154. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2024.

uppbygging klasa opinberra fyrirtækja og stofnana.

133. mál
[11:49]
Horfa

Flm. (Ágúst Bjarni Garðarsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og innleggið í þessa umræðu. Ég tek undir það sem hv. þingmaður nefnir að það má alveg sjá fyrir sér einhvers konar hvata. En það sem ég kannski á við og er að reyna að ná fram hér er að það er svigrúm til að fara betur með fjármuni, við sjáum það á öllum tölum. Ég hefði kannski átt að nefna það í framsögu minni að ég var með fyrirspurn til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um útboð á leiguhúsnæði síðastliðin tíu ár. Þar kemur einfaldlega í ljós að tilboðum þeirra aðila sem hafa verið að bjóða lægst er ekki alltaf tekið, og oft af mjög óljósum ástæðum. Ég leyfi mér að fullyrða að vegna þess sé ríkið að sóa tugum milljóna á mánuði og milljörðum yfir samningstímann, sem væru fjármunir sem væri hægt að nýta í aðra og annars konar innviðauppbyggingu.