154. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2024.

friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.

117. mál
[11:11]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka framsöguna og kannski upp á umræðuna langar mig að nálgast þetta sem tvo aðskilda hluti. Við erum annars vegar að tala um kjarnavopn og hins vegar kjarnorkuknúin farartæki. Það er kannski um aðeins ólíka þætti að ræða í sambandi við þessi tvö atriði.

Fyrst langar mig að spyrja út í kjarnorkuknúnu farartækin. Eins og hv. þingmaður segir þá þarf auðvitað að taka einhvern veginn mið af skuldbindingum samkvæmt alþjóðahafréttarsáttmálanum um skip í neyð og hvað það er, þannig að ekki sé verið að loka á mannbjörg þegar þarf. En auðvitað eru, eins og þingmaðurinn segir, rík sjónarmið fyrir því að koma í veg fyrir umferð farartækja sem geta valdið jafn mikilli mengun og kjarnorkuknúin farartæki hér upp við landsteinana. Mig langar þess vegna að spyrja hvernig það birtist í reynd, af því að ég er alltaf dálítið forvitinn þegar stjórnarflokkar leggja fram mál sem ganga ekki bara gegn því sem ríkisstjórnin stendur fyrir í stefnu sinni heldur bara í aðgerðum sínum. Það er ekki ár liðið síðan ríkisstjórnin samþykkti tillögu utanríkisráðherra um að heimila kjarnorkuknúnum kafbátum, að vísu ekki búnum kjarnavopnum, að koma hér við og sækja vistir, skipta um mannskap, sækja heilbrigðisþjónustu, heyrir maður, með reglulegum hætti. Þetta er búið að gerast nokkrum sinnum á síðasta ári hér rétt utan við landsteinana við Helguvík. Hvernig fer saman þessi vilji hluta þingflokks Vinstri grænna og sú stefna sem ríkisstjórn Vinstri grænna er að framfylgja?