154. löggjafarþing — 103. fundur,  29. apr. 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[15:13]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Sem fyrr segir sit ég hjá við atkvæðagreiðslu varðandi 3. tölulið þar sem ég get ekki stutt það að við séum að veita fjármuni í bein hergögn, vopnaflutninga og vopn. Að því sögðu styð ég markmið þessarar tillögu í heild sinni. Ísland á alþjóðavettvangi á sjálfstæði sitt og öryggi, stöðu sína sem fullvalda ríki undir því að alþjóðalög séu virt. Við erum að berjast við, við erum að fást við ólöglegt innrásarstríð og það er eðlilegt að Ísland taki til varna með þeim tækjum sem við höfum, þó í samræmi við okkar gildi sem ég tel fjárveitingar til beinna hergagna ekki samræmast.

Að því sögðu þá styð ég þessa tillögu í heild og tek undir það sem hefur komið fram hérna um að það hefði þurft miklu meira. Ég er á þeirri skoðun að íslensk stjórnvöld og ríkisstjórnin mætti stíga miklu fastar niður á alþjóðavettvangi varðandi það að við krefjumst þess að alþjóðalög séu virt í öllum (Forseti hringir.) þeim átökum sem eru að eiga sér stað. Þá er ég ekki síst að tala um Palestínu þar sem við erum að horfa upp á ein grófustu (Forseti hringir.) og alvarlegustu brot á alþjóðalögum sem ég held að sögur fari af.