154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[15:03]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Þetta hafa verið nokkuð áhugaverð andsvör, svo að ekki sé meira sagt. Það skiptir þó mestu máli að þau gera það algerlega kristaltært hvar hæstv. ráðherra stendur í málinu. Hún sagðist nefnilega styðja auðlindaákvæðið eins og það birtist frá fyrrverandi forsætisráðherra fyrir einu eða tveimur árum síðan. Þar var nefnilega ekkert kveðið á um tímabindingu og það var m.a. þess vegna sem Samfylkingin og fleiri stjórnarandstöðuflokkar voru ekki tilbúnir til að styðja það. Þá liggur bara fyrir það sem við tökumst á um, þ.e. hvort við ætlum að veita leyfi fyrir afnot af dýrmætri auðlind til ákveðins tíma eða afhenda þetta meira eða minna ótímabundið um alla ævi með möguleika á því að leyfishafar sem fá þetta núna, ef frumvarpið verður samþykkt, breytt úr 16 árum yfir í ótímabundið, geti braskað með þetta um aldur og ævi. Stór hluti af þeim aðilum eru norsk fyrirtæki.

Málið sem við ræðum hérna er risastórt á svo margan hátt. Í fyrsta lagi er þetta mikilvæg atvinnugrein og það hefur sýnt sig að hún hefur styrkt byggðir mjög víða um land. Þetta getur orðið gríðarlega mikilvægt framlag líka til matvælaframleiðslu heimsins. Ég ætla ekki að neita því. Í öðru lagi þarf að búa þannig um hnútana að þetta stefni ekki vistkerfi eða umhverfi okkar í voða vegna þess að þá er auðvitað betur heima setið en af stað farið. Í þriðja lagi snýst þetta um með hvaða hætti við ætlum að ganga um okkar náttúruauðlindir.

Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að það er ýmislegt við þetta frumvarp að athuga. Það er hins vegar gríðarlega stórt og mikið og þarf mikla umræðu í nefnd. Ég ætla þess vegna ekki að nýta minn tíma í annað heldur en bara þetta prinsipp sem hér hefur mest verið til umræðu. Það er sem sagt 33. gr. frumvarpsins sem kveður á um að rekstrarleyfi sjókvíaeldis verði ótímabundin. Þá er í frumvarpinu bráðabirgðaákvæði sem kveður á um að öll rekstrarleyfi samkvæmt núgildandi lögum um fiskeldi, sem eru í gildi við gildistöku laganna ef af verður, skuli breytast í ótímabundin leyfi við gildistökuna. Þannig að 80% af öllu burðarþoli sjókvíaeldis sem er væntanlega búið að veita leyfi fyrir fá þetta núna sem svona sumarbónus án þess að hafa greitt nokkuð fyrir þessi leyfi.

Í 30. gr. frumvarpsins, sem er að mestu leyti samhljóða 10. gr., hefur ákvæði um endurskoðun rekstrarleyfis verið fellt úr gildi í ljósi þeirra breytinga sem felast í því að ótímabinda leyfi til eldis. Nú átta ég mig alveg á því sem hér hefur komið fram, að núgildandi löggjöf þykir eitthvað á reiki varðandi leyfi til sjókvíaeldis, hvort þau séu tímabundin eða ótímabundin. Þetta er vissulega eitt af þeim atriðum sem Ríkisendurskoðun tók fram í skýrslu og það er bara mjög mikilvægt að skýra þetta. En ég gef ekkert fyrir það að ekki sé hægt að búa þannig um hnútana að heimilt sé að grípa inn varðandi tímabundnar heimildir, alveg eins og ótímabundnar heimildir. Við sem höfum fylgst með fiskveiðistjórnarumræðunni í öll þessi ár höfum náttúrlega heyrt þennan söng og lögfræðiálit og ýmislegt sem segir að í kerfi ótímabundinna heimilda þar sem aðilar eru búnir að starfa í mörg ár og fjárfesta gríðarlega þá hafi þeir réttmætar væntingar um að það sé ekki bara klippt á strax. Þannig að það mun engu breyta, hæstv. ráðherra.

Ég átta mig ekki alveg á því hvað hefur gerst hér, hvaða sinnaskipti hafa orðið og hvers vegna í ósköpunum er verið að leggja til að festa í lög ótímabindingu rekstrarleyfa í sjókvíaeldi. Ef eldri löggjöf var óskýr, eins og ég nefndi áðan, þá er það bara ágætistækifæri til að skýra það, skýra réttarstöðu rekstrarleyfishafa, skýra réttarstöðu þjóðarinnar og gera það bara kristaltært að þessi rekstrarleyfi eru ótímabundin og að það verði afleiðingar ef fyrirtæki fara illa með þessa mikilvægu en mjög viðkvæmu atvinnugrein. Það hlýtur að vera hægt að taka af öll tvímæli um möguleika stjórnvalda til að afturkalla leyfi, ef leyfishafar fara ekki að lögum og brjóta gróflega af sér, og endurskoða allar forsendur leyfisveitinga á nokkurra ára fresti. Það hlýtur bara að vera.

Það er nefnilega ekki þannig að þessi ótímabinding rekstrarleyfa veiti sjálfkrafa skilyrði fyrir skýrari heimildum til afturköllunar. Ég hefði haldið að það væri þvert á móti reyndar. Þessi aðferð sem er verið að nota hérna, að afhenda núverandi rekstraraðilum rekstrarleyfi til framtíðar, er líka sérstaklega aðfinnsluverð þar sem það kemur ekkert gjald í staðinn. Ég held að við hefðum átt að bera gæfu til þess að horfa til nágranna okkar, horfa t.d. til Noregs sem eru búnir að brenna sig á sínum fyrstu árum og hafa verið að laga þessa hluti til. Þar eru tekin umtalsverð gjöld fyrir leyfin og þar er líka tekið miklu meira af auðlindarentunni heldur en sú gjaldtaka sem hér er fyrirhuguð. Mig minnir að það sé 25% þar.

Nú verður þessum sömu fyrirtækjum heimilt að framselja rekstrarleyfi. Jú, vissulega kannski innan fjarða en það breytir því ekki að um er að ræða verulega auðlind sem væri náttúrlega miklu eðlilegra að þjóðin nyti. Förum þá aftur til Norðmanna vegna þess að þar hefur á nokkrum áratugum, kannski alveg frá því að olíuvinnsla hófst, mótast sú sameiginlega sýn allra aðila í samfélaginu, hvort sem það er launþegahreyfingin, atvinnurekendur eða almenningur, að sameiginlegar auðlindir í eigu þjóðarinnar eigi að renna sterkari stoðum undir velferðarkerfið og okkar sameiginlegu hagsmunamál. Hér er ekki einu sinni imprað á slíku. Hér er beinlínis verið að gefa einkafyrirtækjum verðmæti íslensku þjóðarinnar. Maður hélt satt að segja, herra forseti, að það væri nú komið nóg af slíku. Það kæmi mér mjög á óvart ef það væri sátt hjá miklum meiri hluta þjóðarinnar við það sem hér er áformað.

Í þessum ótímabundnu rekstrarleyfum felast, má segja, óbein eignarréttindi í íslenskum fjörðum sem verða eingöngu afturkölluð ef það er mjög gróft brot gegn lögum. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig engan veginn á því á hvaða vegferð flokkurinn Vinstri græn er. Þau hafa um árabil, a.m.k. þann tíma sem ég hef setið hér, haldið miklar og langar ræður og barist gegn jarðakaupum útlendinga á Íslandi og haft miklar áhyggjur af því þegar erlendir aðilar hafa verið að viða að sér og kaupa jarðir. En að afhenda erlendum aðilum kannski miklu verðmætari, a.m.k. jafn verðmæta hluti rétt utan fjöru, það er ekkert tiltökumál. Mér er eiginlega bara orða vant.

Hæstv. ráðherra vísaði ítrekað í að atvinnuveganefnd gæti bara tekið málið og breytt því ef hún fyndi einhverjar aðrar og betri leiðir til að fara. Mér finnst þetta nú dálítið metnaðarlaust af ríkisstjórn í svona miklu grundvallarmáli. Ríkisstjórnin hlýtur að leggja fram mál eins og þetta að mjög yfirveguðu máli og berjast auðvitað með kjafti og klóm. Þetta snýst um prinsippið: Ætlum við að veita fyrirtækjum heimildir til tímabundinna leyfa til nokkuð langs tíma, enda eru miklar fjárfestingar og það er dýrt og það þarf að vera fyrirsjáanleiki? Ég skil það allt. En hins vegar ótímabundnar um aldur og ævi væntanlega.

Þess vegna stöndum við, herra forseti, frammi fyrir grafalvarlegum hlut og ef ekki stærsta máli þingvetrarins og kjörtímabilsins þá a.m.k. einu af því stærsta. Ég geri mér alveg grein fyrir því eins og hefur verið marghamrað hér á, ekki síst af hæstv. forsætisráðherra, að þessi ríkisstjórn hefur formlega verið kosin til fjögurra ára og ég virði það. Við því er ekkert að gera ef þau vilja skakklappast þetta áfram. Hins vegar getur bara vel verið að þegar við stöndum andspænis svona grundvallarhlutum eins og hér er um að ræða þá geti það verið hollt öllum að sýna örlitla auðmýkt, ekki síst þegar á að afhenda auðlindir á lokametrum ríkisstjórnar sem er rúin trausti, sem mælist við alkul í stuðningi meðal þjóðarinnar. Þannig að í öllum skilningi er þetta algjört risamál.

Við í stjórnarandstöðunni munum alveg örugglega gera allt sem við getum til að breyta þessu atriði frumvarpsins úr ótímabindingu í tímabindingu, finna leiðir til að það uppfylli þær kröfur sem Ríkisendurskoðun benti á. Við í Samfylkingunni a.m.k. munum líka vinna málefnalega að því að bæta og breyta því sem þarf í frumvarpinu til að það nái þeim árangri sem til er ætlast. Ég tek undir með hæstv. ráðherra, það er mjög mikilvægt að vanda þessa lagaumgjörð, en ég á algjörlega eftir að sjá það að almenningur í landinu, þegar það rennur upp fyrir honum hvað er í bígerð, hvað er að gerast, muni sætta sig við þetta.