154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:16]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir svarið. Ef við erum ekki að horfa til þess að búa til slíka kjarna utan um fólk sem hefur fengið landvistarleyfi er þá ekki, þegar slíkur kjarni er búinn til, verið að byrja á öfugum enda, eins og þetta er þarna? Þarna er verið að troða fólki inn í sveitarfélag, vil ég segja, án samráðs við sveitarfélagið sjálft af því að þar var laust húsnæði. Og svo af því að það eru komnir svo margir inn í sveitarfélagið þá er bara búinn til svona kjarni eins og er í Offiseraklúbbnum og farið að þjónusta fólkið. Ég skil og vil að við hugsum vel um fólk á flótta en mér finnst einhvern veginn að það sé verið að byrja á öfugum enda. Það er verið að setja sveitarfélag í þannig stöðu að það getur ekki annað en brugðist við og sagt já við því að fara að þjónusta fólkið sem er komið, en það er verið að byrja á vitlausum enda.