154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

Störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hæstv. matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hefur falið ráðuneyti sínu að endurskoða frumvarp um ótímabundin leyfi fyrir lagareldi eins og fram kom í fjölmiðlum í gær. Ég fagna þessari ákvörðun ráðherra enda hefur það endurspeglast í umræðunni að ekki er sátt um frumvarpið í óbreyttri mynd. Gríðarlega mikilvægt er að gera breytingar á núverandi kerfi hvar umhverfi, íbúalýðræði, hagur nærsamfélaga o.fl. er ekki í forgrunni. Í frumvarpinu má finna miklar breytingar þar sem m.a. er gengið lengra en í nágrannalöndum okkar hvað varðar þessa málaflokka og er það vel. Umræðan hefur að mörgu leyti verið ósanngjörn og það er dapurlegt þegar unnið er að mikilli bragarbót á óviðunandi kerfi að orðræðan fari einungis í það sem neikvætt er. Ég geri ráð fyrir því að við munum sjá breytingar á málinu inni í hv. atvinnuveganefnd. Ég styð það að málið taki breytingum, en mig langar að hvetja bæði þingheim og þjóðina til að kynna sér allar þær góðu breytingar sem felast í frumvarpinu þar sem í fyrsta sinn er verið að standa með íslenskri náttúru.