154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[18:47]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sitt innlegg hér. Þingmaðurinn nefndi í ræðu sinni Ísrael og Palestínu harmleikinn sem er yfirstandandi og að líkindum ófriðurinn að magnast í þeim heimshluta. Nú erum við á vissan hátt með óheppilegum hætti tengd stofnun Ísraels með því að íslenskur sendiherra í New York mælti fyrir þeirri tillögu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ég hef sagt það hér áður og segi enn og aftur að það hefði átt að vera fyrirsjáanlegt að það væri ekki góð hugmynd að planta ísraelsku þjóðinni inn í Palestínu. Það máttu allir skilja og sjá að þar færu ólíkir menningarheimar, ólík hugmyndakerfi og friður væri nánast útilokaður með þeim þjóðum. Jimmy Carter sagði einhvern tímann að sá bandaríski stjórnmálamaður sem ekki kysi með Ísrael eða setti ísraelska hagsmuni í fyrirrúm yrði aldrei kjörinn aftur og við sjáum ótrúlega þægð Bandaríkjamanna við framgöngu Ísraelsmanna á Gaza og það er fyrst núna bara á síðustu vikum og mánuðum sem aðeins er byrjað að setja spurningarmerki við þá framgöngu sem þar hefur verið linnulaus, með ofboðslegu fjármagni m.a. frá Bandaríkjunum. Því spyr ég þingmanninn enn og aftur: Er ekki mikilvægt þegar við erum í alþjóðlegum samskiptum, hvort sem það er við Bandaríkjamenn eða NATO eða aðrar þjóðir, að við áskiljum okkur rétt til þess að spyrja okkar eigin samvisku og treysta okkar eigin dómgreind og hyggjuviti þegar kemur að þátttöku í fjölþjóðlegum aðgerðum, hverjar sem þær kunna að vera?