154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

Staðan og aðgerðir í loftslagsmálum.

[14:33]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, Andrési Inga Jónssyni, fyrir frumkvæðið að þessari umræðu hér í dag. Píratar leggja áherslu á að loftslagsaðgerðir séu réttlátar, að ábatinn af þeim nái til alls samfélagsins, því þannig fáum við öll með í þær aðgerðir sem þarf að vinna í þágu framtíðarkynslóða.

Á síðustu árum hefur meginþunginn í fjárfestingu ríkisins í loftslagsaðgerðum verið í formi stuðnings við rafbílakaup. Þar skortir ríkisstjórnina hins vegar heildarsýn. Þessi stefna hefur sem dæmi ekki leitt til nauðsynlegrar fækkunar einkabíla. Engu að síður var hér aðgerð sem skilaði árangri en við afgreiðslu síðustu fjárlaga var þessu stuðningskerfi breytt án þess að gripið væri til heildstæðra aðgerða. Afraksturinn er hrun í sölu rafbíla frá áramótum. Grófara dæmi er þegar ríkisstjórnin ætlaði að fella algerlega niður ívilnun til reiðhjóla. Við Píratar tókumst á við hæstv. ráðherra um þessa ákvörðun, enda er þetta ein einfaldasta og skilvirkasta loftslagsaðgerðin sem virkjar ótrúlega stóran hóp fólks til að stunda virkar samgöngur í stað þess að stóla á einkabílinn. Á endanum hafði meiri hluti Alþingis sem betur fer vit fyrir ríkisstjórninni, þá sjaldan, og hélt áfram stuðningi við reiðhjólakaup. Hvernig hyggjast stjórnvöld tryggja að græn umskipti verði réttlát og horfast í augu við að fækka þarf einkabílum á götum Íslands? Þó að hæstv. ráðherra segist stefna að því að hver króna skili sem mestum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda var hvorug þessara ákvarðana metin út frá loftslagsáhrifum. Fæstar aðgerðir ríkisstjórnarinnar fara raunar í gegnum slíkt mat. Stjórnvöld verða að axla þá ábyrgð sem fylgir valdasetu á tímum loftslagsbreytinga. Í því felst að vernda hagsmuni komandi kynslóða með því að meta allar aðgerðir og útgjöld ríkisins út frá áhrifum þeirra á umhverfi og loftslag. Meginábyrgðin á því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hvílir á stjórnvöldum og fyrirtækjum. Einstaklingar eiga að búa við aukið valfrelsi, (Forseti hringir.) fá skýrari upplýsingar sem auðvelda þeim að velja umhverfisvæna kosti. Tækifærin eru allt í kringum okkur. Fólkið í landinu er tilbúið.