154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:16]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni um samræmda matsferla og vinnan við þá stendur yfir. Þau verkefni sem ég nefndi hér áðan krefjast þess öll að í þau sé settur mannafli. Námsgagnaútgáfa, vinna við matsferil og innleiðing hans; allt krefst þetta vinnu vegna þess að við höfum heldur ekki verið mjög góð í að innleiða hluti og fylgja þeim eftir. Ég hvet þingheim til að skoða og rýna það fjármagn sem fer inn á það málefnasvið sem þetta heyrir undir vegna þess að þar er nú engin ofgnótt af peningum. Ég segi það sem ég sagði áður í upphafi minnar ræðu, að ég verð seinastur manna til að segja að við séum búin að setja nóg fjármagn í þessi mál. Við eigum að nýta það fjármagn betur sem við erum með, en það er þannig að við höfum ekki verið að setja mikið í námsgögn. Við höfum ekki verið að fjárfesta í þessu og það held ég að sé eitthvað sem við þurfum líka að ræða, að vegalengdin er dálítið löng héðan úr ræðustól Alþingis eða ráðuneytinu niður í hverja einustu skólastofu og það kostar fjármuni að komast þangað.