154. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2024.

fjármögnun varðveislu, björgunar og endurgerðar skipa- og bátaarfsins.

120. mál
[11:32]
Horfa

Flm. (Jódís Skúladóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um fjármögnun varðveislu, björgunar og endurgerðar skipa- og bátaarfsins. Flutningsmenn eru, ásamt þeirri sem hér stendur, hv. þingmenn Orri Páll Jóhannsson, Ásmundur Friðriksson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir og Eyjólfur Ármannsson.

Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að móta framtíðarstefnu um fjármögnun varðveislu, björgunar og endurgerðar skipa- og bátaarfs Íslendinga.“

Mál þetta var áður lagt fram á 153. löggjafarþingi og er lagt fram óbreytt, að undanskildum uppfærslum á helstu tölum vegna styrkveitinga til uppgerðar skipa og báta.

Virðulegi forseti. Verndun og varðveisla skipa og báta er hluti af alþýðumenningu og atvinnusögu Íslendinga. Um er að ræða gríðarlegt magn ómetanlegra menningarverðmæta úr sjávarútvegi og sjósókn Íslendinga frá landnámi og allt fram á 20. öld. Markmið þessarar tillögu er að komið verði reiðu á varðveislu og björgun þessa menningararfs. Fjöldi þingmannamála og fyrirspurna síðustu ár bendir til þess að áhugi sé á málaflokknum enda um fágætar menningarminjar að ræða sem víða liggja undir skemmdum en fjölda þeirra hefur þegar verið fargað.

Lögum samkvæmt teljast skip og bátar frá því fyrir 1950 til forngripa. Þá teljast skipsflök og hlutar þeirra til fornleifa. Sömuleiðis hefur fornminjasjóður heimild til að veita styrki til viðhalds annarra menningarminja sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi, t.d. minja sem njóta ekki friðunar á grundvelli aldurs en teljast hafa varðveislugildi, svo sem skipa, báta og annarra samgöngutækja. Þrátt fyrir gildandi lög hefur verið óljóst hver ber ábyrgð á varðveislu þessa menningararfs. Lítið af fjármunum hefur runnið til verkefna sem varða varðveislu og uppgerð gamalla skipa og báta. Aðeins um eitt til þrjú verkefni árlega hafa hlotið styrki úr fornminjasjóði sem skipa- og bátaarfurinn heyrir undir. Úthlutunarfjárhæðir til slíkra verkefna hafa verið rúm 4% af heildarúthlutunum hvers árs. Enn fremur hefur ekki tekist að koma á fyrirkomulagi sem tryggir vernd þeirra og björgun. Viðhald og björgun bátaarfsins hefur af þeim sökum verið í höndum einstaklinga og áhugasamtaka. Þá hefur borið á því að einstaka verkefni hljóti styrki fyrir tilstilli slíkra félaga og ötullar baráttu einstaklinga í þágu þeirra. Nýlegt dæmi um slíkt eru fjármunir sem úthlutað var vegna uppgerðar Maríu Júlíu, fyrsta varð- og hafrannsóknaskips Íslendinga. Sömuleiðis má benda á að eini kútterinn sem ber nafn með rentu, kútter Sigurfari, ber helst merki þeirrar stöðu sem uppi er í málaflokknum en fátt annað kemur til álita en að farga þessu fornfræga flaggskipi endurgerðar á Íslandi. Í Færeyjum eru þrjú skip á pari við kútter Sigurfara uppgerð og á floti og það fjórða í endurgerð. Í samanburði sést að við, fiskveiðiþjóðin Ísland, verðum að bera meiri virðingu fyrir þessum menningararfi og hlúa að honum svo sómi sé að.

Dæmi um starf í þágu þessa mikla menningararfs er fornbátaskrá Sambands íslenskra sjóminjasafna. Þar er að finna skilmerkilega skráningu rúmlega 190 fornbáta ásamt leiðarvísi um mat á varðveislugildi þeirra. Vert að taka fram að fornbátaskrá nær eingöngu til báta í eigu safna, setra og sýninga, sem og skipa á skipaskrá sem eru smíðuð fyrir 1950, en talsverður fjöldi skipa og báta var ekki skráður. Á það til að mynda við um súðbyrðinga og önnur minni fley í eigu einstaklinga og áhugafélaga. Æskilegt væri að gera sambærilega úttekt vegna menningarminja sem sæta slíku eignarhaldi.

Skemmst er frá því að segja að árið 2021 komst handverk sem notað er við gerð súðbyrðinga á heimsminjaskrá UNESCO um óáþreifanlegan menningararf mannkyns. Bæði bátasmíði og handverk eru talin í hættu, en bæði hefur bátum fækkað og handverksmönnum. Súðbyrðingar eru norræn gerð báta sem nýttir hafa verið til sjósóknar á Norðurlöndum í rúm 2.000 ár. Viðurkenning UNESCO er þýðingarmikil og minnir á að menningararf beri að varðveita fyrir ókomnar kynslóðir. Ábyrgð okkar sem þjóðar er því ekki aðeins gagnvart eigin sögu og komandi kynslóðum heldur heimsbyggðinni allri. Undir þetta hafa íslensk stjórnvöld skrifað og knýr það enn frekar á um að mótuð verði og fjármögnuð framtíðarstefna fyrir málaflokkinn.

Í greinargerð þessarar tillögu er að finna ítarlegar upplýsingar um fjármögnun varðveislu og endurgerðar skipa og báta á Norðurlöndunum og hvet ég öll til að kynna sér það sem þar stendur, en margt er sammerkt með menningararfi Íslands og annarra Norðurlanda og margt hægt að læra af ólíku fyrirkomulagi fjármögnunar varðveislu, björgunar og endurgerðar skipa- og bátaarfs nágrannalanda okkar.

Virðulegi forseti. Saga okkar skipar mikilvægan sess í sjálfsmynd þjóðarinnar. Skip og bátar sem minna á atvinnusögu og alþýðumenningu eru menningararfur sem er allt að því áþreifanlegur enn þann dag í dag, enda samofin samtímasögu okkar. Það er mat þeirra sem standa að þessari tillögu að mikil tækifæri felist í vernd þeirra minja sem um ræðir. Skip og bátar geta öðlast nýtt hlutverk í samstarfi opinberra aðila og einkaaðila og geta prýtt söfn og hafnir og orðið að eftirsóknarverðum áfangastöðum um land allt. Þau geta nýst í ferðaþjónustu, til rannsókna og til að viðhalda þekkingu á handverki, ekki ólíkt því sem við á um uppgerð húsa. Það er ljóst að vandinn er uppsafnaður og margar árangurslausar tilraunir hafa verið gerðar á síðustu áratugum til þess að koma skipulagi á þessar menningarminjar. Mikilvægt er að komið verði á fyrirkomulagi sem tryggir að hið opinbera uppfylli lögbundnar skyldur sínar um verndun þessa mikilvæga menningararfs. Á meðan ekki kemur til skýr stefnumörkun, heildarsýn og raunhæf markmið stjórnvalda til björgunar á menningararfinum er voðinn vís. Mikilvægt er að hið opinbera stígi inn af ábyrgð og myndarbrag. Með því að fela ríkisstjórn Íslands að móta framtíðarstefnu um fjármögnun varðveislu, björgunar og endurgerðar skipa- og bátaarfsins er fyrsta skrefið stigið í átt að því að koma á fyrirkomulagi sem skipar mikilvægum menningararfi sinn sess.