154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[15:29]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætt að það komi fram og það er þá hvatning til hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar að hækka veiðileyfagjöld á þann hluta útgerðarinnar sem getur sannarlega staðið undir því. Við höfum auðvitað séð hvernig ofgnótt af peningum þar hefur orðið til þess að það þarf að koma þessu annaðhvort í umferð með því að kaupa pítsustaði, olíufélög, dagvöruverslanir eða hvað sem er. Allt það er svo mjög merkileg umræða og mikilvæg og hefur áhrif á það hvernig völd breytast í samfélaginu og hver það eru sem á endanum ráða í samfélögum. Við Íslendingar höfum ofgnótt af orðatiltækjum og málsháttum og oft gagnast þau. Í þessu tiltekna máli þá er hægt að nota sporin hræða. Maður vill þá spyrja hæstv. ráðherra, þótt hann hafi auðvitað komið í andsvar við mig: Hvaða önnur sjónarmið lágu þá til grundvallar þess að það þótti nauðsynlegt, bara fyrir nokkrum misserum síðan, að tímabinda þessar heimildir? Jú, vissulega hefur komið fram þessi athugasemd frá Ríkisendurskoðun en fyrr skal ég dauður liggja en að ég sætti mig við það að ekki sé hægt að útfæra hlutina með þeim hætti að það sé hægt að skýra það sem Ríkisendurskoðun þykir óskýrt.