154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:56]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Það eru mörg verkefni sem við stöndum frammi fyrir í mennta- og barnamálaráðuneytinu, verkefni sem varða samfélagið allt og farsæld okkar allra til framtíðar. Mörg þessara verkefna eru komin vel á veg, þau verkefni sem lagt var upp með í stjórnarsáttmála, og við erum í mikilli sókn í verkefnum er varða til að mynda íþróttir og æskulýðsstarf, en ekki síst er það mitt markmið að við náum árangri í því að styrkja grunnstoðir samfélagsins, efla íslenskt menntakerfi, gæði menntunar og farsæld allra barna á Íslandi. Til að ná árangri í þeim verkefnum þarf vissulega í einhverjum tilfellum aukið fjármagn og ég yrði seinastur hér til að segja að það væri komið nóg af fjármagni í málefni menntunar og barna. Við þurfum ekki síst aukið fjármagn þegar um er að ræða framkvæmdir og fjárfestingar en líka góða nýtingu þess fjármagns sem til staðar er, þvert á kerfi og þvert á stjórnsýslustig.

Ráðuneyti mennta- og barnamála ber ábyrgð á ráðstöfunum 290 milljarða á tímabili fjármálaáætlunarinnar og tilheyra þeir málefnasviði 20 að hluta og málefnasviðum 18, 22 og 29 í fjármálaáætlun. Heildarfjárheimild fyrir árið 2025 er áætluð 58,6 milljarðar. Starfsemi mennta- og barnamálaráðuneytisins eins og annarra ráðuneyta mótast í fjármálaáætlun til næstu ára af þeim áhrifum sem verðbólga og efnahagsmál hafa, eins og gengur og gerist.

Ég vil koma aðeins inn á framhaldsskóla og byrja á þeim, en þeir eru langstærsti málaflokkurinn fjárhagslega séð í ráðuneyti mennta- og barnamála. Þar er gert ráð fyrir að útgjaldarammi málefnasviðsins hækki um 588 milljónir frá fjárlögum 2024–2029. Helstu breytingar til hækkunar felast í 600 millj. kr. aukningu vegna framkvæmda við starfsmenntaskóla á tímabilinu 2025–2026 en einnig er til staðar uppsöfnuð fjárheimild sem nýtt verður til áframhaldandi uppbyggingar.

Við höfum sett fram tímasetta forgangsröðun um að byggja við starfsmenntaskóla á Íslandi. Fyrir liggur samkomulag um kostnaðarskiptingu milli ríkis og viðkomandi sveitarfélaga að ráðast í stækkun Fjölbrautaskólans í Breiðholti, Menntaskólans á Ísafirði og Fjölbrautaskóla Suðurnesja, ásamt Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Þá er líka gert ráð fyrir að hækka framlag til vinnustaðanámssjóðs um 450 milljónir á tímabilinu 2025–2027. Einnig er gert ráð fyrir 470 millj. kr. auknu framlagi vegna fjölgunar nema í starfs- og verknámi og 400 millj. kr. til eflingar framhaldsskólakerfinu almennt, en auk þess verður gerð mikilvæg breyting á úthlutun fjármuna til málefnasviðsins. Ekki verður bara horft til fjölda nemenda heldur einnig þjónustuþarfa þeirra við úthlutun fjármagns.

Fyrir framlagningu fjárlaga 2025 til Alþingis er gert ráð fyrir því, sem er nýbreytni, að fjármála- og efnahagsráðuneytið og mennta- og barnamálaráðuneytið muni saman vinna að greiningu á breyttum náms- og þjónustuþörfum nemenda á framhaldsskólastigi. Jafnframt verður gert ráð fyrir auknum stuðningi nýrrar stofnunar menntunar og skólaþjónustu við framhaldsskólakerfið almennt. Þannig verður hægt að nýta fjármagn betur og mæta auknum fjölbreytileika í skólakerfinu. Gert er ráð fyrir að við undirbúning fjárlaga fyrir árið 2025 verði greiningu á fyrsta áfanga nýs reiknilíkans til málaflokks 20.10 lokið. Helstu breytingar til lækkunar útgjaldaramma á tímabilinu felast í almennri aðhaldskröfu að fjárhæð 286 milljónir og niðurfellingu á tímabundnum framlögum til ýmissa verkefna sem nema 142 milljónum.

Því næst langar mig að fjalla aðeins um inngildingu og menntakerfið. Inngilding, jöfnuður og virkni einstaklinga er algjör lykill að árangri og ekki síst í fjölbreyttu samfélagi. Þetta á sérstaklega við um börn og þær aðstæður sem þau búa við í æsku og skapa grunn þeirra til framtíðar. Menntun, gæði hennar og stuðningur í skólakerfinu, þá ekki síst jöfn tækifæri allra barna til gæðamenntunar óháð uppruna eða annarra aðstæðna er lykill að farsæld þeirra sem og samfélagsins alls til frambúðar.

Í stefnumótun málefnasviða 2025–2029 á bls. 195 stendur í umfjöllun um málefnasvið 34, Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir, með leyfi forseta:

„Þá er alls gert ráð fyrir að 2,2 ma.kr. verði varið á fyrstu tveimur árum áætlunarinnar til að fylgja eftir aðgerðum sem ríkisstjórnin sammæltist um í málefnum útlendinga“ — m.a. vegna barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn — „og 3,8 ma.kr. árin 2025–2027 vegna fjármögnunar gjaldfrjálsra skólamáltíða í tengslum við kjarasamninga á almennum markaði. Gert er ráð fyrir að þessar heimildir verði nánar útfærðar í fjárlagafrumvarpi ársins 2025 og færðar á viðeigandi málefnasvið.“

Þetta eru gríðarlega mikilvægar breytingar í þágu barna á Íslandi sem ég vonast til að geta rætt betur hér í þingsal við fyrsta tækifæri ásamt fleiri stórum umbótaverkefnum innan menntakerfisins sem öll þarfnast aukinna fjárútláta, þá sérstaklega inngildinguna, sem varðar mitt ráðuneyti, og þau verkefni sem við sjáum fyrir okkur að ráðast í þar.

Vegna þess að tíminn er ekki langur hér í upphafi langar mig aðeins, virðulegi forseti, að fjalla um íþróttir, m.a. mannvirki fyrir afreksíþróttirnar okkar. Laugardalshöll hefur þjónað vel íslenskri þjóð en uppfyllir ekki þær kröfur sem gerðar eru til alþjóðakeppni í dag. Því er mjög ánægjulegt að í fjármálaáætlun er að finna fjármagn til byggingar nýrrar þjóðarhallar. Hún mun auka samkeppnishæfni bæði borgar og þjóðar á alþjóðavísu. Hjarta íþróttastarfs á Íslandi verður í Laugardalnum og á að vera í Laugardalnum, með stórbættri aðstöðu fyrir alla notendur og almenning og samnýtingu á þeim mannvirkjum sem fyrir eru. Síðan munum við áfram á tímabilinu vinna að undirbúningi þjóðarleikvangs í knattspyrnu og frjálsum íþróttum, en þjóðarhöllin er að fullu fjármögnuð í þessari fjármálaáætlun, þ.e. hluti ríkisins.

Við förum stórhuga inn í nýja áætlun og í beinu samhengi við þennan áfanga má segja að uppbygging afreksíþróttastarfs á Íslandi sé orðin mjög brýn og stendur vilji ríkisstjórnarinnar til að bæta verulega úr þeirri stöðu. Í greinargerð málefnasviðs íþrótta í þeim drögum fjármálaáætlunar sem liggja fyrir er einmitt gerð grein fyrir fyrirætlunum er þetta varðar. En ekki þarf einungis að huga að afreksstarfi heldur almennri eflingu starfsemi íþróttasambanda og íþróttafélaga með það fyrir augum að styðja við íþróttaiðkun allra aldurshópa sem og heilsueflingu landsmanna. Stutt verður sérstaklega við þátttöku fatlaðra barna og ungmenna með annað móðurmál en íslensku í íþrótta- og æskulýðsstarfi og svigrúm er til þess. Þátttaka í slíku starfi styður aðlögun fjölskyldunnar í heild og dregur úr líkum á einangrun. Sérstök áhersla hefur verið sett á þetta í samskiptum stjórnvalda við íþrótta- og æskulýðshreyfinguna, m.a. með stuðningi við endurskipulagningu svæðaskiptingar íþróttahreyfingarinnar sem felur í sér meiri faglegan stuðning við íþróttafélög um allt land, með sérstakri áherslu á börn með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn annars vegar og börn með fatlanir hins vegar.

Virðulegi forseti. Ég gæti talað lengur og farið yfir fleiri mál en því miður er tíminn uppurinn. Ég vænti þess að geta átt góð samskipti við fjárlaganefnd í framhaldinu og við þingmenn í andsvörum og umræðum um þetta mál næstu klukkustund.