154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[17:48]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú verð ég að vera ósammála hv. þingmanni. Þetta er stjórnartillaga og þó að öll utanríkismálanefnd sé sammála um að þetta sé góð tillaga þá er þetta stjórnartillaga, hún lýsir yfir ákveðinni stefnu, hér eru gefin fyrirheit um gríðarleg fjárframlög. Hún lýsir yfir að þessum fjárframlögum skuli m.a. eytt í stuðning við varnarbaráttu Úkraínu til að tryggja fullveldi og öryggi borgara og mikilvægra innviða. Þetta er 3. gr. í þessari þingsályktunartillögu. Þegar þetta er skoðað nánar þá kemur hér fram, með leyfi forseta, í greinargerð með tillögunni, í kaflanum um sjóði til stuðnings vörnum Úkraínu:

„Á meðan á stríðinu stendur mun Ísland áfram leggja til fjármagn í sjóði Úkraínu sem sinna varnartengdum verkefnum, þ.e. kaupum á útbúnaði, birgðum og stuðningi við þjálfunarverkefni. Stærstu framlögin eru áætluð í stuðningssjóð Atlantshafsbandalagsins og alþjóðlegan sjóð til stuðnings Úkraínu sem Bretar leiða. Síðarnefndi sjóðurinn sinnir útboðum og innkaupum á hergögnum í samræmi við óskir Úkraínu. Rekstur sjóðsins hefur gengið vel og eru skilaboðin frá úkraínskum stjórnvöldum þau að hann bregðist skjótt og vel við óskum þeirra.“ — Óskum um hergögn.

Virðulegi forseti. Þetta er ákveðin stefnubreyting, að Ísland sé að taka beinan þátt í að kaupa hergögn. Burt séð frá því að auðvitað styðjum við Úkraínu heils hugar þá finnst mér ótrúlegt að þetta hafi ekki fengið umræðu innan nefndarinnar, að það hafi ekki verið kallaðir til umsagnaraðilar, að það hafi ekki þótt tilefni til þess að gefa friðarhreyfingum þessa lands og öðrum sem láta sig málið varða tækifæri til að tjá sig um þessa stefnubreytingu og að þetta mál skuli vera komið hingað núna í síðari umræðu með, eins og við sjáum, ekkert gríðarlega mikilli þátttöku eða umræðu. Þetta virðist ekki fara neitt voðalega hátt. Þetta fékk líka bara enga þinglega meðferð í nefndinni. Þess vegna átta ég mig ekki á því hvers vegna hv. framsögumaður nefndarálitsins getur ekki gert grein fyrir því hvers vegna málið fékk ekki þinglega meðferð. En það verður væntanlega bara að hafa sig. (Forseti hringir.) Ég er ósátt við, eins og kannski heyrist, þessa meðferð og ég óska þess að nefndin taki þetta til endurskoðunar.