154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[17:51]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ísland hefur verið að styðja með margvíslegum hætti við Úkraínu, m.a. hafa verið greiddir peningar í sjóði sem hafa verið nýttir til þess að fjármagna ýmislegt, þar með talið væntanlega varnarbúnað sem hér var nefndur. Við höfum líka veitt, ef við horfum á hluti eins og þjálfun í jarðsprengjuleit, þjálfun hjá Landhelgisgæslunni í slíku og það er hlutur sem við erum góð í. Ég er kannski að tala fyrir mig þegar ég segi að við erum lítil, vopnlaus þjóð og höfum ákveðna stöðu líka bara á alþjóðavettvangi sem slík til að geta bakkað upp úkraínsku þjóðina. Það er ekki okkar styrkur umfram önnur ríki að vera að blanda okkur sérstaklega í hernaðaraðstoð. Við höfum styrk og stöðu á öðrum sviðum, erum jafnvel bara ansi fær þar og höfum kannski enn þá meira fram að færa sem þjóð til stuðnings úkraínsku þjóðinni. En tillagan hins vegar er samt talsvert almenn og þetta var niðurstaðan. Það var svo sem ekki mikil umræða önnur þegar mælt var fyrir henni á sínum tíma og engin ljós á lofti um að það væri að vænta mjög skiptra skoðana um málið. Við sjáum að það er ekki fjölskipað hér heldur við þessa umræðu. Það var alla vega niðurstaða nefndarinnar að hafa þetta með þessu hætti og tillagan liggur hér fyrir og með þessum almenna hætti og ég sagði að það hefði kannski verið hægt og verið alveg ástæða til að fara nákvæmar ofan í það. En ráðherra hefur samt sínar heimildir, með eða án þessarar tillögu.