Samantekt um þingmál

Almennar íbúðir

435. mál á 145. löggjafarþingi.
Félags- og húsnæðismálaráðherra.

Markmið

Að bæta húsnæðisöryggi efnaminni fjölskyldna og einstaklinga með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi íbúðarhúsnæði til leigu og tryggja að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda. Frumvarpið er enn fremur liður í aðgerðum ríkisstjórnar Íslands til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, sbr. yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 28. maí 2015.

Helstu breytingar og nýjungar

Gerðar eru tillögur um nýja umgjörð um fjármögnun, rekstur og úthlutun á svokölluðum almennum íbúðum, leiguhúsnæði sem verði að hluta fjármagnað með stofnframlögum úr ríkissjóði og frá sveitarfélögum.  
Í frumvarpinu eru  ákvæði um almenn íbúðafélög, sem er ætlað að hafa með höndum kaup eða byggingu, eignarhald og umsjón með rekstri íbúðanna.
Einnig eru lögð til ákvæði um stofnframlög ríkis og sveitarfélaga til uppbyggingar íbúða sem reknar eru af almennum íbúðafélögum jafnt sem öðrum aðilum sem gert er ráð fyrir að geti verið viðtakendur stofnframlaganna.

Breytingar á lögum og tengd mál

  • Skylt mál: Húsnæðissamvinnufélög, 370. mál (félags- og húsnæðismálaráðherra) á 145. þingi (25.11.2015)
  • Skylt mál: Húsaleigulög, 399. mál (félags- og húsnæðismálaráðherra) á 145. þingi (02.12.2015)
  • Skylt mál: Húsnæðisbætur, 407. mál (félags- og húsnæðismálaráðherra) á 145. þingi (02.12.2015)
  • Skylt mál: Almennar íbúðir, 883. mál (velferðarnefnd) á 145. þingi (28.09.2016)

Kostnaður og tekjur

Í gildandi ríkisfjármálaáætlun stjórnvalda fyrir árin 2016–2019 og í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 hefur verið gert ráð fyrir 1,5 milljaðra kr. framlagi á ári til Íbúðalánasjóðs til stofnframlaga til byggingar eða kaupa á almennum íbúðum handa efnaminni leigjendum næstu fjögur árin.

Afgreiðsla

Frumvarpið varð að lögum með töluverðum breytingum. Þeirra á meðal eru breytingar á ákvæðum um stofnframlög. Einnig var fyrirsögn frumvarpsins breytt úr "Frumvarp til laga um almennar íbúðir" í "Frumvarp til laga um almennar félagsíbúðir".

Aðrar upplýsingar

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Forsætisráðuneytið 29. maí 2015.


Síðast breytt 03.06.2016. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.