154. löggjafarþing — 103. fundur,  29. apr. 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[15:16]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég tek heils hugar undir að það er mjög mikilvægt að styðja Úkraínu og ég hef gert það og við Píratar, bæði hér á Alþingi sem og í alþjóðastarfi þingsins. Af þeim sökum tel ég rétt að við tökum það til alvarlegrar skoðunar í framhaldi af samþykkt þessarar tillögu, sem ég tel að verði mjög góður samhljómur um hér á þingi, að ræða hvernig við getum betur stutt við þær þúsundir ef ekki hundruð þúsunda innan Rússlands sem eru að berjast gegn þessu stríði. Ég tel að með því getum við eflt þau öfl sem standa gegn stríðinu og unnið gegn því að það haldi áfram. Fyrir liggur ályktun frá Evrópuráðsþinginu þess efnis með fjöldanum öllum af tillögum til stjórnvalda um hvernig þau geti stutt við t.d. Vladimír Kara-Murza sem var dæmdur í 25 ára fangelsi fyrir að hafa talað opinberlega gegn stríðinu og á líklega ekki eftir að lifa lengi (Forseti hringir.) vegna veikinda og illrar meðferðar. Við getum gert meira til þess að styðja við þennan hóp og það mun vonandi líka stuðla að friði í Úkraínu.