154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

aðgerðir gegn peningaþvætti o.fl.

927. mál
[16:29]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018 og lögum um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða, nr. 68/2023. Með frumvarpinu er leitast við að uppfylla þær alþjóðlegu kröfur sem gerðar eru til varna gegn peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka og gereyðingarvopna.

Ísland undirgekkst alþjóðlegar skuldbindingar um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka með aðild að alþjóðlega fjármálaaðgerðahópnum, betur þekktur sem FATF eða, með leyfi forseta, Financial Action Task Force, árið 1991 en í því fólst skuldbinding um að aðlaga löggjöf og reglur hér á landi að tilmælum FATF. Fjórðu allsherjarúttekt FATF á Íslandi lauk í febrúar 2018. Hún leiddi í ljós ýmsa veikleika á íslenskri löggjöf en frá þeim tíma hefur hefur mikið vatn runnið til sjávar í löggjöf er varðar aðgerðir gegn peningaþvætti, fjármögnunar hryðjuverka og gereyðingarvopna.

Lög nr. 140/2018 telst til grundvallarlöggjafar á sviði aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnunar hryðjuverka en málaflokkurinn teygir sig víða og tengist öðrum mikilvægum lagabálkumm, t.d. löggjöf sem varðar framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna sem nú er að finna í nýjum heildarlögum, nr. 68/2023. Með þeim lögum er m.a. leitast við að hindra fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu og fjármögnun gereyðingarvopna með því að mæla fyrir um frystingu fjármuna í samræmi við ákvarðanir um þvingunaraðgerðir sem ákveðnar eru af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandsins og annarra alþjóðastofnana og ríkjahópa.

Þrátt fyrir að margvíslegar umbætur hafi orðið á lagaumgjörð og regluverki á þessu sviði er baráttan gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka viðvarandi verkefni þar sem nýjar ógnir skjóta stöðugt upp kollinum.

Í frumvarpi þessu eru einkum lagðar til breytingar á núgildandi ákvæðum laganna um áhættumat, umgjörð varna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í starfsemi tilkynningarskyldra aðila og um sektarheimildir stjórnvalda. Loks er í frumvarpinu að finna breytingar á öðrum ákvæðum sem talin var þörf á að bæta úr og komið hafa í ljós við beitingu þeirra.

Breytingar á ákvæðum um áhættumat koma til vegna breyttra tilmæla FATF um að ríki og tilkynningarskyldir aðilar skuli meta áhættu í tengslum við fjármögnun gereyðingarvopna, auk peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka eins og verið hefur. Í einföldu máli felur það í sér að metin sé hætta á mögulegum brotalömum í tengslum við alþjóðlegar þvingunaraðgerðir ásamt leiðum til að draga úr áhættu. Þetta felur í sér viðbætur við ákvæði laga nr. 140/2018, sem heyra undir dómsmálaráðherra, en leiðir einnig til breytinga og nýmæla í lögum um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna, nr. 68/2023, sem heyrir undir utanríkisráðherra. Þess ber að geta að frumvarpið var unnið í góðu samráði við utanríkisráðuneytið.

Breytingar á ákvæðum er varða umgjörð varna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í starfsemi tilkynningarskyldra aðila varðar breytingu á ábyrgðarhlutverkum sem eiga að vera til staðar í starfsemi ákveðinna tilkynningarskyldra aðila og koma til vegna nýlegra viðmiðunarreglna Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar um túlkun og framkvæmd á ákvæðum fjórðu peningaþvættistilskipunar Evrópusambandsins. Í gildandi lögum er sú tilskipun innleidd og miðað við að tilnefna ætti einn aðila til að gegna hlutverki svokallaðs ábyrgðarmanns í starfseminni. Viðmiðunarreglurnar mæla fyrir um að í ákveðnum tilvikum geti verið þörf á að tilnefna regluvörð í starfsemi lána- og fjármálastofnana til að sinna ákveðnum verkefnum í starfseminni. Er breytingunni ætlað að koma því til leiðar svo skýrt sé.

Breytingar á ákvæðum er varða heimildir til beitingar dagsekta og stjórnvaldssekta varða úrræði til að bregðast við þeirri stöðu ef aðilar koma sér undan að veita skrifstofu fjármálagreininga lögreglu, SFL, upplýsingar, sem þeim er skylt að gera í öllum tilvikum. Í lögunum hefur skrifstofa fjármálagreininga viðamikið hlutverk sem felst í stuttu máli að taka á móti og greina allar tilkynningar frá tilkynningarskyldum aðilum. Eftirlitsaðilar, sem eru ríkisskattstjóri og Fjármálaeftirlitið, hafa svo eftirlit með því að þessir aðilar hlíti ákvæðum laganna. Skrifstofa fjármálagreininga lögreglu hefur hins vegar ekki sömu heimildir til að knýja á um afhendingu gagna og eftirlitsaðilarnir þótt hlutverk þessara stofnana sé jafnmikilvægt í baráttunni gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þess vegna er mælt fyrir um að skrifstofa fjármálagreininga lögreglu hafi heimild til að beita dagsektum til að knýja á um afhendingu upplýsinga á sama hátt og eftirlitsaðilar hafa nú þegar. Að sama skapi er bætt við heimild fyrir eftirlitsaðila til að beita stjórnvaldssektum ef aðili afhendir ekki gögn til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu en slík heimild er til staðar nú þegar í sambærilegum tilvikum hvað afhendingu gagna til eftirlitsaðila varðar.

Það er opinber stefna íslenskra stjórnvalda að íslensk löggjöf skuli á hverjum tíma miða að því að fullnægjandi varnir séu til staðar gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og að hún uppfylli þær alþjóðlegu kröfur sem gerðar eru til varna gegn slíkum brotum. Þá skuli tryggt að íslensk löggjöf sé jafnframt í samræmi við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist hvað varðar þvingunaraðgerðir til að bregðast við fjármögnun og útbreiðslu gereyðingarvopna. Er frumvarpinu ætlað að mæta þeim kröfum og að sama skapi gera lagaumgjörðina þannig úr garði að hún nýtist sem stjórntæki sem hafi í för með sér skilvirk úrræði í þessari baráttu.

Að lokum nefni ég að FATF mun hefja fimmtu úttekt sína á vörnum Íslands í málaflokknum á árinu 2025 en þá kemur til skoðunar hvernig tekist hefur til frá síðustu úttekt FATF við inn¬leiðingu breyttra tilmæla í íslenska löggjöf og hversu skilvirkar varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eru í reynd. Er lögfesting þessa frumvarps mikilvægur liður í því að bregðast við breyttum tilmælum FATF og að sama skapi nauðsynlegt skref í átt að auknum vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hér á landi.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum er hvorki gert ráð fyrir því að það hafi í för með sér útgjöld fyrir ríkissjóð né sveitarfélög.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins og legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og 2. umræðu.