Samantekt um þingmál

Samkeppnislög

610. mál á 150. löggjafarþingi.
Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Markmið

Að gera breytingar á samkeppnislögum sem bæti framkvæmd þeirra og samræmi hluta laganna gildandi EES-rétti. Stefnt er að einföldun á tilteknum atriðum við framkvæmd laganna, einkum hvað varðar bann við samkeppnishömlum og reglur um meðferð samrunamála. Frumvarpið er hluti af ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar vegna lífskjarasamninga sem undirritaðir voru í apríl 2019.

Helstu breytingar og nýjungar

Verði frumvarpið að lögum verður gildistími ráðningarsamnings forstjóra Samkeppniseftirlitsins fimm ár en er ótímabundinn nú. Lagt er til að hlutaðeigandi fyrirtæki meti sjálf hvort þau uppfylla lögbundin skilyrði vegna undanþága frá banni við samstarfi fyrirtækja. Enn fremur er lagt til að heimild Samkeppniseftirlitsins til íhlutunar án brots falli brott. Þá er lagt til að veltumörk tilkynningarskyldra samruna verði hækkuð og að þau skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt til að heimilt sé að tilkynna samruna með styttri tilkynningu séu rýmkuð. Gert er ráð fyrir að veltumörk, sem skilyrði fyrir heimild Samkeppniseftirlitsins til að krefja samrunaaðila um samrunatilkynningu, verði hækkuð. Heimild Samkeppniseftirlitsins til að kalla eftir samrunatilkynningu á við þá samruna sem ná ekki veltumörkum tilkynningarskyldra samruna. Sú hækkun er hlutfallslega jafn mikil og hækkun á veltumörkum tilkynningarskyldra samruna þannig að neðri veltumörkin fylgja þeim efri. Að auki er gert ráð fyrir að almennur tímafrestur til rannsóknar samrunamála verði 115 dagar í tveimur fösum. Lagðar eru til breytingar í tengslum við norrænan samstarfssamning í samkeppnismálum frá árinu 2017, sem veitir Samkeppniseftirlitinu heimildir til að framkvæma húsleitir, upplýsingaöflun og upplýsingaskipti að beiðni samkeppnisyfirvalda í Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Grænlandi og í Færeyjum.

Breytingar á lögum og tengd mál

Samkeppnislög, nr. 44/2005.
Raforkulög, nr. 65/2003.

Kostnaður og tekjur

Talið er að frumvarpið hafi takmörkuð en varanleg áhrif á ríkissjóð verði það samþykkt óbreytt og birtist þau í aukinni fjárþörf til starfsemi Samkeppniseftirlitsins.

Afgreiðsla

Samþykkt með fáeinum breytingum.

Aðrar upplýsingar





Síðast breytt 01.07.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.