154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[17:31]
Horfa

Flm. (Bjarni Jónsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd utanríkismálanefndar fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu 2024–2028 og mun stikla á helstu atriðum.

Allt frá upphafi hinnar ólöglegu innrásar Rússlands í Úkraínu hefur Ísland, líkt og flest önnur vestræn og líkt þenkjandi ríki, veitt Úkraínu dyggan stuðning, jafnt pólitískan sem á sviði mannúðaraðstoðar og efnahagsuppbyggingar og til að treysta öryggi íbúa landsins. Einnig hefur Ísland lagt sitt af mörkum með móttöku flóttafólks frá Úkraínu en heildarfjöldi þess er nú tæplega 4.200 manns og hefur ríkisstjórnin tilkynnt að allt fái flóttafólkið viðbótarvernd til eins árs, eða til loka febrúar 2025.

Með tillögunni sem hér liggur fyrir er mörkuð stefna um öflugan stuðning við Úkraínu til fimm ára. Markmið stefnunnar er að styðja við sjálfstæði, fullveldi, friðhelgi landamæra, öryggi borgara, mannúðaraðstoð og uppbyggingarstarf í Úkraínu og felur hún í sér eftirfarandi fimm áhersluþætti:

1. Öflugt tvíhliða samstarf og samskipti við stjórnvöld, þjóðþing, stofnanir, félagasamtök og atvinnulíf.

2. Virka þátttöku í alþjóðlegu samstarfi og málafylgju sem styðji við örugga, sjálfstæða, fullvalda og lýðræðislega Úkraínu í samræmi við vilja íbúa landsins, auk friðarferlis forseta Úkraínu og ábyrgðarskyldu Rússlands vegna áhrifa stríðsins.

3. Stuðning við varnarbaráttu Úkraínu til að tryggja öryggi borgara og mikilvægra innviða.

4. Mannúðaraðstoð við íbúa Úkraínu og vernd óbreyttra borgara í átökum.

5. Viðhald grunnþjónustu og efnahags Úkraínu meðan á átökum stendur og stuðning við endurreisn og uppbyggingu eftir að þeim lýkur.

Í tillögunni kemur fram að heildarframlög íslenskra stjórnvalda vegna Úkraínu á tímabilinu 2024–2028 skuli taka mið af stuðningi annarra ríkja Norðurlandanna og koma til viðbótar öðrum framlögum til utanríkis-, varnar- og þróunarmála. Til samræmis verði framlög ársins 2024 aukin um 20% miðað við árið 2023. Í tengslum við fjárlög á ári hverju verði tekin ákvörðun um heildarframlög, sem verði að lágmarki þau sömu og árið 2024, og skiptingu þeirra milli málefnasviða samhliða aðgerðaáætlun fyrir komandi ár.

Svona til að draga þetta saman þá hefur á Alþingi ríkt þverpólitísk samstaða um öflugan stuðning við Úkraínu. Var það söguleg stund er forseti Úkraínu ávarpaði Alþingi hinn 6. maí 2022. Alþingi samþykkti síðar einróma þingsályktun, sem flutt var af formönnum allra flokka sem sæti eiga á þingi, um að færa úkraínsku þjóðinni færanlegt neyðarsjúkrahús að gjöf. Þá hefur Alþingi samþykkt þingsályktun þess efnis að lýsa því yfir að hungursneyðin í Úkraínu, Holodomor, sem stóð yfir frá 1932–1933, hafi verið hópmorð. Enn fremur samþykkti Alþingi ályktun um að fordæma ólöglegt og kerfisbundið brottnám úkraínskra barna á hernumdum svæðum rússneska hersins í Úkraínu. Eins er mikilvægt að halda til haga að stofnað var til tjónaskrár fyrir Úkraínu á leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík síðastliðið vor að frumkvæði Íslands.

Virðulegi forseti. Skemmst er frá því að segja að mikill samhljómur var í utanríkismálanefnd um að efla stuðning við Úkraínu og um þá stefnu sem hér er mörkuð fyrir árin 2024–2028. Nefndin leggur áherslu á að á þeim sviðum sem stefnan nær til verði stuðningur Íslands við Úkraínu hlutfallslega sambærilegur að umfangi við það sem önnur ríki Norðurlanda leggja af mörkum. Nefndin undirstrikar að með öflugum stuðningi við sjálfstæði, sjálfsákvörðunarrétt og öryggi Úkraínu ásamt friðarviðleitni á forsendum úkraínsku þjóðarinnar sé jafnframt staðin varðstaða um beina öryggishagsmuni Íslands, alþjóðakerfið og alþjóðalög sem fullveldi Íslands byggist á.

Að framansögðu virtu leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt. Ég vil hér í þessari yfirferð þakka nefndarmönnum fyrir góða vinnu í málinu en undir nefndarálitið rita, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Diljá Mist Einarsdóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Jón Gunnarsson, Katrín Sif Árnadóttir, Logi Einarsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Þá lýsir Gísli Rafn Ólafsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, sig samþykkan álitinu.

Ég vil svona í framhaldi af þessari yfirferð og kynningu á nefndarálitinu ræða málefni Úkraínu sérstaklega frá eigin brjósti. Eins og nefndin gerir hér skilmerkilega grein fyrir þá höfum við frá upphafi staðið þétt og sameinuð að baki úkraínsku þjóðinni og stutt hana með margvíslegum hætti. Af því að við erum hér á Alþingi Íslendinga vil ég sérstaklega draga fram það frumkvæði sem þingið hefur haft, og raunar bara þjóðþing líka í Evrópu, um að styðja við bakið á úkraínsku þjóðinni. Það höfum við gert hér í þinginu, eins og með samþykkt á tillögu um Holodomor og brottnám úkraínskra barna. Við vorum fyrst þjóða í Evrópu til að gera slíkt og aðrar þjóðir hafa síðan fylgt okkar fordæmi, Eistar núna síðast í febrúar og Lettar í nóvember og vonandi fleiri á leiðinni sem eru að athuga það. Þetta er eitthvað sem þau kunna sannarlega að meta.

Hér á leiðtogafundinum var tvísýnt um það um tíma hversu langt yrði gengið í því að bakka Úkraínu upp með bindandi hætti af hálfu þjóðarleiðtoga sem þar komu saman en með þrotlausri vinnu og fyrir frumkvæði og forystu Íslands var því komið til leiðar að tjónaskráin var samþykkt. Það er gríðarlega mikilvægt skref fyrir Úkraínu og líka fyrir eftirleikinn þegar þessum hryllingi fer kannski að ljúka, að taka á stríðsglæpunum sem hafa verið framdir og skapa grunn til að geta bætt þá með einhverjum hætti og byrja nú þegar að skrá glæpina og öll þessi hryllilegu mál sem eru að koma upp þannig að það sé meira í rauntíma verið að afla sönnunargagna sem nýtast í dómsmálum síðar meir.

Þá vil ég líka taka til þeirra þingmanna hér sem hafa staðið í alþjóðastarfi fyrir hönd Alþingis. Hvar sem við höfum verið höfum við beitt okkur, á öllum þeim vettvangi þar sem við eigum sæti, í þágu úkraínsku þjóðarinnar og þeim til stuðnings. Ég hef starfað í Evrópuráðsþinginu ásamt hv. þingmönnum Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur og Birgi Þórarinssyni og þar höfum við sannarlega staðið þá vakt líka og fylgt því eftir. Hvar sem við höfum verið, þingmenn Alþingis Íslendinga, einnig á fundum með erlendum ráðamönnum og kollegum okkar, höfum við fylgt þessum málum eftir af festu og það er sannarlega nokkuð sem er metið. Sjálfur hef ég komið tvisvar til Úkraínu og fleiri okkar hafa farið þangað eftir að stríðið eða innrásin hófst. Nú síðast fór ég þangað í ágúst síðastliðnum og þar hitti ég m.a. ríkissaksóknara Úkraínu, Andriy Kostin, sem var algjörlega með það á hreinu að það sem við höfum verið að gera, eins og með tjónaskrána og með samþykkt okkar hér um hungursneyðina, Holodomor — hann hvatti aðra sem þar voru til að taka Ísland til fyrirmyndar í þeim efnum. Þannig að það skiptir máli að nálgast þessa hluti, mannréttindamálin, ekki síður en annan stuðning sem þarf að veita.

Það er margt minnisstætt, fólk sem maður hefur hitt og spjallað við og situr ýmislegt eftir. Ég hef áður vitnað í ráðamenn sem ég hitti í febrúar á síðasta ári en svo er það líka bara venjulegt fólk á förnum vegi, til að mynda blaðakona sem sagði: Það sem við þráum er að hafa tækifæri til að velja okkar eigin veg, frelsi til að vera ósammála og takast á um hvert við stefnum, það þrái ég. Annar, sem reyndar var samt að aðstoða varnarmálaráðherra á þeim tíma, sagði: Þetta stríð byrjaði með atvinnuhermönnum en við munum enda það með kennurum og nemendum þeirra. Þetta var svona frekar raunsönn nálgun eða lýsing á þessum hryllingi sem menn sáu fyrir sér að ætti eftir að halda áfram að versna áður en eitthvað frekar gerðist.

Við höfum því verið að reyna að sinna þessu með öllum mögulegum hætti og lagt til þess og ég held að við eigum auðvelt með að skilja stöðu þeirra. Það er ekkert langt síðan við endurheimtum okkar sjálfstæði, Íslands, sem fullvalda þjóð og við skiljum hvað það þýðir að vera fullvalda og hvað það skiptir máli að geta haft eigin menningu og raunverulega bara sögu og slíkt sem þjóð, hver við erum sem þjóð, við sem Íslendingar, þau sem Úkraínumenn. Síðan er athyglisverð sú áhersla þeirra á að þau vilji ekki bara vera hluti af Evrópu heldur líka hluti af Norður-Evrópu. Þau eru farin að hugsa um framtíðina, þrátt fyrir að þessi hryllingur sé enn í gangi. Síðustu daga hef ég setið, reyndar í gegnum netið, á lýðræðisráðstefnu í Úkraínu sem fór fram við Truskavets í Lviv Oblast síðustu daga og stendur enn, þar sem er sérstök áhersla á að tengjast betur Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum og því sem við stöndum fyrir og að þar sé einhver sameiginleg framtíð þessara landa og samlegð. Það var ánægjulegt að fá tækifæri til að taka þátt í þeirri ráðstefnu og pallborðsumræðum og slíku sem því fylgdi.

Það er ýmislegt um þetta að segja en það skiptir máli sem við erum að gera hér. Vissulega er þessi tillaga mjög almenn og kannski hefði alveg mátt fara lengra í því að reyna að segja meira hvað við ætlum að gera og koma enn þá meira með áherslur í þeim efnum og hvað við getum sérstaklega gert sem lítil vopnlaus þjóð sem er samt góð í ýmsu og getur veitt stuðning. En það sem skiptir máli og Úkraínumenn hafa kallað eftir er fyrirsjáanleiki og það er mikilvægt að geta sent þau skilaboð: Við erum hér að staðfesta það að við ætlum að standa með ykkur, ekki bara til næsta árs heldur næstu fimm árin erum við raunverulega að lýsa því yfir að við ætlum að standa við bakið á ykkur. Sú stefnufesta og fyrirsjáanleiki skiptir máli og er kannski það sem ég sé mikilvægast við þessa stefnu sem hér er til umræðu.