154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

Staðan og aðgerðir í loftslagsmálum.

[14:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Græn orka, grænir hvatar, græn framtíð, það er heitið á loftslagsstefnu Viðreisnar. Við megum nefnilega ekki leyfa okkur að hugsa um þennan gríðarlega mikilvæga málaflokk út frá einhverri tvíhyggju sem mér finnst oft gæta, þ.e. að það sé annaðhvort áframhaldandi uppbygging virkjana eða náttúruvernd. Í okkar huga getur það vel farið saman. Við Íslendingar höfum haft lán til þess og sýnt fram á að það er hægt að byggja upp orkunýtingu samhliða mjög mikilli og mikilvægri náttúruvernd.

Við Íslendingar búum á eyju, eins og við þekkjum, og erum aðeins háð okkur sjálfum þegar kemur að orkuöflun og orkunýtingu. Við vitum líka að stærstu áskoranir samtímans eru á sviði umhverfismála. Við í Viðreisn viljum berjast fyrir því, og halda ríkisstjórninni við efnið, að við verðum í fremstu röð þegar kemur að baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Þar eru ákveðnar áhyggjur af minni hálfu þegar við höfum þessa ríkisstjórn. Við vitum vel að það vofir núna neyðarástand yfir heimsbyggðinni ef við aðhöfumst ekki og þar verðum við Íslendingar líka að gæta að okkar hlut. Þess vegna verðum við að taka stór og markviss skref og koma á hvötum, til að mynda í þá veru að þeir borgi sem menga. Við þurfum sjálfbæra og ábyrga umgengni við náttúruauðlindir þar sem náttúruvernd helst í hendur við nýtingu. Það er að mínu mati einn helsti lykillinn að grænni framtíð. Þannig eru öll mál umhverfismál.

Við eigum að setja okkur þessi háleitu markmið en það eitt og sér dugir ekki. Við þurfum skýra stefnu og svolítið líka sem kemur eiginlega ekki frá ríkisstjórninni, við þurfum ákvarðanir, ekki að halda ákvörðunum í gíslingu eða uppbyggingu orkumannvirkja í gíslingu eins og hefur verið í sjö ár af þessari kyrrstöðuríkisstjórn. Þetta er mjög kostnaðarsamt fyrir samfélagið og við höfum ekki efni á því. Við í Viðreisn höfum alltaf sagt að við eigum (Forseti hringir.) að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum og setja okkur metnaðarfyllri, mælanleg markmið. Öll skref í þá veru munum við í Viðreisn styðja.