154. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2024.

friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.

117. mál
[11:16]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, mér þykir áhugavert að heyra að allur þingflokkurinn standi á bak við þetta frumvarp vegna þess að þá getur varla verið að ráðherrar flokksins hafi samþykkt það að utanríkisráðherra veitti bandarískum hernaðaryfirvöldum heimild til að leggja kjarnorkuknúnum kafbátum utan við landsteinana. Er hv. þingmaður sem sagt að segja að það hafi verið ágreiningur í ríkisstjórninni og einhver formleg bókun ráðherra Vinstri grænna gegn þessari tilkynningu utanríkisráðherra í apríl á síðasta ári?

Mig langar að spyrja um friðlýsingu fyrir kjarnavopnum núna í síðara andsvari vegna þess að mér hefur þótt það vera mikill skavanki á þjóðaröryggisstefnu Íslands að þar er talað um friðlýsingu en hnýtt aftan við þá setningu stefnunnar að það eigi að taka tillit til alþjóðlegra skuldbindinga. Aldrei fæst almennilega á hreint hvort við séum að tala um hafréttarsáttmálann sem auðvitað heimilar skipum að leita vars í neyð eða hvort samningurinn um NATO geri Íslandi skylt að vera með opna glufu. Þetta vildum við sum hér fá á hreint við afgreiðslu þjóðaröryggisstefnu á 153. þingi þar sem ég lagði fram þriggja þátta breytingartillögu til að ramma þetta skýrar inn. Allar voru þær tillögur felldar með öllum atkvæðum stjórnarliða. Þannig að mig langar að spyrja hv. þingmann í ljósi þeirrar atkvæðagreiðslu þar sem allur þingflokkur Vinstri grænna felldi allar hugmyndir um að vera með einhver skýrari ákvæði um friðlýsingu fyrir kjarnavopnum: Eru svona frumvörp bara til heimabrúks og þegar á hólminn er komið kýs fólk bara eins og NATO-flokkarnir í samstarfinu segja því að gera?