Humanitarian Law and Human Rights. Þjóðir heims eru víða að auka við kjarnorkubirgðir sínar frekar en að eyða þeim og á þetta við jafnt í viðkvæmum heimshlutum sem og í Vesturheimi. Kjarnorkuveldin Bandaríkin og Rússland, sem vísað var til fyrr í ræðu minni, eiga hvort um sig meira af kjarnorkuvopnum en heimsbyggðin til samans, í trássi við alþjóðlegar skuldbindingar um að dreifa ekki kjarnavopnum og almenna afvopnun þeirra. Flest ríki heims viðurkenna hættuna sem stafar af gereyðingarvopnum og hafna hinni öldnu kenningu um gagnkvæmt ógnarjafnvægi.

Nú hafa atburðirnir bæði í Evrópu og fyrir botni Miðjarðarhafs sýnt okkur svo ekki verður um villst hversu hratt hernaðarbrölt getur þróast með skelfilegum afleiðingum. Núningur milli heimsvelda sem búa yfir kjarnorkuvopnum setur alla hluti í nýtt samhengi og knýr enn frekar á Ísland sem herlausa og friðelskandi þjóð að stíga fast til jarðar og með afgerandi hætti. Góð leið og táknræn væri að Ísland riði á vaðið og festi í lög að það yrði svæði þar sem bannað er að koma fyrir, staðsetja, geyma, flytja eða meðhöndla kjarnorkuvopn á nokkurn hátt.

Nú þarf að fara norður fyrir miðbaug til að finna land sem ekki hefur skrifað undir samning um friðlýsingu fyrir kjarnorkuvopnum. Alls eru fimm fjölþjóðlegir sáttmálar um bann við kjarnorku og er suðurhvel jarðarinnar meira og minna friðlýst. Ekki hefur náðst að friðlýsa Norðurlönd fyrir kjarnavopnum en í ljósi þeirrar stöðu og ásýndar sem þau hafa í alþjóðasamfélaginu, og ekki síst með tilliti til breyttra aðstæðna vegna núverandi stríðsátaka og áhrifa þeirra á stöðu norðurslóða, færi vel á því að Ísland riði á vaðið.

Kjarnorkuveldin hafa um langt skeið litið hýru auga til norðurs með augastað á flutningsleiðum um norðurskautið. Það er því mikið unnið með friðlýsingu og frumkvæði Íslands að afvopnun og friðlýsingu fyrir kjarnorkuvopnum, bæði fyrir land og þjóð en ekki síst fyrir norðurslóðir. Fjöldi stórborga og sveitarfélaga um allan heim er friðlýstur fyrir umferð kjarnavopna. Íslensk sveitarfélög hafa flestöll sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að friða verði landið frá kjarnorkuvopnum og umferð þeirra.

Sú gagnrýni hefur komið fram í umræðum um friðlýsingu Íslands gegn kjarnavopnum að frumvarpið gangi gegn hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Því er vert að taka fram að alþjóðlegar skuldbindingar Íslands sem snúa að hafrétti tryggja skipum í neyð aðstoð innan lögsögu Íslands. Þetta er áréttað í 10. gr. frumvarpsins en greinin fjallar um undanþágur vegna alþjóðlegs réttar og því heimild til að liðsinna skipum í neyð.

Virðulegi forseti. Mig langar að lokum að árétta að það er okkur í lófa lagið að koma þessu mikilvæga máli í höfn og lögfesta nú friðlýsinguna. Ísland er herlaus þjóð sem hefur byggt utanríkisstefnu sína á friði og mannúð og þar höfum við í VG staðið í stafni. Ég tel að þetta mál sem hér er mælt fyrir í átjánda sinn sé einkar farsælt fyrir friðarmál á norðurslóðum, fyrir Ísland og ekki síður fyrir frið í heiminum.

Að lokum legg ég til að málið gangi til hv. utanríkismálanefndar.