154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[18:04]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. formanni utanríkismálanefndar, Diljá Mist Einarsdóttur, fyrir sína ræðu og tek heils hugar undir mikilvægi þess að við styðjum við Úkraínumenn með ráðum og dáð og ég hef verið öflugur talsmaður þess, bæði hér og á erlendri grundu. En ég vil eftir sem áður spyrja út í málsmeðferðina á þessari stjórnartillögu sem mér þykir ekki alveg eðlileg, þ.e. að það hafi verið ákveðið að óska ekki eftir umsögnum í þessu máli. Ég vildi óska eftir skýringum á þessu þar sem mér þykir alveg eðlilegt að kallað sé eftir umsögnum í máli sem þessu og það geti átt sér stað lýðræðisleg umræða, byggð á margvíslegum forsendum sem við fáum frá félagasamtökum og öðrum aðilum sem hafa áhuga á að leggja sitt til málanna. Við erum með þessu að leiða inn ákveðna stefnubreytingu, sem ég held að gefi fullt tilefni til að fá umsagnir, og það snýr að því að nota íslenskt fjármagn til að kaupa hergögn fyrir Úkraínu. Við kunnum að vera ósammála um að það sé góð hugmynd, virðulegi forseti, en við hljótum að vera sammála um að það sé nauðsynlegt að ræða það vegna þess að við erum herlaus þjóð, vegna þess að þetta er ekki okkar lína. Við höfum verið að beita okkur fyrir friðsamlegum lausnum. Við höfum verið að veita borgaralegan stuðning og hingað til hefur það ekki verið okkar stefna að styðja við kaup á hergögnum svo framarlega sem ég veit. Hvers vegna var ákveðið að óska ekki eftir umsögnum? Var ekki rétt að gera það? Telur hv. formaður nefndarinnar mögulega rétt að gera það nú og leyfa þessari lýðræðislegu þátttöku að eiga sér stað og gefa málinu eðlilega þinglega meðferð?