154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[18:11]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni síðara andsvar og hv. þingmaður heldur áfram að gera athugasemdir við málsmeðferðina. Eins og málið er vaxið þá taldi ekki bara ég heldur öll hv. utanríkismálanefnd ekki vera tilefni til þess að leita umsagna og ég tel að það sé alls ekki óeðlileg málsmeðferð. Mér þykir í raun furðulegt að gera málsmeðferðina tortryggilega með þessum hætti. Í nefndinni situr auðvitað, þó að það sé áheyrnarfulltrúi, fulltrúi þingflokks hv. þingmanns og ég man ekki betur en að sá hv. þingmaður hafi verið sammála þessari málsmeðferð og afgreiðslu nefndarinnar eftir því sem ég best man. Ég stend við það að þetta hafi ekki verið óeðlileg málsmeðferð og það sé engin ástæða til að tortryggja hana. Þótt ég vilji ekki leggja hv. þingmanni orð í munn þá finnst mér ég skynja á tóninum í málflutningi hv. þingmanns að Píratar séu einhvern veginn andsnúnir því að við verðum við óskum Úkraínumanna um að liðsinna þeim við fullnægjandi varnir og ég er þeirrar skoðunar að við eigum ekki að skera okkur úr okkar nágranna- og vinaþjóðahópi þegar kemur að því að liðsinna Úkraínumönnum eins og þeir óska þess þó að við séum friðsæl og herlaus þjóð. Og kannski ekki síst út af því. Við verðum kannski ekki alltaf í þeirri öfundsverðu stöðu að að okkur steðji ekki bein ógn og þegar maður er búinn að óska eftir því að vera súkkulaði of lengi þá er ekkert víst að hjálpin verði fljót að berast.