154. löggjafarþing — 103. fundur,  29. apr. 2024.

skert þjónusta hjá meðferðarstöðinni Vík .

[15:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir að koma með þessa fyrirspurn. Við höfum rætt þetta áður, það er rétt sem hv. þingmaður fer hér yfir. Ég verð bara að segja það hér að ég hef ekki fengið neina beina eða sérstaka tilkynningu um það að SÁÁ ætli sér að loka þessari starfsemi í sumar. Ég veit það bara vegna þess að í fyrrasumar spurði ég að því hvað það myndi kosta að manna þetta og halda þessu gangandi og það er ekki fjármagn sem á að standa í neinum. Ég er alltaf tilbúinn í það samtal ef við getum tekið höndum saman um það, og þá í gegnum þær samningsviðræður sem eiga sér stað á milli Sjúkratrygginga og SÁÁ, að fara í það verkefni, ég er alltaf tilbúinn til þess. Það strandar þá frekar á því að ná að manna verkefnið og stöðina í þessar vikur heldur en á fjármagninu á bak við það. Það á ekki að standa í neinum. Ég skal fyrstur manna koma inn í það samtal. En ég hef ekki verið upplýstur sérstaklega um að það standi til að loka í sumar en það hefur oft verið raunin. Ég reyndi að vera í tíma með það fyrir ári síðan og kanna hverju það sætti þegar ég sá það í fjölmiðlum. En ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að við eigum auðvitað að leita allra leiða til að halda þessu opnu og ég ítreka það bara að ég er alveg tilbúinn í það samtal og að finna fjármagn. Samningaviðræður ganga vel eftir því sem ég best veit á milli Sjúkratrygginga og SÁÁ. Það er rétt sem hv. þingmaður segir; þetta getur skipt þann hóp máli sem þarf samfellu í sín meðferðarúrræði á þeim tíma sem þetta á sér stað.