154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

skyldutryggingar lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

880. mál
[11:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Frumvarpið felur í sér tillögur um rýmkun á heimildum lífeyrissjóða til fjárfestinga í leigufélögum. Í því er lagt til að kveðið verði á um sérstaka heimild fyrir lífeyrissjóði til að binda allt að 5% heildareigna í hlutabréfum og skuldabréfum sem ekki eru skráð á skipulegum verðbréfamarkaði, útgefnum af félögum sem hafa þá meginstarfsemi að leigja út íbúðarhúsnæði til einstaklinga til langs tíma. Jafnframt er í frumvarpinu að finna tillögu um að hverjum og einum lífeyrissjóði verði heimilað að eiga stærri hlut en 20% í hverju leigufélagi, eins og verið hefur, sem hefur það að meginstarfsemi að leigja út íbúðarhúsnæði til langs tíma til einstaklinga. Þó er gert að skilyrði að hlutur lífeyrissjóðs megi ekki vera stærri en 50% í slíku félagi.

Gildandi heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í fjármálagerningum sem ekki eru skráðir á skipulagðan markað nemur allt að 20% af heildareignum sjóða. Þar undir fellur heimild lífeyrissjóða til fjárfestingar í leiguhúsnæði. Slík fjárfesting flokkast því í sama flokk og aðrar óskráðar fjárfestingar sjóðanna. Mikill eðlismunur er þó á fjárfestingum í leigufélögum, sem hafa að veði fasteignir og búa við nokkuð stöðugt sjóðstreymi, og fjárfestingum í t.d. nýsköpunarfyrirtækjum sem hafa mikla möguleika á ávöxtun en eru um leið áhættusamari fjárfesting. Því má segja að fjárfestingar í óskráðum leigufélögum séu í eins konar samkeppni við ýmsa aðra fjárfestingarkosti lífeyrissjóða sem ekki eru skráðir á skipulegan markað, sem dregur úr líkum á að lífeyrissjóðir velji þær.

Verði frumvarpið að lögum mun það leiða til þess að lífeyrissjóðum verður gert auðveldara að koma að fjárfestingum í leigufélögum. Lengi hefur verið talað um skort á leiguhúsnæði á Íslandi og skort á öðrum valmöguleikum til búsetu en kaupum á eigin íbúðarhúsnæði. Auk þess hefur fremur lítil sérhæfing verið á leigumarkaði þar sem algengast er að einstaklingar leigi öðrum einstaklingum íbúðarhúsnæði. Tillögur frumvarpsins eru því til þess fallnar að auka sérhæfingu með stórum leigufélögum sem og að auka framboð íbúðarhúsnæðis almennt og halda þannig aftur af verðhækkunum á fasteignamarkaði.

Virðulegi forseti Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umræðu að lokinni þessari umræðu.