154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:04]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni, það er eðlilegt, mikilvægt og nauðsynlegt að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, og þar með talið viðaukann. Það er enda eitt af þeim verkefnum sem eru í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og líka í nýsamþykktri landsáætlun um málefni fatlaðs fólks. Þessi verkefni eru því í gangi.

Aðeins frekar varðandi Múlalund: Vinnumálastofnun hefur verið í samtölum við fólkið til að greina styrkleika þess og áhugasvið og hjálpa því út frá því að finna vinnu. Ég held að það sé jákvætt að við séum að hjálpa fólki út á vinnumarkaðinn. Það verður samt alltaf að vera einhver staður sem grípur fólk ef það á ekki við það að vera úti á vinnumarkaði og til þess eru auðvitað líka aðrar hæfingarstöðvar. En Vinnumálastofnun hefur ekki útilokað að halda áfram stuðningi við Múlalund í breyttri mynd ef hægt er að þróa eitthvað sem gæti hentað.