154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

skyldutryggingar lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

880. mál
[11:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi síðustu hugleiðingar þingmannsins finnst mér það ekki ráðlegt. Lífeyrissjóðirnir eru gríðarlega stór og sterkur aðili á íslenskum markaði og eru auðvitað, eins og hv. þingmaður nefnir, fyrst og fremst til þess ætlaðir að tryggja okkur öllum sem búum í þessu samfélagi lífeyri þegar við hættum að vinna eða þurfum á aðstoð að halda. Þeir hafa gegnt því hlutverki sínu ágætlega og lífeyrissjóðskerfið staðið sig vel. Hér er einfaldlega verið að bæta möguleika lífeyrissjóðanna til þess, hér er verið að gera þeim kleift að taka með ríkari hætti, eins og við þekkjum í nágrannaríkjum okkar, þátt í því mikilvæga hlutverki, kannski því mikilvægasta, að koma upp öruggu húsnæði fyrir alla íbúa landsins, að geta tekið þátt í því með virkari hætti en ella. Það er kannski hinn ávinningurinn af þessu frumvarpi að hér getur orðið aukning í uppbyggingu á íbúðarhúsnæði til langtímaleigu á viðráðanlegum kjörum.