154. löggjafarþing — 103. fundur,  29. apr. 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[15:12]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Eins og ég kom inn á hér áðan þá greiði ég ekki atkvæði með þessum hluta tillögunnar vegna þess að í greinargerð með tillögunni kemur fram að hann sé m.a. hugsaður til þess að borga í sjóði sem kaupa vopn fyrir Úkraínumenn og ég tel það ekki samræmast gildum utanríkisstefnu Íslands að standa svona að stuðningi við Úkraínu. Ég tel að okkar sérfræðiþekking og stuðningur eigi betur heima þegar kemur að borgaralegum stuðningi heldur en með beinum stuðningi við kaup á vopnum eða skotfærum.

Síðan vildi ég bæta við hér, vegna þess að ég hef þetta tækifæri, að það hefði mátt styrkja þessa tillögu með því t.d. að lýsa yfir vilja til að stórefla þvingunaraðgerðir gagnvart einstaklingum sem eru að fremja mjög gróf mannréttindabrot gagnvart þeim sem standa gegn stríðinu í Rússlandi og í Belarús. Það hefði líka mátt lýsa yfir stuðningi við þá sem eru að standa gegn stríðinu í Rússlandi og Belarús og reyna þannig að stuðla að friði í Úkraínu.