154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

Störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. matvælaráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um lagareldi sem er heildarlöggjöf um lagareldi með það að markmiði að festa ramma í kringum atvinnugreinina og efla þannig verðmætasköpun, atvinnulíf og byggð í landinu. Hér er horft til stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir að mótuð verði heildarstefna um fiskeldi hér á landi auk þess sem mótuð verði stefna um lagareldi í heild sinni, þ.e. sjókvíaeldi, landeldi, hafeldi og þörungaræktun.

Það má sjá í þessu frumvarpi að brugðist er við athugasemdum sem komu fram í stjórnsýsluendurskoðun Ríkisendurskoðunar. Þá var horft til skýrslu Boston Consulting Group, sem er greining á framtíðartækifærum og áskorunum í lagareldi á Íslandi. Í skýrslu Boston Consulting Group kemur fram að Ísland geti skapað sér samkeppnisforskot í lagareldi, en til þess þarf sterkan ramma utan um eldið og stjórnsýslan hefur ekki náð að fylgja eftir þeim vexti sem orðið hefur í sjókvíaeldinu. Bæði fiskeldið og sveitarfélögin sem snúa að eldinu hafa ítrekað kallað eftir að því eftirliti og rannsóknum sé sinnt í nærumhverfi þeirra. Við þessu er verið að bregðast. Í frumvarpinu er að finna útfærslur á leyfisveitingum sem settar eru fram sem ótímabundnar. Ég verð að viðurkenna að þessi útfærsla kom mér verulega á óvart því að ekkert í undanfara þessarar umræðu kallaði á slíka tillögu.

Ég vil ítreka það hér, og ég sagði það líka í ræðu minni við frumvarpið, að ég tel að hugmyndir í þessa átt séu vanhugsaðar auk þess sem það stríðir algjörlega gegn áður framkomnum skoðunum mínum í þessum efnum. Því fagna ég vilja hæstv. matvælaráðherra sem vill draga í land með þessar hugmyndir. En ég vil minna hæstv. matvælaráðherra á að málið er hjá hv. atvinnuveganefnd og þetta heyrðist fyrst úr þessum ræðustól en ekki úr ráðuneytinu. Það er ósk mín að umræða um þetta frumvarp fái heiðarlega umfjöllun og verði fjarri þeim drónaárásum sem borið hefur á í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum á þau samfélög sem búa við sjókvíaeldið sjálft.