154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[15:54]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Það er margt í þessu og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir sitt „innpútt“ í þessa umræðu. Upplifun mín er að það sé verið að horfa á þetta einhvern veginn algerlega skakkt. Það er frekar verið að skoða leiðir þar sem við getum leyft þessum iðnaði, sem er mengandi iðnaður — köllum hann bara það sem hann er, hann mengar firðina, það er bara þannig. Þetta skapar hættu fyrir villta laxastofninn. Þetta mengar firðina okkar. Þetta hefur óafturkræf áhrif á vistkerfið, á líffræðilegan fjölbreytileika og annað. Það er það sem við erum að tala hérna um.

Það er verið að skoða allar leiðir til þess að gera þessum iðnaði kleift að halda áfram að starfa og græða pening en hann mun samt alltaf halda áfram að menga. Mér finnst það einhvern veginn vera viðurkennt og vitað. Ráðherra tekur ekkert fyrir það. Það verður áfram þannig. Mér finnst áhættan sem við erum að taka allt of mikil til að réttlæta það. Mér finnst að við eigum að horfa á það hvernig við verndum raunverulega vistkerfin, fjölbreytileika og náttúruperlur Íslands miklu frekar en að horfa á hvernig við getum nýtt þetta til þess að græða eins mikinn pening og við mögulega getum. Þannig að mér finnst við vera að horfa á þetta öfugt.

Mig langar til að nýta tækifærið núna fyrst hæstv. ráðherra kom í andsvör við mig og langar til að spyrja hana: Hvað gerðist? Þegar málið fór til ríkisstjórnarinnar þá voru það alveg, ég man ekki hvort það voru tveir eða þrír dagar. Hvaðan komu þessar breytingar, sérstaklega um ótímabundin leyfi? Var þetta eitthvað sem þingflokkur hæstv. ráðherra ákvað eða kemur þetta úr einhverjum öðrum þingflokki í ríkisstjórninni? Hvaða breytingar urðu? Og nú er ég ekki að tala um samráðsgáttina, það er eitt, breytingar sem verða í samráðsgáttinni. (Forseti hringir.) Hvaða breytingar urðu innan ríkisstjórnarflokkanna til að ná sátt um að þetta mál kæmi til þingsins? (Forseti hringir.) Það væri fróðlegt að vita og held ég að það sé bara eitthvað sem við og almenningur eigum heimtingu á að fá svör við.